Litið inn hjá Sigurði Einarssyni arkitekt
Það er alltaf forvitnilegt að sjá hvernig arkitektar búa – ekki síst þeir sem hafa náð langt í sínu fagi, unnið fjörmargar hönnunarkeppnir og farið í útrás. Eru þeir alltaf að teikna sér ný hús eða eru þeir alltaf í húsinu sem þeir teiknuðu fyrst? Teiknuðu þeir húsin sín sjálfir? Eru húsin dæmigerð fyrir þá? Skiptir umhverfið máli? Endurnýta þeir efni? Hvað hafa þeir að leiðarljósi þegar þeir teikna hús fyrir sig og fjölskyldu sína?
Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríinu er einn þeirra arkitekta sem teiknaði sitt hús sjálfur fyrir tuttugu árum, þá nýkominn úr námi. Það tók hann eitt ár (með fullri vinnu) að þróa teikninguna og það má alveg segja að fullbúið húsið hafi verið upptakturinn af því sem koma skyldi í hönnun hans; það hafi verið nokkuð dæmigert fyrir hans stíl og hugmyndafræði. Þar hefur hann nú búið í átján ár, ásamt eiginkonu sinni og fimm börnum.
Fékk draumalóðina
Hús Sigurðar er í Setbergslandi í Hafnarfirði. Fyrir ofan húsið er uppland Hafnarfjarðar og hinn rómaði Hafnarfjarðarlækur rennur í gegnum forgarðinn. Húsið er stálgrindarhús sem er klætt með gifsi að innan og bárujárni að utan. Lóðina fékk Sigurður árið 1990. „Á þessum tíma var öllu þessu hverfi úthlutað. Okkur hjónin dreymdi um að fá þessa lóð en á þeim tima var dregið um lóðirnar,“ segir hann. „Þegar kom að því að draga, sagði ég við konuna mína að hún skyldi draga, vegna þess að hún væri alltaf svo heppin. Hún dró númer fjögur, sem þýddi að hún var fjórða manneskja til að velja lóð. Það voru þrír á undan henni. Það varð okkur hins vegar til happs að þeir völdu allir þrír lóðir hérna uppi á ásnum, með útsýni yfir Hafnarfjörð. Við völdum auðvitað draumalóðina okkar hérna niðri í hvilftinni og það hefur aldrei hvarflað að okkur að hreyfa okkur héðan.“
Og þá var bara að teikna húsið og byggja það. Lóðin er á stöllum og húsið er hannað inn í það umhverfi. Eftir ár var svo tekið til við að byggja stálgrindahúsið. „Þegar stálgrindin var risin heyrði ég að fólk hér í kringum okkur væri mjög
hneykslað á því og spurðu hvort ætti nú að fara að reisa iðnaðarbyggingu hér í miðju íbúðahverfi. Ég var þá þegar farinn að hugsa um umhverfismál – og langaði til að prófa hitt og þetta. Við áttum engan pening og enga eign fyrir. Konan mín er hjúkrunarfræðingur en var heimavinnandi á þessum tíma vegna þess að við vorum þá komin með þrjú börn. En þetta mjakaðist hjá okkur og 1993 ætluðum við að flytja inn.
Það vildi þó ekki betur til en svo að áður en til þess kom fótbraut ég mig mjög illa í fótbolta og það varð ekkert úr flutningum fyrr en 1994. Þá var húsið nokkuð klárt utan um fimm manna fjölsyldu. Uppphaflega ætluðum við bara að eiga þrjú börn – en þau urðu fimm. Það var því ekki annað að gera en að innrétta bílskúrinn fyrir elstu strákana og láta bílinn standa úti. Seinna meir ákvað ég síðan að ráðast í að byggja nýjan bílskúr og var rétt búinn að láta grafa fyrir honum 2008, þegar allt hrundi. Ég náði þó að klára hann.“
Skógræktaráhugi frá barnsaldri
Lóðin er á stöllum og það má segja að hús Sigurðar sé ysta húsið í dalnum. Hann á ekki sameiginleg lóðamörk með neinum nema bænum, göngustígur skilur hann frá næsta nágranna og það er varla hægt að búa nær ósnortinni náttúrunni í þéttbýli. Sigurður, sem er í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hefur látið eðli lóðarinnar ráða miklu um það hvernig hún er ræktuð. „Við köllum þetta aldrei garðinn okkar, heldur landareignina. Þetta var bara melur þegar við fengum lóðina en við höfum plantað miklu af trjám hér og nú þegar er byrjaður að koma skógarbotn þar sem við gróðursettum fyrst. Við vildum hafa lóðina sem náttúrulegasta og viðhaldsminnsta. Þetta var spurning um skjól, útsýni og blöndu af sígrænu og laufi.“
Sigurður segist alltaf hafa haft mikinn skógræktaráhuga. „Ég bjó í sömu götu og Jón í Skuld sem rak fyrir mína tíð strætó hér í Hafnarfirði. Hann var einn af sofnendum Skógræktarfélagsins og var með plöntusölu. Hann var svo áhugasamur um skógrækt að sagan segir að þegar farþegar stigu inn í strætó voru þeir spurðir hvort þeir væru ekki örugglega félagar í skógræktarfélaginu. Mamma og systir mín unnu hjá honum í plöntusölunni þannig að ég ólst upp í tengslum við skógrækt. Sem betur fer. Það er mjög öflugt starf í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar; með því öflugasta á landinu.“
Endurnýting og óhefðbundnar leiðir
Eins og Sigurður segir, var hann þegar á þessum árum farinn að velta umhverfismálum og endurnýtingu fyrir sér. Það sést best þegar komið er inn í húsið, þar sem endatrésparket er á gólfum á jarðhæðinni. „Þetta er parketið úr gömlu Borgarkringlunni,“ segir hann. „Við unnum að breytingunum þegar Kringlurnar voru sameinaðar. Þá var þetta parket rifið og átti bara að fleygja þvi. Ég ákvað að hirða það og hér hefur það verið í öll þessi ár. Ég hef alltaf verið mjög ánægður með þetta parket. Það er harðgert og þolir vel allt hnjask. Eina sem hefur þurft að gera, er að lakka það og það eldist mjög vel.“
Sigurður byrjaði að byggja með tvær hendur tómar og sá fyrir sér að hann gæti byggt húsið að mestu leyti sjálfur. „Ég fékk fagmenn til að steypa grunninn, keypti stálgrindur af stálsmiðum og vann sjálfur að því að gera húsið fokhelt. Síðan fékk ég smiði til að ganga frá klæðningu og gluggum og þessu vandasamasta. Að lokum innréttaði ég húsið sjálfur, með hjálp góðra manna. Ég vann að mestu í þessu sjálfur – og það var frábær skóli. Ég er þeirrar skoðunar að það sé öllum sem hanna byggingar mikilvægt að fara að minnsta kosti einu sinni i gegnum það að reisa hús. Ég lærði alveg ótrúlega mikið á því.“
Og áfram hélt Sigurður með aðferðir sem voru óhefðbundnar fyrir Ísland. „Menn eru vanir að nota það sem kallað er vindvörn undir bárujárnið, pappa eða krossvið. Ég notaði útigifs sem var nánast óþekkt hér. Það hefur reynst alveg rosalega vel, bæði sem vindvörn og stífing á húsið. Sá frágangur sem ég notaði á þakið var ekki heldur algengur. Venjulega eru menn með bárujárn sem er neglt ofan í þakklæðninguna en ég er með heilsoðinn pappa og síðan með lista sem égskrúfa bárujárnið ofan á. Þetta var ný aðferð. Þú máttir ekki vera með bárujárn á láréttu þaki, en þetta leysti það vandamál og þau útlitslegu markmið mín að húsið ætti allt að standa í bárujárni.“
Umræðan um húsasótt
Nýi hluti hússins, sem var byggður eftir að fjölskyldan stækkaði er þó ekki klæddur bárujárni. „Nei,“ segir Sigurður. „hann er teiknaður fimmtán árum seinna og ég er ekkert feiminn við að láta það sjást. Þar er ég með slétta álklæðningu.“
Á þeim tíma sem Sigurður var að hanna húsið sitt var mikið talað um húsasóttog hvað orsakaði hana. Menn töldu m.a. að misjafnt rakastig húsa væri orsök en einnig stafaði húsasótt frá ýmsum plastefnum; plastdúkum, jafnvel málningu, plastpanelum og drasli sem gaf frá sér eiturgufur. Sigurður segist hafa verið mjög meðvitaður um þessa þætti og áttað sig á því hversu vel gifsið vinnur með raka. „Það gefur og tekur, rétt eins og ómeðhöndlaða timbrið sem ég er með á gólfunum á svefnhæðinn,“ segir hann. „Það er bara sápulútur á því. Ég vildi ekki heldur fá ofna fyrir gluggana og gerði því ofnagryfjur í gólfin, sem var ekkki algengt þá. Þetta virkar mjög vel – en ég er með gólfhita í hluta af húsinu, sem var notað í mjög takmörkuðu mæli á þessum árum.“
Sýn arkitektsins
„Svo voru það arkitónísku pælingarnar á þessum tíma. Megin hugmynd hússins er blái kassinn, mjótt rými sem keyrir í gegnum húsið á jarðhæðinni og skipir því í tvennt. Inni í þessum kassa er ég með ýmsa skápa, gestasnyrtingu og fataskápa og úti með sorpgeymslu. Hluti af stiganum er klemmdur inn í þetta rými. Á efri hæðinni er ég með rauða veggskífu sem sker húsið í tvennt á efri hæðinni og stingur sér út úr húsinu báðum megin. Þar sem stálgrindin er sýnileg er hún máluð neongræn. Stundum er það fyrir tilviljun en stundum er það meðvitað til að láta hana sjást. Ég hef alltaf verið hrifinn af grunnlitum,“ segir Sigurður og bendir á tvo stóla sem standa í stofunni hjá honum. „Ég smíðaði þessa stóla sem eru hannaðir af Rietvelt. Hann var Hollendingur og hannaði þennan stól „red and blue chair“ 1917. Hann var mjög upptekinn af þessum formpælingum á þeim tíma. Þarna er rauð skífa og blá skífa. Þetta var formleikur sem heillaði mig mjög og ég vildi halda áfram með.“
Þegar Sigurður er spurður hvot hann hafi sótt í smiðju annarra arkitekta á þessum tíma, segir hann það eiginlega ekki vera. „Á þessum íma var ég dálítið hrifinn af arkitektunum Peter Eisenman og James Stirling. Það má vel vera að rekja megi einherjar hugmyndir til þeirra. Þeir höfðu ákveðna nálgun sem heillaði mig í arkitektúr. Hugmyndirnar að hönnun hússins koma héðan og þaðan og það má segja að það sé minn kokteill af hugmyndum.“
Nýting dagsbirtunnar
Enn eitt sem vekur athygli þegar húsið er skoðað, eru stórir gluggar og hin mikla dagsbirta sem fyllir húsið. „Ég var mikið að stúdera birtuna á þeim tíma sem ég teiknaði húsið – og hún hefur reyndar alltaf verið veigamikill þáttur í minum umhverfispælingum. Húsið er allt meðvitað byggt þannig að tekið sé mið af birtu, að dagsljóðsið sé vel notað. Þetta átti ekki síst við um vinnuaðstöðu barnanna og herbergið sem ég ætlaði að hafa fyrir vinnustofu. Það varð þó að barnaherbergi og er enn – en ég fæ það bara einhvern tímann seinna.
Þar sem húsið er byggt á stöllum vildi ég líka geta gengið út og inn þar sem hentaði best hverju sinni. Það er gengið út að þvottasnúrunum austan megin í húsinu, pallurinn er í suður og síðan erum við með annan pall sem snýr í vestur til að njóta þess að borða úti í kvöldsólinni. Þar gróðursetti ég skjólbelti til að verja okkur fyrir hafgolunni. Ég var búinn að þaulhugsa þetta og við nýtum þessi nærsvæði mjög vel. Meginhugmyndin að húsinu kom á einu augnabliki en svo var útfærslan að þróast í heilt ár.
Ef þú skoðar til dæmis pallinn, þá endurnýtti ég mótatimbur í hann – og það hefur dugað í átján ár. Ég hef ekkert gert við það og það er fyrst núna sem er kominn tími til að skipta. Pallurinn er við svartan bárujárnsvegg og það var mín íslenska tenging við gömlu, tjörguðu timburhúsin. Ég vildi hafa þetta svart með hvítum gluggum. Síðan kom bara í ljós að þessi svarti bárujárnsveggur veitir þennan ágæta yl í bakið þegar setið er við hann í sólinni og það er mikill kostur þegar lofthiti er ekkert alltof hár á Íslandi. Þegar ég skipti um efni á pallinum ætla ég líka að setja þak næst húsinu og glerskjólvegg að hluta og þá verður ennþá betra að sitja þarna úti.
Hvergi bruðlað
Það er orðið nokkuð ljóst að Sigurður er ekki arkitekt sem bruðlar með hlutina. Eldhúsið, eins og annað, ber þess skýr merki. Gott vinnueldhús með haganlegri og fallegri innréttingu. „Á þessum tíma var ég byrjaður að vinna með birkikrossvið og ákvað að nota hann í eldhúsinnréttinguna. Bróðir minn sem er smiður og hafði búið í Svíþjóð þegar ég byggði húsið, var kominn heim og hann smíðaði fyrir mig innréttinguna. Ég vildi hafa hana í viðarlit til að láta sjást í einhvern viðarlit i húsinu og síðan eru stálplötur á vinnuborðunum, þannig að það er mjög þægilegt og gott að vinna í þessu eldhúsi.
Á heimili Sigurðar er mikið af fallegum málverkum og útskornum hlutum sem gefa því afar persónulegan, hlýlegan og sterkan blæ. Þegar hann er spurður hvaðan listaverkin koma, klórar hann sér í höfðinu og segir: „Ja, ég mála dálítið í frístundum og hef gaman af því að vinna með formteikningar sem kallast á við liti. Útskurðurinn kemur svo frá tengdapabba. Hann var læknir og þegar hann varð sjötugur gáfum við honum útskurðarsett. Hann reyndist svo bara þessi líka flinki útskurðarmeistari.“
En hvernig er það, skyldi aldrei hafa freistað Sigurðar í gegnum árin að teikna sér nýtt hús?
„Nei, það hefur aldrei freistað mín. Ég er svo ánægður með staðsetninguna og húsið. Það var mjög ódýrt og hagkvæmt í byggingu. Lofthæðin er góð og það er hvergi bruðlað með rými. Húsið eldist vel – með okkur. Hér líður okkur vel.“