Öskubuskuævintýri

Öskubuskuævintýri

Víkingur úr Fossvoginum í Reykjavík urðu á dögunum bæði íslandsmeistarar og bikarmeistarar karla í knattspyrnu. Frábær árangur. Á meðan spilar íslandsmeistararnir í fyrra, Breiðablik úr Kópavogi, fyrst íslenskra liða í riðlakeppni Evrópu, en þeir náðu þeim frábæra áfanga að komast inn í Sambandsdeildina. Þeir spila þar í B riðli móti Gent frá Belgíu, Maccabi Tel Aviv frá Ísrael og Zorya Luhansk frá Úkraínu.

Annar merkilegur áfangi í knattspyrnusögunni er að Vestri frá Ísafirði/Bolungarvík komst upp í úrvalsdeildina með sigri á Aftureldingu úr Mosfellsbæ í hreinum úrslitaleik um sæti í deild þeirra bestu á Laugardalsvellinum. Hitt liðið sem fer upp er ÍA, frá Akranesi, en það er eitt af sögufrægustu knattspyrnuliðum á Íslandi, hefur unnið íslandsmeistaratitilinn 18 sinnum, er þriðja sigursælasta lið landsins eftir Reykjavíkurfélögunum KR og Val.

Aðeins 11 lið hafa orðið Íslandsmeistarar á 111 árum, en KR vann fyrsta mótið árið 1912. Ísafjörður hefur aftur á móti einungis spilað í efstu deild þrisvar, síðast fyrir 40 árum. Það er ótrúlegt afrek, sannkallað öskubuskuævintýri að þeir séu að fara að spila í efstu deild á næsta sumri. Land & Saga brá sér á völlinn og fylgdist með bráðskemmtilegum og framlengdum úrslitaleik, þar sem Vestri vann að lokum sanngjarnan sigur, 1-0.

Vestri var sterkari aðilinn í leiknum
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra fagnar sigrinum í leikslok
Stuðningsmenn Vestra létu vel í sér heyra, en fjölmargir lögðu land undir fót og mættu til að sjá sína menn spila á þjóðarleikvanginum
Hörkuleikur, þar sem allt var undir, enda var leikurinn kallaður 50 milljón króna leikurinn, því tekjur félaganna eykst svo mikið að spila í efstu deild, þar sem 12 lið keppa upp íslandsmeistartitilinn
Það var sterk liðsheild Vestra sem skóp þennan árangur, hér á palli að taka á móti bikarnum, Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra lengst til hægri
Sigrinum fagnað, vel og innilega

Ljósmyndir & texti: Páll Stefánsson
Reykjavík 01/10/2023 : A7R IV, RX1R II : 2.0/35mm Z, FE 200-600mm G