Kársnes, hjartað í Kópavogi

Kársnes, hjartað í Kópavogi

Kársnes er nes sem gengur út í Skerjafjörð milli voganna Kópavogs og Fossvogs, og er elsti og vestasti hluti næst stærsta bæjarfélags á Íslandi, Kópavogs. Bærinn byrjaði ekki að byggjast fyrr en í og eftir seinni heimsstyrjöldina. Það var 1 janúar 1948, sem Kópavogur verður sveitarfélag, þá með rúmlega þúsund íbúum, í dag búa 38.300 í bænum. Á Kársnesinu, þar sem þéttbýlið byrjaði er að finna helstu menningarstofnanir Kópavogs, Listasafn Kópavogs Gerðarsafn, Bókasafn Kópavogs og tónleikahúsið Salurinn. Á nesinu er einnig ein af stærstu og bestu sundlaugum landsins, Kópavogslaug, og einnig sú nýjasta Sky Lagoon heilsulón, sem opnaði í maí á þessu ári, og liggur vestast á Kársnesinu, á nýrri landfyllingu. Túristalaug í bestu merkingu þess orðs.

Horft frá Kópavogskirkju að Hamraborginni. Fremst til vinstri er Gerðarsafn. Fyrir miðri mynd er tónleikahúsið Salurinn, og til hægri, Bókasafn Kópavogs.
Inngangur Sky Lagoon, heilsulónið sem kostaði 5 milljarða að hanna og byggja, er opið alla daga frá 12 til 22, og klukkustund lengur á föstu- og laugardögum.

Kópavogur 18/11/2021 09:27 & 09:45 – A7R III : FE 1.4/85mm GM

Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson