Lesa allar greinar í blaði Skoða PDF skrá

Fjölbreytni og fagmennska í ferðaþjónustunni er stöðugt að aukast.Um allt land hefur fólk verið að vakna til vitundar um þau gleðilegu tíðindi að þjónustu við ferðamenn er hægt að stunda hvar sem er. Þar sem áður voru
átthagafjötrar eru núna tækifæri. Sumarlandið, sérblað um ferðaþjónustu á Íslandi, kemur nú út 6. árið í röð og höfum við hjá Landi og Sögu haft einstakt útsýni yfir þróunina á seinustu árum. Hún hefur verið hröð og haft það í för með sér að Íslendingar eru að sjá möguleikana sem felast í sögu okkar og menningu. Víða er verið að byggja upp söfn sem gera grein fyrir sagna-arfinum, þjóðsögunum, örlagaríkum atburðum, náttúru landsins og lífríki, söfn sem eru ekki síður áhugaverð fyrir okkur sjálf en þá erlendu gesti sem sækja okkur heim.

Þegar ferðamaðurinn er annars vegar, skipta fjórir þættir meginmáli. Hann þarf að hafa náttstað, hann þarf að nærast, hann þarf að hafa eitthvað til að skoða og hann þarf að hafa eitthvað við að vera. Á seinustu árum hefur gistirýmum fjölgað til muna um allt land. Einnig veitinga- og kaffihúsum þar sem úrvalið er með íslensku og alþjóðlegu ívafi. Það sem er ánægjulegast við þróunina í veitingageiranum, er að menn vinna með stolti úr hráefni úr sínu héraði eftir föngum. Ferðaþjónustan er því ekki einskorðuð við þá sem standa í framlínunni. Hún breiðir úr sér og skapar þeim aukin verkefni sem vinna í undirstöðunni; þeim sem framleiða hráefnið. Stundum er gott að fá kleinu með kaffinu, stundum er gott að gæða sér á soðnum þorski, en stundum er líka gott að geta fengið sér belgíska vöfflu,
eða spænska fiskisúpu. Það eru þessir valkostir sem við viljum eiga þegar við ferðumst um landið. Það á að vera spennandi fyrir ferðamanninn að koma í nýtt hérað og finna hvað það hefur upp á að bjóða. Hvert hérað hefur
sín sérkenni, sinn sagna- og menningararf, sitt náttúrufar, hvað þar er ræktað og alið. Þetta er fjársjóður sem íslensk ferðaþjónusta hefur til að byggja á og mjög víða er vandað til verka. Fagmennskan og góð þjónusta
eykst með hverju árinu. Aðilar í ferðaþjónustunni hafa verið að átta sig á mikilvægi þess að þeir sem taka á móti ferðamönnum, geti veitt upplýsingar um svæðið sem farið er um – og ekki bara á íslensku, heldur líka á erlendu
tungumáli. Þróunin í ferðaþjónustunni er bæði hröð og ánægjuleg.
Gleðilegt ferðasumar!

Lesa allar greinar í blaði Skoða PDF skrá