Mikilvægi sjávarútvegs fyrir þjóðina er án alls vafa

Jón Gunnarsson alþingismaður, formaður atvinnumálanefndar Alþingis.

Frá upphafi byggðar á Íslandi hafa landsmenn byggt afkomu sína að meira eða minna leyti á fiskveiðum. Byggð við Faxaflóa var mjög háð fiskveiðum og útgerð og þéttbýlismyndun í Reykjavík og Hafnarfirði á 19. öld átti nánast alfarið rætur sínar að rekja til sjávarútvegs. Á 20. öld breyttust kjör Íslendinga gríðarlega til hins betra og í þeirri uppbyggingu skiptu fiskveiðar sköpum. Sjávarútvegur hefur því um langt skeið verið undirstaða velmegunar á Íslandi. Það er því skylda Íslendinga að halda vel utan um sögu og þróun sjávarútvegs og kynna komandi kynslóðum hér á landi, sem og erlendum gestum, hvernig sambúð Íslendinga var og er í dag við hafið og lífríki sjávar.
Sjávarútvegsráðstefnan, sem nú er haldin árlega, er vissulega liður í því að dreifa upplýsingum til allra þeirra sem sjósókn og fiskvinnslu stunda hér við land, en einnig er þessi mikilvæga ráðstefna liður í því að dreifa upplýsingum um nýja tækni, nýtingu afla og annars sem raunar kemur öllum við því sjávarútvegur er landmikilvægasta atvinnugreinina hérlendis. Vegna aukinnar tækni á öllum sviðum sjávarútvegs hefur þeim fækkað sem starfa við sjávarútveg en á sama tíma hefur arðsemi greinarinnar aukist, nýting þess afla sem berst á land hefur aukist og síðast en ekki síst, aukin umhverfisvernd hefur aukist og umfang þess afla sem kastað hefur fyrir borð hefur stórminnkað. Þar má vissulega gera betur og að því hefur verið unnið að stofnunum eins og Hafrannsóknastofnuninni, Íslandsstofu og Fiskistofu.

IMG_4455Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar

Á Sjávarútvegsráðstefnunni, sem haldin verður í lok nóvembermánaðar, verður með virkri þátttöku ráðstefnugesta leitað svara við því hvort þeir séu með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar. Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnulegum nýsköpunarhugmyndum, sem veita á viðurkenningu fyrir. Markmiðið er að hugmyndirnar séu framsæknar og frumlegar og skapi umræðugrundvöll eða nýja hugsun. Framúrstefnuhugmynd skal setja fram á hnitmiðaðan hátt þar sem fram kemur lýsing á hugmynd, tillaga að framkvæmd, væntanlegur afrakstur og áhrif til góðs fyrir ímynd íslenskra afurða. Hugmyndirnar þurfa auk þess að vera framúrstefnulegar að vera raunhæfar, framsæknar og frumlegar og þeir eiga að skapa umræðugrundvöll eða nýja hugsun. Á þriggja ára fresti er haldin hér sjávarútvegssýning sem dregur að fjölda erlendra gesta auk Íslendinga. Næsta sýning verður haldin haustið 2014. Íslendingar, og ekki bara þeir sem starfa við sjávarútveg, eru því vel vitandi um mikilvægi sjávarútvegs fyrir þjóðina, þjóðar sem býr í Norður-Atlantshafi við ein gjöfulustu fiskmið heims þar sem berst að landi einhver ferskustu sjávarafurðir sem þekkjast víða um heim. Þeirri ímynd vill íslensk þjóð viðhalda og sanna með góðum viðtökum erlendra neytenda.

Sjávarútvegur er mikilvægasta atvinnugreinin

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og formaður atvinnumálanefndar Alþingis segir sjávarútveg vera mikilvægustu atvinnugreinina og er helsta grunnstöðin undir atvinnu- og efnahagslífið á Íslandi. Fjölbreytni í íslensku atvinnulífi hefur aukist á síðustu áratugum og það er auðvita markmið stjórnvalda að auka þá fjölbreytni eftir bestu getu. Orkufrekur iðnaður hefur verið að aukast og skiptir stöðugt meira máli og ferðaiðnaðurinn hefur aukist hratt síðustu ár.

,,Íslenskur sjávarútvegur er þessi grunnstoð og því er það afar mikilvægt að hann sé rekinn með eins hagkvæmum hætti og mögulegt er og skili hámarks arðsemi í þjóðarbúið á hverjum tíma,“ segir Jón Gunnarsson. ,, Það verður að hámarka verð afurðanna og jafnframt að fiskistofnarnir séu nýttir með sjálfbærum hætti.
Sérstaða íslensks sjávarútvegs byggir að mínu viti fyrst og fremst á þeirri hagkvæmni sem hefur náðst á undanförnum árum. Fyrir um þremur áratugum síðan var hér rekinn sjávarútvegur sem var að mörgu leiti óhagkvæmur og afkastagetan var oft langt umfram afkastagetu þeirra fiskistofna sem veitt var úr. Þetta voru óheftar veiðar, ólympískar veiðar. Markmiðið þá var ekki að skapa hámarks verðmæti heldur að veiða sem mest. Þá var farið í það árið 1983 af stjórnvöldum að lögleiða kvótakerfið enda stefndi þá í algjört óefni hvað varðar nýtingu á okkar helstu nytjastofnum. Í framhaldi var farið í mikla hagræðinu, leyft var framsal að veiðiheimildum, kvótanum, kringum 1991 og þar með stigið eitt stærsta framfaraskrefið sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi. Sérstaðan byggir ekki síst á því hversu vel hefur tekist til í þessum efnum. Fiskiskipum var fækkað úr u.þ.b. 2.600 niður í 1.200 skip og samþykkt var gjaldtaka á íslenskan sjávarútveg til þess að borga fyrir þessa úreldingu skipa svo það var sjálfur sjávarútvegurinn sem greiddi fyrir þessa hagræðingu.
Í dag er staðan sú að fyrir íslenskar sjávarafurðir er að fást einhver hæstu verð sem þekkjast borið saman við sambærilegar afurðir á erlendum mörkuðum. Arðsemin er auk þess meiri en gengur og gerist hjá öðrum þjóðum. Það hefur sýnt sig að samþætting veiða og vinnslu er gríðarlega mikilvæg gagnvart mörkuðunum.“

Jón Gunnarsson bendir á að það séu ekki nema um fjögur ár síðan makrílveiðar hófust hér við land að einhverju marki eftir að makríllinn var farinn að ganga í auknu mæli inn í íslenska lögsögu, sem hann raunar gerir enn. Í upphafi voru stundaðar óheftar veiðar til bræðslu en eftir að sett voru lög um það að makrílinn verði að vinna að mestu til manneldis og gefnar út veiðiheimildir af stjórnvöldum, að veiðarnar fóru að miðast við hámarknýtingu til manneldis að verðmæti úr hverju veiddu tonni fóru að aukast til muna.

–    Nokkrar vísindastofnanir, m.a. MATÍS, hafa verið að þróa kerfi sem gerir kaupendum hérlendis og erlendis mögulegt að sannreyna að viðkomandi fiskafurð sem þeir hyggjast kaupa hafi verið veidd á tilteknum degi, á tilteknu veiðisvæði og af tilteknu fiskiskipi. Hefur þessi rekjanleiki vörunnar ekki enn frekar áhrif á verðmæti hennar sanni enn frekar að hér séu almennt stundaðar sjálfbærar veiðar?
 
,,Kröfur markaðarins eru mjög mikið að aukast í þessa veru og kröfur neytenda um sjálfbærar veiðar fara stöðugt vaxandi og ekki sé verið að ganga of nálægt fiskistofnunum. Ég tel að Íslendingar hafi verið of seinir að koma á sínu umhverfismerki og ég tel að þjóðir við Norður-Atlantshaf eigi sameiginlega að taka upp slíka vottun. Kröfurnar í þessa átt eiga eftir að aukast, og það er af hinu góða. Við Íslendingar eru vel í stakk búnir til að uppfylla kröfur að þessu leiti, bæði hvað varðar veiðar og vinnslu.“

Jón segir sátt um það innan stjórnarflokkanna að þegar vel gengur í íslenskum sjávarútvegi þá borgi greinin meira til samfélagsins en hvetji jafnframt til hámarks afraksturs auðlindarinnar, aukinnar hagræðingar, hámarks afkastagetu og hámarks verðmætasköpunar. Hjá Evrópusambandinu er þessu ekki þannig farið, þar er skattpeningum frá almenningi dælt inn í greinina eftir þörfum.

–    Hver heldurðu sé sé skoðun eða viðhorf almennings í Vestur-Evrópu á íslenskum sjávarútvegi? Er sú ímynd jákvæð?

,,Okkar sjávarútvegur hefur mjög góða ímynd erlendis, við njótum virðingar og okkar vísindamenn gera það einnig. Það er vaxandi skoðun erlendis, einnig innan Evrópusambandsins, að horfa verði til þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem hér er við lýði. Við höfum hlotið viðurkenningu á alþjóða vettvangi á okkar sjávarútvegi, að byggja upp fiskistofna og vera með sjálfbærar  veiðar. Á þessum vettvangi verður við að vera í forystu og auka skilning annarra þjóða á mikilvægi þess að stunda sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Við eigum enn sóknarfæri, t.d. í hvalveiðum og það er mjög rangt að þar skuli ekki eiga sér sjálfbær nýting í heimi þar sem er stöðug þörf fyrir meiri matvæli,“ segir Jón Gunnarsson.