Hinn kanadíski tónlistarmaður og söngvaskáld Jom Comyn heldur tónleika á KEX Hostel næstkomandi sunnudagskvöld, 22. maí, ásamt hinum alíslensku Árna V og Markúsi.
Jom Comyn kemur frá Edmonton í Alberta-fylki og gefið út nokkrar plötur við góðan orðstír í heimalandi sínu. Tónleikarnir hans hér á landi eru liður af tónleikaferð hans um Evrópu. Jom á sér dyggan hóp aðdáenda á sínum heimaslóðum og hefur m.a. troðið upp með Gruff Rhys úr Super Furry Animals. Tónlist hans er á köflum dularfull, drungaleg og jafnvel eilítið bíómyndaleg. Jom samsamar sér vel í hópi dimmraddaðra listamanna á borð við Lee Hazlewood, Bill Callahan, Edwyn Collins, Stephen Merrit úr Magnetic Fields og Jens Lekman.

Tóndæmi má heyra hér:
https://jomcomyn.bandcamp.com/
Árni V heitir fullu nafni Árni Vilhjálmsson og hefur hann fengist við tónlist í nokkuð mörg ár undir ýmsum nöfnum. Hann spilaði áður fyrr með hljómsveitum á borð við Cotton Plús Einn og Powerlab, Árni er mögulega þekktari fyrir störf sín í hljómsveitunum NiniWilson og FM Belfast. Sem Árni V kemur hann fram einn síns liðs og mun flytja lög af væntanlegri plötu sinni sem hann vinnur nú að.

Markús heitir fullu nafni Markús Bjarnason og er leiðandi í hinni afbragðsgóðu sveit The Diversion Sessions (áður Markús & The Diversion Sessions). Markús er einnig meðlimur í hljómsveitunum Stroff og SKNN og söng hann og spilaði áður í Skátum, Sofandi og Campfire Backtracks. Markús kemur einn fram með gítarinn í hönd.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og kostar 1500 krónur inn.
Nánari upplýsingar veita Árni í síma 694 1223 og Markús 696 3553.