Kennslutími í jarð- og náttúrufræði hjá enskum gagnfræðaskólanemum við Svínafellsjökul

Litla-Hérað er stórt

Það tekur um hálfa öld frá 874, þegar fyrstu hjónin Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir setjast að í Reykjavík, að Ísland er fullbyggt. Það eru 383 landnámsmenn og 54 landnámskonur sem setjast hér að, ásamt fjölskyldum og þrælum. Sá sem nemur nær alla Öræfasveitina, hét Þorgerður (eftirnafn óþekkt) og settist hún að í Sandfelli ásamt sonum sínum. Mágur hennar, Bárður Bjarnason, nam Bárðardal, og er næst hæsta fjall landsins, Bárðarbunga í Vatnajökli kennt við hann, eins og dalurinn. Litla-Hérað er eða var eitt besta svæði landsins til landbúnaðar fram að risa stóru gosi í Öræfajökli árið1362.  Gosið í Öræfajökli 1362 er eitt mesta sprengigos sem orðið hefur á jörðinni undanfarið árþúsund. Það sem líklega kemst næst því af íslenskum gosum á sögulegum tíma er Heklugosið 1104 og þar næst Öskjugosið 1875 sem þó var mun minna.

Göngustígur í Vatnajökulsþjóðgarði, en hann spannar 14% af flatarmáli Íslands

 Í Oddverjaannál stendur; Eldur uppkominn í Litla héraði og eyddi öllu héraðinu: höfðu þar áður verið 70 bæir: lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall. Það leið um hálf öld þangað til aftur var farið að búa í Litla-Héraði, sem fékk annað nafn, Öræfasveit. Enda hafði bæði landslag og landkostir versnað til muna við þetta risastóra eldgos. Annað eldgos var í Öræfajökli árið 1727, stórt gos, þó ekkert í líkingu við fyrra gos. Fá héruð hafa um aldir sætt jafn mikilli einangrun og Öræfasveit. Frá Vatnajökli og skriðjöklum Öræfajökuls renna mjög straumþungar og vatnsmiklar jökulár og kvíslir.

Horft í vestur að Skaftafelli og Lómagnúp yfir Skeiðarársand
Sporður Svínafellsjökuls

Áður en árnar voru brúaðar torvelduðu þær öldum saman samgöngur til Öræfasveitar. Fyrir vikið var byggðin í Öræfum lengi nokkuð einangruð, ekki síst vegna Jökulsár á Breiðamerkursandi í austri (brúuð 1967) og Skeiðará á Skeiðarársandi í vestri. Brú var byggð yfir Skeiðará árið 1974, þá loks var hægt að keyra hringinn í kringum í Ísland í fyrsta skipti, og Öræfasveitin loksins komin vegasamband við aðra hluta landsins. Icelandic Times / Land & Saga heimsótti sveitina nú í miðjum apríl. 

Svínafell í Öræfum
Landnámsjörðin Sandfell, fer í eyði árið 1947, þar er prestsetur sveitarinnar til ársins 1931
Vetur og sumar, horft að Öræfajökli frá þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli
Gestir að tjalda, í Skaftafelli
Lengsta brú landsins yfir Skeiðará, opnuð 1974. Áin hefur á þessari hálfu öld breytt um farveg, rennur mun vestar, þannig að nær ekkert vatn rennur undir brúnna í dag.
Hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur ber við himinn
Náttúrunnar notið í Vatnajökulsþjóðgarði
Náttúrunnar notið í Vatnajökulsþjóðgarði

Öræfasveit 16/04/2024 : A7RIV, RX1R II –  2.0/35mm Z, FE 1.8/135mm GM
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson