Opnunaratriði Vetrarhátíðar

Fjögurra daga glæsileg Vetrarhátíð verður haldin frá  4. – 7. febrúar og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Höfuðborgarstofa hefur yfirumsjón með hátíðinni og eru allir viðburðir á henni ókeypis.  Fjórar meginstoðir hátíðarinnar eru: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuður og ljósalist ásamt 150 viðburðum sem þeim tengjast.

Harpa Roman GerasymenkoHátíðin verður sett með afhjúpun ljósaverksins Slettireku, á morgun fimmtudaginn 4. febrúar kl. 19.30 við Hörpu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina. Skíða- og snjóbrettapartý sem átti að fara fram  á Arnarhóli eftir opnunaratriðið, frestast til föstudagsins 5. febrúar kl. 19.
Opnunaratriðið Slettireka er óvenju glæsilegt þar sem ljósahjúp Hörpu er breytt í gagnvirkan striga sem almenningur getur myndskreytt með sýndarmálningu meðan á Vetrarhátíð stendur.  Myndskreytingin fer þannig fram að vefsíðan paint.is er opnuð í síma og þar er hægt að velja um  liti til að setja á glerhjúpinn. Verkið sigraði í samkeppni um besta listaverkið á ljósahjúp Hörpu fyrir Vetrarhátíð 2016 og er eftir þá Halldór Eldjárn og Þórð Hans Baldursson.
 
Um ljósaverkið Slettireku:
Í nóvember efndu Harpa, Stúdíó Ólafs Elíassonar og Höfuðborgarstofa til samkeppni um ljósverk á Hörpu fyrir Vetrarhátíð 2016. Með verkefninu er leitast við að skapa vettvang þar sem íbúar borgarinnar geta notið Hörpu á nýjan hátt með stafrænni og gagnvirkri list.  
Verkið Slettireka hlaut verðlaunin en höfundarnir  þeir Halldór Eldjárn og Þórður Hans Baldursson segja um verkið:  

„Við ætlum að breyta ljósahjúpi Hörpu í risastóran gagnvirkan striga. Hverjum sem er verður gert mögulegt að myndskreyta strigann með því að klessa á hann sýndarmálningu. Myndskreytingin fer þannig fram að þú opnar vefsíðu á símanum þínum og velur þar úr litum og hvar þú vilt sletta málningu á glerhjúpinn. Áhrifin sjást strax á glerhjúpnum og lýtur sýndarmálningin þar sömu náttúrulögmálum og annar seigfljótandi vökvi þar sem hann tekur að leka hægt og rólega niður. Þetta knýr fram litríkt sjónarspil og opnar þeim sem vilja gátt að því listaverki sem glerhjúpurinn er.“