Kirkjubæjarklaustur

Kirkjubæjarklaustur 

 

Friðsæld í faðmi náttúrunnar

Kirkjubæjarklaustur er miðsvæðis í Skaftárhreppi í Vestur- Skaftafellssýslu; syðst á landinu, þar sem fjöllin breiða faðm sinn mót sólu. Svæðið er rómað fyrir náttúrufegurð; friðsælt umhverfið og sagan umvefur fólk. Með sanni má segja að íbúarnir hafi í gegnum tíðina mótast af náttúruöflunum á þessu margbrotna og víðlenda svæði.

Fridsaeld i fadmi natturunnarKirkjubæjarstofa rannsókna- og fræðslusetur

Kirkjubæjarstofa á Kirkjubæjarklaustri var stofnuð árið 1997. Markmið starfseminnar er að efla og styðja rannsóknir og lifandi fræðslu um náttúrufar, sögu og menningu héraðsins. Kirkjubæjarstofa hefur allt frá stofnun m.a. sinnt hlutverki sínu með því að halda árlegar ráðstefnur og fræðslufundi og stuðla að eða taka þátt í rannsóknarverkefnum sem tengjast áherslum starfseminnar. Kirkjubæjarstofa er staðsett í elsta hluta þéttbýlisins á Klaustri í fögru umhverfi, rétt við Systrafoss. Kirkjubæjarklaustur er mikill ferðamannastaður og flestir ferðamenn sem dveljast á svæðinu leggja leið sína að Systrafossi eða jafnvel ganga upp skógi vaxna hlíðina, að Systravatni, sem er rétt ofan við brún Klausturheiðarinnar. Því er tilvalið að koma við á Kirkjubæjarstofu og fræðast þar um stórbrotna náttúru, sögu og menningu svæðisins á sýningu sem opin er yfir sumartímann, en utan hans samkvæmt samkomulagi.

Sýningin „Sagan í sandinum „Klaustrið í Kirkjubæ“ kynnir á myndrænan hátt niðurstöður fornleifarannsókna á rústum nunnuklaustursins á Kirkjubæ sem fram fór árin 2002- 2006. Nunnuklaustrið í Kirkjubæ var stofnað 1186 og stóð þar allt fram til siðaskipta um 1554. Margt forvitnilegt hefur komið í ljós við rannsóknirnar og hægt er að kynna sér það á sýningunni.

Sýningin „Á slóðum Skaftárelda „eldfjall, maður, náttúra“ segir frá Lakagígagosinu 1783-1784, öðru nafni Skaftáreldum, og séra Jóni Steingrímssyni á Prestsbakka sem nefndur er „eldklerkurinn“. Sr. Jón var sóknarprestur staðarins á tíma Skaftárelda og flutti hann hina frægu „Eldmessu“ þann 20. júlí 1783, sem talin var hafa stöðvað rennsli hraunsins yfir byggðina og kirkjuna á Kirkjubæjarklaustri. Staðurinn þar sem hraunið stöðvaðist heitir Eldmessutangi og er hann skammt vestan við Systrastapa. Leiðin þangað liggur um Klausturhlaðið fyrrnefnda, þar sem hús Kirkjubæjarstofu stendur. Um þessar mestu nátttúruhamfarir Íslandssögunar og afleiðingar þeirra er hægt að fræðast á sýningunni. Þá er stuttmyndin „Eldmessan“, 15 mín. margmiðlunarmynd um Skaftárelda og Móðuharðindin, sýnd í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli í sumar.

Þjónusta á Kirkjubæjarklaustri

Mikið úrval er af gistingu og annarri þjónustu á Kirkjubæjarklaustri og ferðaþjónustubæjum í næsta nágrenni. Tjaldsvæðin eru tvö; hægt að velja á milli þess að dvelja innan bæjarmarkanna eða spölkorn frá. Á Klaustri er upplýsingamiðstöð. Þar er einnig rekinn veitingastaður, verslun, söluskáli, pósthús, banki, handverkshús, bifreiðaverkstæði og síðast en ekki síst nýleg sundlaug. Þá er enn ótalin Klausturbleikjan víðfræga, sem unnin er á staðnum. Fleira er í deiglunni, því að hinn ársgamli Vatnajökulsþjóðgarður, stærsti þjóðgarður Evrópu, liggur að hluta til í Skaftárhreppi. Með tímanum er fyrirhugað er að reisa gestastofu á Kirkjubæjarklaustri og þar hefur þjóðgarðsvörður aðsetur. Þjóðgarðurinn á vafalaust eftir að verða mikil lyftistöng fyrir ferðamennsku á komandi árum.

Útivistarsvæði úr náttúruperlufesti

Landið allt er einkar skemmtilegt útivistarsvæði með marga spennandi afþreyingarmöguleika. Leiðin frá Klaustri getur legið í Lakagíga, inn á Fjallabak, í Eldgjá, að Langasjó, í Fjaðrárgljúfur, Meðallandsfjöru eða Núpsstaðaskóg og svo mætti lengi áfram telja. Á Núpsstað standa gömul bæjarhús. Þeirra merkast er bænahúsið, sem er ein af örfáum torfkirkjum sem enn eru til á Íslandi.

Helsta sérstaða svæðisins er óneitanlega hin stórbrotna náttúra – þar sem frumkraftarnir ráða ríkjum – og enn er í stöðugri mótun. Landið ber merki mikillar eldvirkni, enda á miðju eystra gosbeltinu. Frá Vatnajökli rennur Skaftá, lífæðin sjálf, til sjávar innan um úfið hraunið. Tærar lindir spretta víða undan hrauninu og eru búsvæði ferskvatnsfisks sem vinsæll er til veiða.

Ýmislegt má finna sér til dundurs á þessum undrastað. Hægt að baða sig í fossi, skoða gervigíga að innan sem utan, veiða, nú eða fara á fjörur – með Atlantshafið eins og það leggur sig fyrir fótum sér.

Gott net gönguleiða er í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Í sumar verða þær stikaðar upp á nýtt og í samhengi við það er unnið að útgáfu veglegs gönguleiðakorts. Allir; stórir sem smáir, ungir sem aldnir, ættu að finna sér gönguleið við hæfi. Upplýsingar um gönguleiðir er hægt að fá í Upplýsingamiðstöð Skaftárhrepps sem staðsett er í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli.

Hinir þekktu og vinsælu Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri í ágústmánuði eru árlegur viðburður, sem á sér orðið stóran hóp fastagesta sem koma ár eftir ár. Þá er einnig vinsælt hjá fjölskyldufólki að dvelja á Klaustri og nágrenni um verslunarmannahelgina. Þar er ekki skipulögð útihátíð og því friðsælt fyrir fjölskyldufólk að dvelja í faðmi náttúrunnar.