Framsýni og betri efnahagur
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir marga samverkandi þætti búa að baki ótrúlegri uppbyggingu sveitarfélagsins
Þau eru líklega fá sveitarfélögin sem hafa vaxið og dafnað eins hratt og skipulega og Kópavogsbær á liðnum áratug. Byggðin, sem áður virtist þjappa sér í kringum eina brú, teygir nú anga sína upp í kóra og sali, hvörf og þing – og Vatnsendahæðin er komin í byggð. En þetta eru ekki bara svefnhverfi, heldur íbúðahverfi með verslun og þjónustu, kirkjum, kúltúr og íþróttamannvirkjum. Uppbyggingin hefur að langmestu leyti átt sér stað í bæjarstjórnartíð Gunnars Birgissonar – sem er að vonum stoltur af sínum bæ. Uppbygging á fjórum fjölmennum íbúðahverfum og fleiri komin á teikniborðið. En hvar byrjaði þetta allt?
Hið nýja fjölnota íþrótta- og tónlistarhús við Vallarkór sem fékk nafnið Kórinn. (Mynd: Krissý)
„Það má segja að þetta hafi allt byrjað upp úr 1990 þegar Sigurður heitinn Geirdal var bæjarstjóri og ég formaður bæjarráðs. Við ákváðum að móta framtíðarsýn. Það var lægð í þjóðfélaginu sem hafði staðið nokkuð lengi en við vorum vissir um að brátt færi að sjást fyrir endann á henni,“ segir Gunnar. „Það var ljóst að þegar þjóðfélagið kæmist upp úr þessari lægð, yrði farið að byggja – en það var ekki mikið um byggingaland á Reykjavíkursvæðinu. Það stefndi í mikla kreppu í húsnæðismálum hér. Við ákváðum að búa okkur undir breytta tíma og skipulögðum Smára-, Linda- og Salahverfin. Þegar kreppan var gengin yfir, myndaðist gríðarleg eftirspurn og þá vorum við með þessi hverfi klár. Þau byggðust upp á algerum mettíma.“
Gunnar I. Birgisson á bæjarstjóraskrifstofunni.
(Mynd: Brynhildur Gunnarsdóttir)
Hægir á næstu tvö árin
„Á meðan skipulögðum við næstu áfanga. Inni í honum var Kórahverfið, þrjú þúsund manna byggð sem hefur byggst upp á þremur árum og verður tilbúin á næsta ári. Einnig eru Hvörfin nánast fullbyggð. Þar verður 1.500 til 1.800 manna byggð og í Þingunum, sem eru í fullri uppbyggingu núna, verða þúsund til tólf hundruð manns. Um þessar mundir eru Hnoðraholt og Rjúpnahæð að komast í uppbyggingu og framkvæmd og við áætlum að þau hverfi verði tilbúin eftir tvö til þrjú ár. Síðan erum við í skipulagsferli á svokallaðri Vatnsendahæð þar sem verða um 700 íbúðir. Frestur til að sækja um byggingarrétt á svæðinu er nýliðinn og við erum að fara yfir umsóknirnar.
Svo er það vesturbærinn hjá okkur en þar er búið að samþykkja rúmlega tvö hundruð íbúðir. Við erum að vinna að heilmiklum breytingum á skipulaginu á atvinnu- og íbúðasvæðinu til að koma til móts við ábendingar og óskir íbúa sem felldu sig ekki við fyrri skipulagshugmyndir. Við gerum ráð fyrir 340 íbúðum í bryggjuhverfinu, sem var samþykkt árið 2003. Á Kársnesinu verða því alls um sex til átta hundruð nýjar íbúðir en þetta hverfi mun byggjast upp á lengri tíma en önnur hverfi, kannski tíu árum. Að lokum erum við með um 300 íbúðir í Lundi og í desember verður flutt inn í fyrstu íbúðirnar þar.“
Þegar Gunnar er spurður hvort endalaust verði hægt að byggja, segir hann það af og frá. „Ég spái því að það muni hægja verulega á byggingu íbúðarhúsa og fjölbýlishúsa á næstunni. Á næstu tveimur árum er útlit fyrir að byggðar verði tvöfalt fleiri íbúðir en þörf er fyrir. Við eigum því eftir að sjá jaðarsvæðin kólna og það er ljóst að uppbyggingarhraðinn verður ekki eins mikill.“
Hröð fjölgun
Þegar ekið er um hin nýju svæði Kópavogs fer ekki hjá því að maður spyrji sig hvaðan allt fólkið sem á að búa í húsunum mun koma. Gunnar segir það koma úr ýmsum áttum. „Í fyrsta lagi hefur komið hingað mikill fjöldi útlendinga með fjölskyldur sínar og sest hér að; þetta er harðduglegt fólk sem fær tækifæri til að koma undir sig fótunum – og gerir það vel. Í öðru lagi hefur efnahagur fólks batnað mjög mikið á seinustu árum. Ungt fólk á betra aðgengi að peningum en okkar kynslóð átti. Við erum, til dæmis, að sjá tuttugu og fimm ára gamalt fólk kaupa sér einbýlishúsalóðir. Uppsöfnun verðmæta og auðs hefur farið vaxandi og unga fólkið nýtur góðs af því. Í þriðja lagi er það hið mjög svo skrýtna nútíma mynstur sem kallast fjarbúð. Það er æ algengara að fólk sem fram að þessu hefði verið í sambúð, búi í sitt hvoru lagi nema um helgar. Þetta er mynstur sem er að verða ótrúlega algengt. Í fjórða lagi eru það eldri borgarar. Þeirra hagur hefur farið batnandi. Það er töluvert um að þeir selji húsin sín, borgi út arfinn til afkomenda sinna og kaupi sér íbúð.
Breytingarnar sem hafa átt sér stað á seinustu tíu árum eru svo miklar að það er ólíku saman að jafna. Þetta er orðið allt annað samfélag en var hér á árunum 1990 til 1995.“
Í Kópavogi búa 28.500 manns í dag. Á þeim svæðum sem skipulögð hafa verið og eru í pípunum er ljóst að íbúum fjölgar um sex til átta þúsund á næstu fimm til sjö árum. „Það hefur fjölgað um þúsund íbúa á ári hér á seinustu árum og það lítur út fyrir að sú þróun haldi áfram og við verðum þrjátíu þúsund árið 2009 og förum upp í 35.000 fljótlega eftir það,“ segir Gunnar.
Neyðarástand hefði skapast
Hvað atvinnu varðar, voru færri störf en hendur til að vinna þau í Kópavogi árið 1990. „Í dag hefur þetta gjörbreyst,“ segir Gunnar. „Í skipulaginu höfum við gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði þar sem er byggð. Fólk eltir atvinnuna. Núna liggur fyrir að byggja á annað hundrað þúsund fermetra atvinnuhúsnæði á Glaðheimasvæðinu og svo á eftir að skipuleggja svæðið sunnan Smáralindar. Þú átt að geta nálgast allt sem þú nauðsynlega þarft innan þess hverfis sem þú býrð í.“
Aðspurður hvort framtíðarsýn þeirra Sigurðar hafi náð eins langt og framkvæmdir bera vott um núna, segir Gunnar svo vera. „Við byrjuðum á því að kaupa upp lönd og hófum framkvæmdir hér niðri í Kópavogsdal. Síðan áttum við lönd hinum megin við Reykjanesbraut og vorum með þetta allt klárt þegar kreppunni létti 1995-96. Það hafði verið stopp í átta ár og þörfin var mikil. Hér hefði skapast neyðarástand ef við hefðum ekki getað byggt upp Lindirnar og Smárana í hvelli. Þessi hverfi byggðust upp árin 1997-2004 og þangað kom mikið af leikskólabörnum úr Reykjavík. Unga fólkið streymdi hingað og það var fólkið sem við þurftum.
Við fleyttum rjómann af því duglega fólk sem kom frá Reykjavík – en borgin hafði sofnað á verðinum. Í uppbyggingunni höfðum við haft að leiðarljósi að fyrst kæmu leikskólarnir og grunnskólarnir í hverfin. Við lögðum mikla áherslu á að innviðir hverfisins yrðu tilbúnir sem fyrst. Samhliða skólunum voru það íþróttahúsin og göngustígarnir. Það skiptir miklu máli að unga fólkið geti farið út að hlaupa eða út að ganga með barnavagnana. Við malbikum strax og göngum frá gangstéttum og inn í hverju hverfi er opið svæði. Og auðvitað byggir allt á því að umferðarmálin séu í lagi.“
Fjárfest í innviðum
Þegar Gunnar er spurður hvort ekki sé óheyrilega dýrt að byggja upp hverfi sem bjóða upp á svo góða þjónustu, segir hann það svo vera en bætir við: „Okkar rekstrarstaða batnar ár frá ári. Uppbyggingu af þessari stærð fylgir líka fjármagn og við höfum notað það til að fjárfesta í innviðum og til að lækka þjónustugjöld. Þegar hagur bæjarfélagsins vænkast eiga íbúarnir að njóta góðs af því. Við höfum, til dæmis, fjárfest í vatnsveitu – sem var löngu tímabært. Við eigum land að bestu vatnstökusvæðum landsins og höfum gert samning við Garðabæ til þrjátíu ára um sölu á vatni til þeirra. Með þessu munum við geta lækkað vatnsskattinn hjá bæjarbúum. Framtíðin er því björt rekstrarlega séð hjá okkur, jafnvel þótt hægja muni á framkvæmdum á næstu árum.“
Enn eru ótaldir Kjóavellirnir sem hljóta í framtíðinni að gera Kópavog að draumalandi hestamannsins. Á Kjóavöllum er að rísa besta hestasvæði á landinu og þótt víðar væri leitað. Nú þegar er unnið hörðum höndum að lagningu gatna og reiðstíga um svæðið og út úr því og til stendur að reisa þar glæsilega reiðhöll með fullkomnum keppnis- og sýningavelli. Það er ljóst að bæjarstjórinn er afar stoltur af þeirri framtíð sem fljótlega verður að veruleika á Kjóavöllum – og má vera það á tímum sem verið er að reka hestaíþróttina lengra og lengra burtu frá byggð í öðrum sveitarfélögum.
Ábyrgðarleysi að nýta landið ekki vel
Gunnar segir uppbygginguna hafa verið svo hraða að helsta vandamál Kópavogsbæjar, eins og annarra sveitarfélaga, hafi verið að fá verktaka og mannskap í vinnu. „Á þessum uppgangstímum hafa margir farið að starfa sjálfstætt og horfið inn í virkjanirnar. Hagnaðurinn sem hefur verið í þessum bransa hefur verið nánast óeðlilegur, en sú rjómatíð sem verið hefur á ekki eftir að halda áfram; þetta á eftir að þróast yfir í normal ástand. Annað sem hefur einkennt skipulagið hér í Kópavogi er bygging háhýsa. Ég segi að það sé framtíðarsýn. Nú er að verða búið að byggja hér öll niðurlöndin og það er verið að byggja út í sjó, inní Hafnarfjarðarhraun, upp við Reynisvatn og Vatnsenda. En það er ákveðið ábyrgðarleysi að nýta landið ekki vel. Innviðirnir verða mun dýrari ef byggðin er dreifð. Ef þú hefur fleiri íbúa per hektara, nýtirðu allar þjónustustofnanir betur.
Hér í Kópavogi höfum við lagt áherslu á að halda gamla bænum sem miðbæ. Hér erum við með helstu stjórnsýsluna og helstu menningarstofnanir bæjarins; bókasafnið, Salinn og Gerðarsafn og nú erum við að undirbúa byggingu óperuhúss, þar sem verða þrjú svið og aðalsalurinn tekur sjö til átta hundruð manns í sæti. Við erum afar stolt af tónlistarhúsinu okkar, Salnum, sem tekur þrjú hundruð manns í sæti. Við áætlum að láta bæði Salinn og Gerðarsafn tengjast óperunni. Til þess þarf að reisa veitingahús, kaffihús og útvega ýmsa þjónustu. Líkurnar á því að óperuhúsið hér verði að veruleika eru sífellt að aukast. “