Nýtt varðveisluhús Borgarsögusafns

Í gær miðvikudag 28. október 2015 var nýtt varðveisluhús Borgarsögusafns tekið formlega í notkun með skemmtilegri og viðeigandi athöfn. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Elsa Hrafnhildur Yeoman formaður menningar- og ferðamálaráðs og Páll V. Bjarnason arkitekt hússins fluttu nokkra safngripi sem verið höfðu í óviðunandi geymslu í bragga yfir í hið nýja og fullkomna varðveisluhús sem staðsett er í Kistuhyl við Árbæjarsafn. Að því loknu hélt borgarstjóri ræðu og óskaði safnstjóra Guðbrandi Benediktssyni og Gerði Róbertsdóttur verkefnisstjóra sem og öllum nærstöddum hjartanlega til hamingju.

icelandic timesHið nýja varðveisluhús er afar merkur áfangi fyrir safnastarf í Reykjavík, því það er hið fyrsta í eigu borgarinnar þar sem safngripum eru búin bestu hugsanlegu varðveisluskilyrði. Í húsinu er fullkomið loftræstikerfi sem tryggir jafnt og stöðugt hita- og rakastig. Einnig er í hluta hússins slökkvikerfi þar sem notast er við gas til að slökkva eld, í stað vatns sem skemmt getur viðkvæma safngripi.

icelandic times mediaBorgarsögusafn Reykjavíkur varðveitir um 32.000 lausa gripi fyrir utan fornleifar, hús og ljósmyndir. Safnið hefur í gegnum tíðina eignast fjölmarga gripi sem tengjast heimilishaldi og atvinnulífi í höfuðborginni, og eru margir þeirra ómetanlegir og óbætanlegir. Góður og fjölbreyttur safnkostur er forsenda þess að safnið geti sett upp fróðlegar og áhugaverðar sýningar er tengjast sögu Reykjavíkur.

Varðveisluhús er heimili safngripa, þar eru þeir geymdir milli þess sem einstaka gripir fara tímabundið á sýningar. Afar brýnt er að sem best sé búið um safngripi í varðveisluhúsum. Helstu óvinir safngripa eru sólarljós, ryk og sveiflur á hita og raka og þá sérstaklega of þurrt loft. Lífræn efni eins og timbur þola illa örar rakabreytingar, gamlir gripir eru viðkvæmari en nýrri. Nú horfir til betri tíma því í hinu nýja varðveisluhúsi er loftræstikerfi sem bætir inn raka þegar þarf og dregur úr sveiflum og skapar þar með safngripum Borgarsögusafns hin bestu mögulegu varðveisluskilyrði.

icelandic times reykjavikNánari upplýsingar veitir:

Guðbrandur Benediktsson
Safnstjóri
[email protected]
s: 693-6996

Gerður Róbertsdóttir
Verkefnastjóri munavörslu
[email protected]
s: 411-6316