Miðja Suðurlands
Kirkjubæjarklaustur er lítill, snotur bær sem stendur við jaðar mikilfenglegs hraunsvæðis. Klaustur, eins og bærinn er oftast kallaður, er hluti af Kötlu jarðvangi og Vatnajökulsþjóðgarði. Svæðinu í heild sinni má líkja við náttúruminjasafn undir berum himni. Eins langt og augað eygir má sjá mosaþakið hraun og strýtulaga hóla, gervigíga, sem jafnframt eru ummerki mestu hraungosa á sögulegum tíma; annars vegar gossins í Eldgjá 934-940 og hins vegar Skaftárelda sem geisuðu 1783-1784 Á Kirkjubæjarklaustri var nunnuklaustur í kringum 1186 og eiga margar sögur og örnefni rætur sínar að rekja til þess tíma. Svæðið geymir fjölda leyndardóma sem bíða þess að verða uppgötvaðir.
Já, það er til App!
Nú gefst ferðalöngum einstakt tækifæri til að skoða svæðið með notkun snjallleiðsagnaforritsins SmartGuide frá Locatify. Appið, eða smáforritið, býður upp á lesna leiðsögn sem leiðir notandann á staði sem tengjast gosinu. Appið er fáanlegt á íslensku og ensku og hægt er að tengjast því með GPS-tækni í gegnum snjallsíma hvar sem er. Bæði er boðið uppá leiðsögn í tengslum við Skaftáreldana og Klausturstíg sem er um 20 km löng gönguleið í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Einnig er hægt að fara í ratleik með alla fjölskylduna frá Skaftárstofu. Allar nánari upplýsingar er hægt að fá í Skaftárstofu – upplýsingamiðstöðinni á Kirkjubæjarklaustri.
Hannaðu persónulegan minjagrip úr náttúrunni
„Fjársjóðir úr náttúru Skaftárhrepps“ er skemmtileg og nýstárleg afþreying á Kirkjubæjarklaustri en um er að ræða ratleik þar sem þátttakandinn er leiddur áfram og er á endanum látinn hanna sinn eigin minjagrip úr ýmsum efnum sem hefur verið aflað með tilliti til sjálfbærni, s.s. mosa, lofti, hrauni og ull. Hægt er að kaupa sérmerkt glerílát með fjársjóðskorti á flestum sölustöðum svæðisins í þessum tilgangi.
Þessi einstaka hugmynd kemur frá íslenska hönnunarteyminu hjá HAF Studio og var unnin í samstarfi við www.visitklaustur.is.
-EMV
Sjáumst í sumar á Kirkjubæjarklaustri – Miðju Suðurlands
Þar sem Kirkjubæjarklaustur stendur varð eitt mesta hraungos á jörðinni, Lakagosið sem stóð yfir frá 1783 til 1784. Þessum sögulega viðburði eru nú gerð skil með „appi“ sem hlaða má niður frítt í flesta snjallsíma