Ísland – Land tækifæranna
Á síðustu tveimur árum hafa stjórnvöld gripið til markvissra aðgerða til að efla nýfjárfestingu á Íslandi og fjölbreytta atvinnuuppbyggingu. Nú er svo komið að tækifærin liggja víða og við sjáum fleiri og fleiri dæmi um fjölbreytta nýja starfsemi skjóta upp kollinum. Með einföldun regluverks og breytingum á skattkerfinu hefur verið skapaður grundvöllur fyrir nýja atvinnustarfsemi og má í því skyni t.d. benda á vaxandi fjölda sprotafyrirtækja. Áhersla hefur verið lögð á nýsköpun og rannsóknar- og þróunarverkefni m.a. með auknum framlögum í styrktarsjóði eins og Tækniþróunarsjóð og RANNÍS. Við erum þegar farin að sjá jákvæðar afleiðingar af þeim aðgerðum.
Ragnheidur Elin ljosmyndÁtak hefur verið gert í að efla innviði á sviði raforku og treysta afhendingaröryggi raforku, m.a. með lagabreytingum, en það er lykilatriði í hverskonar atvinnuuppbyggingu, sérstaklega á landsbyggðinni. Fjárfestingarsamningar með skilgreindum ívilnunum eru í boði fyrir hvers konar nýfjárfestingu, til að tryggja að Ísland sé samkeppnishæft þegar kemur að því að efla nýfjárfestingu og grípa þau tækifæri sem þar gefast. Við höfum þegar séð ávinningin af því og fjárfestingarstigið í landinu er á uppleið sem er afar mikilvægt fyrir jákvæðan vöxt efnahagslífsins.
Öll orka sem framleidd er á Íslandi er af endurnýjanlegum uppruna (vatnsafl, jarðvarmi og vindorka). Fyrir vikið er íslensk raforka eftirsótt vara og er nú svo komið að framboð annar ekki eftirspurn. Ónýttir virkjunarkostir eru til staðar á Íslandi og hafa stjórnvöld kortlagt þá í gegnum ferli sem kallast Rammaáætlun. Mikilvægt er að ná sátt til lengri tíma um hvaða virkjunarkosti eigi að nýta og hvaða ekki. Kallast þar m.a. á hagsmunir iðnaðar og hagsmunir ferðaþjónustu, en ferðaþjónusta er nú orðin sú atvinnugrein sem er stærst í vergri þjóðarframleiðslu (GDP). Mikilvægt er því að fara skynsamlega í frekari orkunýtingu til að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku og hafa þar til grundvallar sjálfbærni og almenn umhverfisleg viðmið. Má þar t.d. horfa til þess hvernig Íslendingum hefur tekist að byggja upp sinn sjávarútveg á undanförnum árum með áherslu á sjálfbærni og langtímanýtingu í huga. Þessi viðhorf eiga því við um höfuðatvinnuvegi Íslands, ferðamennsku, iðnað og sjávarútveg, og munu skapa grundvöll fyrir áframhaldandi jákvæðan hagvöxt á Íslandi og fjölbreytt sóknartækifæri á næstu áratugum.
Nýjar og áhugaverðar atvinnugreinar eru við sjóndeildarhringinn t.d. tengt leit og vinnslu af kolvetni á landgrunninu norð-austur af Íslandi og þjónusta tengd siglingum og auknum umsvifum á norðurslóðum, svo dæmi séu tekin.
Segja má að kastljósið sé á Íslandi og tækifærin eru í auknu mæli að spretta upp víða í kringum okkur og stjórnvöld hafa lagt grunn að því að við erum í betri stöðu núna en áður til að grípa þau tækifæri og gera úr þeim verðmæti til lengri tíma.
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra