Listamannsspjall – Finnur Arnar Arnarson

Sunnudaginn 3. maí kl. 15 ræðir Finnur Arnar Arnarson við gesti Hafnarborgar um verk sín á sýningunni MENN sem nú stendur yfir í Hafnarborg. Finnur hefur fundið hugmyndum sínum farveg í ljósmyndum, videoverkum, skúlptúrum og innsetningum. Hann sækir sér innblástur í sitt nánasta umhverfi og hefur unnið verk þar sem fjölskylda hans er viðfangsefnið en einnig hefur hann unnið verk í félagi við fjölskyldu sína. Finnur stundaði myndlistarnám við fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 – 1991. Hann hefur samhliða vinnu sinni að myndlist hannað leikmyndir fyrir leikhús og sýningar fyrir ýmis menningarsögusöfn. Aðrir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Curver Thoroddsen, Hlynur Hallsson og Kristinn G. Harðarson. Sýningarstjóri er Ólöf K. Sigurðardóttir, forstöðumaður Hafnarborgar.
madur med barn-Finnur ArnarsonSýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna. Verkin á sýningunni vekja upp áleitnar spurningar um karlmennsku og þau skilaboð sem karlar fá frá samfélaginu. Meginviðfangsefni sýningarinnar er þó sú nánd sem lesa má úr afstöðu listamannanna til fjölskyldu og barna. Þeir taka sér stöðu innan fjölskyldunnar, gera hana að viðfangsefni og búa hversdagslegu lífi listrænan búning. Viðfangsefið hefur lengi verið listamönnunum hugleikið, og þótt verkin hafi mörg skírskotun til annarra fagurfræðilegra eða listrænna viðfangsefna eru þau einkar áhugaverð í þessu samhengi nú árið 2015 þegar þess er minnst að öld er liðin frá því konur hlutu kosningarétt og mikil áhersla er á að skoða reynsluheim kvenna.

Nánari upplýsingar veita:
Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi. S. 585 5790 og
Finnur Arnar Arnarson, s. 899 5590.