Litið upp úr skuggadal – viðtal við Júlíus Vífill Ingvarsson

Litið upp úr skuggadal – viðtal við Júlíus Vífill Ingvarsson

Viðtal við Júlíus Vífil Ingvarsson, borgarfulltrúa
Reykjavíkurborg vinnur nú að nýju aðalskipulagi sem nær til ársins 2030 og verður kynnt á næstu mánuðum. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi, segir að mikilvægt sé að horfa til framtíðar þó svo að á móti blási í dag og því vinni Reykjavíkurborg meðal annars að deiliskipulagi að stóru svæði fyrir atvinnustarfsemi, jafnvel þó mikill fermetrafjöldi í atvinnuhúsnæði standi ónotaður víða um borgina.Julius Vifill
 
„Þetta eru vissulega óvissutímar og mjög margt hefur breyst í uppbyggingu og uppbyggingaráformum þeirra sem voru hvað öflugastir hér á markaði fyrir stuttu , að manni finnst. Okkar áherslur hafa auðvitað breyst á sviði skipulagsmála eins og í öðru. Það er ljóst að við verðum að haga seglum eftir vindi , en hins vegar er þrýstingur á hraða afgreiðslu ekki sá sami og fyrr og við nýtum andrýmið til að að líta lengra fram á veginn og vanda okkur enn betur,“ segir Júlíus Vífill.

Áhrif kreppunnar eru flestum ljós og sést ef til vill best í þeim fjölmörgu ókláruðu verkum sem við okkur blasa víða um borgina. „Það er sárt fyrir okkur sem erum að vinna að skipulagsmálum og almennt að þróun borgarinnar að sjá þessi mörgu sár sem eru í borginni. Því miður sjást fá merki um að einhver hafi bolmagn til að byggja hér upp á næstunni. Þar fyrir utan sjáum við auðvitað að sumsstaðar hefur náðst að klára að byggja, en það er enginn sem hefur efni á að flytja inn í þessi hús. Stóra vandamálið er auðvitað að það er ekki lánsfé að fá og það er raunar mjög óráðlegt að taka lán á þeim vöxtum sem bjóðast ,“ segir Júlíus Vífill.

Atvinnustigi haldið uppi
Hvað varðar framkvæmdir segir Júlíus að það verði að einblína frekar á framkvæmdir þar sem verkefni eru mannfrek með það að markmiði að halda uppi atvinnustigi eins og frekast er kostur. „Hluti af því er til dæmis verkefni sem Reykjavíkurborg hefur hleypt af stokkunum og nefnist Völundarverk, en það er í aðra röndina skóli og í hina viðhald gamalla húsa og endurbygging þeirra. Með því erum við að endurvekja gamalt handverk, sem ella myndi falla í gleymsku ef ekki væri sérstakt átak til að endurlífga það og kenna sem flestum handtökin,“ segir Júlíus Vífill.

holmsheidi skyringaruppdrNýtt atvinnusvæði á Hólmsheiði
Reykjavíkurborg vinnur nú meðal annars að deiliskipulagi fyrir 460 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði á Hólmsheiði. „Það mun kannski koma einhverjum á óvart að við séum að afgreiða deiliskipulag fyrir svo stórt svæði og munu einhverjir vafalaust segja að það sé alger óþarfi þar sem engin eftirspurn er eftir húsnæði fyrir atvinnustarfsemi um þessar mundir. En í skipulagsmálum verðum við að hugsa lengra fram í tímann, það er raunar eðli skipulagsmála, og þegar hjól atvinnulífsins taka að snúast að nýju og eftirspurn eykst þarf enginn að bíða eftir því að borgin verði klár með sitt. Við verðum tilbúin.

Við fórum af stað með þetta verkefni fyrir nokkru og nú liggur skipulagsvinnan fyrir og það er auðvitað mikilvægt að nýta þá vinnu og fjármuni sem þegar hefur verið varið í að móta deiliskipulag svæðisins. Við sjáum þó ekki fyrir okkur að undirbúningur fyrir úthlutanir (vegagerð, rafmagn, hita og frárennsli) fari af stað á næstunni, en við viljum hafa þetta tilbúið hjá okkur,“ segir Júlíus Vífill.

Framtíðarsýn borgarinnar
„Það sem við erum hinsvegar að einbeita okkur að núna er aðalskipulag í Reykjavík, sem er bæði skemmtileg og tímafrek vinna. Í aðalskipulagi felst framtíðarsýn borgarinnar og virkar sem kjölfesta í skipulagsmálum. Á aðalskipulaginu byggjast svo deiliskipulagsáætlanir sem snúa að ákveðnum reitum. Það þarf því að vanda vel til verks og huga að öllum þáttum og er aðalskipulag eitthvað það pólitískasta skjal sem kemur frá Reykjavíkurborg á hverju kjörtímabili. Aðalskipulagið nær yfir skólamál, samgöngumál, umhverfismál, gæðastefnu á mörgum sviðum og tekur raunverulega á öllum þeim þáttum sem við erum að fjalla um í okkar daglega umhverfi.

Í aðalskipulagsvinnunni erum við að fjalla um Reykjavík eins og við komum til með að sjá hana og viljum sjá hana fram til ársins 2030, en jafnframt gerum við ráð fyrir því að það verði horft til ársins 2050. Þetta er vissulega langur tími, en aðalskipulag byggist á þróun til lengri tíma. Það þarf að ákveða hvort byggðin eigi að þéttast og þá hversu mikið, það verður að gera grein fyrir því hversu mikil fólksfjölgun verður á þessum tíma, hvaða breytingar verða á samgöngum og samgöngumátum og hvernig viljum við sjá umhverfi okkar þróast með tilliti til umhverfissjónarmiða,“ segir Júlíus Vífill.

 
Innlegg borgarbúa grunnur að aðalskipulagi
Þar sem margir þættir koma inn í aðalskipulagsvinnuna munu í október byrja fundir um hin ýmsu málefni sem snúa að aðalskipulaginu. „Þetta verða fundir sem fjalla um sérstök málefni til dæmis samgöngumál, umhverfið, gæði byggðar og svo framvegis, en á sama tíma munum við vera með fundi út í hverfunum þar sem við erum að kalla eftir því að fá fólk til að ræða sitt nánasta umhverfi og þau málefni sem að því snýr. Þó þetta sé aðalskipulag og fjallað sé um skipulag Reykjavíkur í stærra samhengi þá vitum við að borgarbúar vilja ræða það sem þeim stendur næst. Það er ekki nema jákvætt því slík umræða er grunnur að skipulagi og það hefur líka áhrif á aðalskipulagið. Gera má ráð fyrir að gerðar verði athugasemdir við bílaumferð, bílastæði, umhirðu í kring um hús, eða hvað sem stendur fólki næst á hverjum tíma. Við viljum kalla eftir því og fá fólkið með okkur inn í þessa vegferð, því gott aðalskipulag verður aldrei unnið nema af þeim sem þekkja best sitt umhverfi og í góðri sátt og samvinnu við borgarbúa. En vissulega geta komið upp ágreiningsmál í aðalskipulagsvinnu enda er hún í eðli sínu hápólitísk,“ segir Júlíus Vífill.

Gagnagrunnur fyrir borgarbúa
Ef leitað er að grunntóni í aðalskipulaginu segir Júlíus Vífill að þar beri hæst gæði byggðar, húsavernd og umhverfismál. „Það verður lögð fram sérstök húsaverndaráætlun í aðalskipulaginu. Hvað varðar umhverfismál þá munu þau auðvitað vega þungt, en það er erfitt að sjá fyrir hvernig vistvænar samgöngur munu þróast. Vonir standa til að þær taki mikinn kipp á næstu árum og er því eðlilegt að þær fái þarna mikið vægi. Aðalskipulag er ekki bara kort af Reykjavík, heldur er það líka bók sem er upplýsingaog uppflettirit fyrir þá sem vilja kynna sér betur ákveðna þætti grunnskipulagsins, til dæmis arkítekta sem eru að vinna sig inn í deiliskipulagsáætlanir. Aðalskipulagið er í raun gagnagrunnur sem er þó auðvitað ekki síst mikilvægur fyrir borgarbúana sjálfa,“ segir Júlíus Vífill.

Að sögn Júlíusar Vífils er sjaldgæft að aðalskipulag taki algjörum breytingum, en lögum samkvæmt ber að gera nýtt aðalskipulag á fjögurra ára fresti. „Það er öruggt að það verða breyttar áherslur þegar nýtt fólk kemur inn, en það er sjaldgæft að um algerar kollsteypur sé að ræða, þó dæmi séu um það,“ segir Júlíus Vífill.

Birtir til um síðir
„Þannig erum við bæði með aðalskipulagsvinnu og vinnu á borð við það sem liggur fyrir á Hólmsheiði að horfa fram yfir þessa erfiðleikatíma. Það er auðvitað ljóst að margir halda að sér höndum að leggja í byggingu atvinnu- eða íbúðarhúsnæðis af því einfaldlega að slíkt húsnæði er til í dag, en á sama tíma verðum við auðvitað að vera undirbúin fyrir það sem koma skal. Þegar atvinnulífið fer að styrkjast á ný verðum við að vera tilbúin með þá skipulagsvinnu og þær skipulagsáætlanir sem munu þá vera grunnur að nýrri uppbyggingu í Reykjavík. Þó að á móti blási núna, svo um munar, þá mun engu að síður birta til um síðir og þá er það auðvitað hlutverk okkar sem vinnum að skipulagsmálum ekki bara að skynja samtímann, heldur líka að horfa inn í framtíðina. Það er ef til vill ákveðinn munaður að getað leyft sér að líta upp úr þessum skuggadal sem við erum í og horfa aðeins yfir heiðarnar og inn í birtuna,“ segir Júlíus Vífill.

Picture 825Faxaflóahafnir
Reykjavíkurborg kallar um þessar mundir eftir hugmyndum frá bæði fagfólki og almenningi varðandi uppbyggingu í Faxaflóahöfnum. Hugmyndasamkeppnin nær yfir gömlu höfnina, Örfirisey og hugsanlega landfyllingar. „Hafnarsvæði eru að breytast mikið um allan heim og íbúðabyggð er alls staðar að færast nær og inn í höfnina. Það er einfaldlega þannig að margir bera sterkar tilfinningar til hafnarinnar og hafa ánægju að vera nálægt henni. Þegar niðurstöður liggja fyrir í hugmyndasamkeppninni koma þær til með að vera hluti af aðalskipulagi. Samhliða þessu stóra skipulagsverkefni er verið að opna fyrir breytta nýtingu verbúðanna sem eru við Geirsgötu og Grandagarð. Starfsemin í verbúðunum og yfirbragð mannlífsins á svæðinu á eftir að taka miklum breytingum í framhaldi af þessu. Við vonum að ný fyrirtæki, verslanir, kaffihús, listskapendur og handverksmenn eigi eftir að færa meira líf á staðinn og vekja áhuga borgarbúa á því sem þarna fer fram og um leið auðvitað á hinni hefðbundnu hafnarstarfsemi. Reykjavíkurhöfn er vinnuhöfn og það stendur ekki til að breyta því.“ segir Júlíus Vífill.

Sundabraut
Júlíus Vífill segir að það væri skynsamlegt að hefja framkvæmdir við Sundabraut á þessum síðustu og verstu tímum, en bendir á að Sundabraut hafi verið inni á aðalskipulagi síðan árið 1975. „Það virðist vera skilningur einhverra að Sundabrautin sé nýtt fyrirbæri og tilheyri góðærinu, en það er fjarri sanni. Mikilvægi Sundabrautar og þeirri tengingu sem felst í lagningu hennar hefur verið ljóst í marga áratugi. Fjárframlög af vegaáætlun til höfuðborgarsvæðisins hafa hinsvegar verið langt undir því sem teljast mætti eðlilegt og hefði ég viljað sjá þessa framkvæmd fara miklu fyrr af stað. Það styður auðvitað allt að farið sé út í þessa framkvæmd á þessum tíma, þar sem þetta er í eðli sínu þjóðhagslega mikilvæg og mannfrek framkvæmd,“ segir Júlíus Vífill.

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið
Sem kunnugt er var ákveðið að halda áfram með uppbyggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins, sem helgast meðal annars af því að Reykjavíkurborg og ríkisstjórn höfðu tekist á hendur ákveðnar skuldbindingar um uppbyggingu hússins á vissum árafjölda. „Það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar og borgarinnar að taka yfir uppbyggingu hússins, enda höfðu allar forsendur breyst. Í þessu samhengi þarf að hafa í huga að þarna var þegar búið að byggja fyrir um ellefu milljarða, sem hafa verið afskrifaðir. Við stóðum frammi fyrir þeirri ákvörðun annað hvort að halda þessu verkefni áfram og standa við þær skuldbindingar sem við höfðum tekist á hendur, eða hreinlega hætta verkefninu og láta húsið standa svart og hálfbyggt. Staðreyndin er sú að það var mjög óhagkvæmt að stöðva framkvæmdir á þeim tíma. Vissulega hafa komið fram athugasemdir um að það hefði mátt taka meiri tíma til uppbyggingarinnar.Upphaflega stóð til að húsið yrði opnað í lok árs 2009, en nú er gert ráð fyrir það verði um mitt ár 2011. Þetta er auðvitað sjónarmið sem maður skilur vel, en það kemur á móti að því lengri tíma sem framkvæmd tekur, því dýrari verður hún,“ segir Júlíus Vífill. Júlíus Vífill bendir á að þó að Reykjavíkurborg og ríkið hafi tekið yfir byggingu hússins, sé ennþá opið fyrir það að einkaaðilar taki yfir rekstur hússins, eins og upphaflega var lagt upp með. „Ef slíkir aðilar gefa sig fram þá viljum við gjarnan setjast niður með þeim og ræða málin. Ríki og borg fóru vitaskuld ekki af stað með þetta verkefni af áhuga á að eiga og reka þetta hús. En ég er sannfærður um að það hafi verið rétt ákvörðun að ljúka við byggingu hússins þannig að það þjóni þeim tilgangi sem því var upphaflega ætlað og verði, auk þess að standa fyrir stórum ráðstefnum, miðstöð tónlistarflutnings allrar tegundar tónlistar án nokkurar aðgreiningar,“ segir Júlíus Vífill.

Ingólfstorg
Nýverið voru auglýstar breytingar á Ingólfstorgi sem hafa vakið mikið umtal, sér í lagi var umdeilt að gamall húsakostur yrði færður innar á torgið sem skapa myndi rými fyrir hótelrekstur eins og gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir. „Það er ánægjulegt að sjá hvað fólk hefur mikinn áhuga á þessu sagnfræðilega mikilvæga svæði og vill taka þátt í mótun þess. Skipulagsráð er auðvitað að fara yfir þær athugasemdir sem hafa borist og endurskoða auglýsta tillögu að deiliskipulagi. segir Júlíus Vífill.

Frjálsari hendur í skipulagsmálum
„Við ætlum raunar að fara yfir Kvosina alla að nýju, en þar er nú í gildi deiliskipulag sem við höfum ekki áhuga á að haldi gildi sínu. Gildandi deiliskipulag færir ákveðinn rétt til uppbyggingar sem við viljum fara betur yfir. Við viljum byggja meira á því að menn haldi sig við kvarða gömlu byggðarinnar og virði sögu borgarinnar með ríkari hætti en gert var fyrir nokkrum áratugum. Það getur verið svolítið flókið að vinna sig út úr gildandi skipulagi. Ég vil fara yfir það með umhverfisráðherra sem fer með skipulagsmál með hvaða hætti við getum aukið frelsi skipulagsyfirvalda til að endurskoða gildandi skipulagsáætlanir. Það er nú í gangi ákveðin lögfræðileg grunnvinna þar sem meðal annars er farið vandlega yfir þær leiðir sem farnar hafa verið í nágrannalöndum okkar. Ég vona að úr þeirri vinnu komi tillaga sem miðar að því að auka svigrúm okkar til skipulagsgerðar,“ segir Júlíus Vífill.