Laufabrauðsgerð í Viðey
Það er komið að okkar árlega og vinsæla viðburði laufabrauðsgerð í Viðey. Sunnudaginn 26. nóvember kl. 13:30 mun Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík, kenna gestum kúnstina að skera út laufabrauð. Útskorin brauðin verða svo steikt í eldhúsinu og allir fara heim með gómsæt listaverk í öskjum.

Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík


Viðey skartar sínu fegursta þessa dagana og eru fjölskyldur hvattar til að koma út í eyju og eiga þar góða stund saman við laufabrauðsútskurð og gaman væri ef vanir útskurðarmeistarar myndu koma og miðla þekkingu sinni. Svo er aldrei að vita nema jólasveinninn renni á steikarlyktina og kíki í heimsókn.

Tíu laufabrauð í öskju kosta 2.000 krónur.

Við mælum með að fólk taki með sér laufabrauðsjárn og hnífa til útskurðar en einhver áhöld verða einnig á staðnum. Í Viðeyjarstofu verður hægt að kaupa gómsætar veitingar við allra hæfi.

Vinsamlegast sendið okkur skráningu á [email protected]

Ferjan – áætlun og verð
Ferjan siglir til Viðeyjar frá Skarfabakka klukkan 13:15, 14:15, 15:15.
Ferjukostnaður:
Fullorðnir 16 ára og eldri: 1.500 kr.
Börn 7-15 ára 750 kr.
Eldri borgarar og öryrkjar 1.350 kr.

Verið velkomin!


Janúar 1964, konur steikja laufabrauð fyrir þorrablót Eyfirðingafélagsins sem fram fór á Hótel Sögu 26. janúar 1964. Þær eru staddar í stóru atvinnueldhúsi, virðist vera eldhúsið á veitingastaðnum Lídó við Skaftahlíð. Önnur konan f.v. er Vilhelmína Vilhelmsdóttir. Stórir pottar á eldavélinni.

Svarthvítar laufabrauðsmyndir úr safneign:
SVÞ 005 093 2-1 ©Sveinn Þormóðsson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Janúar 1964, konur steikja laufabrauð fyrir þorrablót Eyfirðingafélagsins sem fram fór á Hótel Sögu 26. janúar 1964. Þær eru staddar í stóru atvinnueldhúsi, virðist vera eldhúsið á veitingastaðnum Lídó við Skaftahlíð. Önnur konan f.v. er Vilhelmína Vilhelmsdóttir. Stórir pottar á eldavélinni.
365 jól laufabrauð 1 ©Gunnar Örn Gunnarsson
Um 1980, jólaundirbúningur, barn að gera laufabrauð, Rósalind María Gunnarsdóttir sker út laufabrauð. Jólabakstur, jólasiður.
365 jól 38 ©Bjarnleifur Bjarnleifsson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Desember 1974, laufabrauðsgerð við kertaljós í heimahúsi. Laufabrauð skorin og steikt.