Orkuverið í Svartsengi
Staðsetning orkuversins dregur nafn sitt af áningarstað hestamanna til forna, en það er svæðið austan núverandi Grindavíkurvegar gengt orkuverinu. Sjálft orkuverið stendur á hrauni sem rann árið 1226 sem heitir Illahraun. Sunnan orkuversins er Þorbjarnarfell og austan við er Svartsengisfell og Selháls þar á milli og norðan hans Baðsvellir sunnan orkuversins.
Boranir eftir gufu á Svartsengissvæðinu hófust um miðjan nóvember 1971og átti að bora um 700 metra holu, við 250 metra dýpi var hiti hennar orðinn um 200°C. Í fyrsta áfanga voru boraðar þrjár holur sú dýpsta var um 400 metrar. Þessar holur voru notaðar við heitavatnsframleiðslu í varmaskiptastöð sem var byggð árið 1976. Strax við virkjun þessara gufuhola fór skiljusjórinn að mynda affallslón sem í dag er hið fræga Bláa Lón. Vatni var hleypt á fyrstu húsin í Grindavík 6. nóv. 1976 og ári síðar eða 30.desember 1977 á fyrstu húsin í Njarðvík.
Heita vatnið á Suðurnesjum er upprunalega ferskt vatn. Ferskt vatn er afloftað, afgösun er gerð á því og það hitað með háþrýstigufu í varmaskiptum og þannig er því dælt til viðskiptavina á Reykjanesi. Það er því óhætt að segja að ekki sé þörf á að sjóða sér vatn í katli heldur þarf aðeins að setja bollann undir heitavatnskranann og þú ert kominn með soðið vatn.
Orkuverin í Svartsengi hafa verið byggð upp í áföngum á árunum 1977 – 2008.
Orkuver 1
Orkuver eitt var hannað og byggt á árunum 1977-1979. Þar eru tveir eins MW mótþrýstigufuhverflar af AEG gerð en sá fyrri var tekin í notkun árið 1978 og sá seinni árið 1979. Sáu þeir orkuverinu fyrir eigin orkuþörf.
Í orkuverinu voru einnig fjórar varmaskiptarásir sem hver gat framleitt um 40 l/s af hitaveituvatni. Varmaorkuframleiðsla orkuversins var 50 MW. Vegna aldurs hafa tvær varmaskiptarásir verið lagðar af (2000) og er framleiðslugeta orkuversins í dag (2006) um 25 MW í varma.
Orkuver 2
Orkuver tvö var byggt á árunum 1979–80 og tekið í notkun það ár. Í orkuveri tvö eru þrjár varmaskiptarásir sem hver getur afkastað 75 l/s af 125°C vatni, sem er 3 x 25 MW eða 75 MW samtals.
Ferska vatnið er fyrst forhitað úr 4°C í 25°C í eimsvölum Ormat-hverfla, síðan afloftað og hitað í orkuveri tvö með lágþrýstigufu í varmaskiptasúlum í um 80°C. Þá er það hitað í um 100°C í plötuvarmaskiptum með 102°C-105°C gufu frá útrás gufuhverfils, og að endingu er hitaveitu vatnið yfirhitað í 101°C-110°C í plötu-varmaskiptum og er það gert með háþrýstigufu.
Orkuver 3
Orkuver þrjú er raforkuver með sex MW mótþrýstigufuhverfil. Inn á hverfil fer um 40 kg/sek af gufu við fimm bar þrýsting og 160°c hita. Frá hverfli fer gufa með um 0,2 bar þrýsting sem er um 103°c heit inn á varmaskiprakerfi orkuvers tvö og einnig inn á sjóðara fyrir Ormathverfla í orkuveri fjögur.
Hverfillinn er frá FUJI í Japan og var gangsettur 20. desember árið 1980 til raforkuframleiðslu út á netkerfi landsins. Hverfilinn er stöðvaður einu sinni á ári í um tvær vikur til hreinsunar og viðhaldsvinnu. Á árinu 2005 voru framleiddar 46 GWst með þessum gufuhverfli. Nýting hverfilsins í framleiðslu hefur verið almennt um og yfir 90%
Orkuver 4
Orkuver fjögur er raforkuver með sjö Ormat Ísopentan-hverfla sem nota umframgufu, lágþrýstigufu, frá hinum orkuverunum. Hver samstæða framleiðir 1,2 megavött. þrír hverflar með gír, eins þrepa, eru með vatnskælda eimsvala (gangsett 1989) og fjóra asincron hverfla án gírs, tveggja þrepa, með loftkælda eimsvala (gangsett 1993). Heildar framleiðslugeta orkuvers fjögur er 8,5 MW í rafafli og um 30 MW í varmaafli til hitaveitu. Gufuhverflarnir í orkuveri eitt og þrjú nota einungis hluta af orkunni í háþrýstigufunni. Eftir að hafa knúið gufuhverflana er gufan, um 103°C heit síðan bæði notuð til að hita upp vatn í varmaskiptarásum, orkuvera 1 og 2 og til að hita upp ísopentan í sjóðurum Ormat véla í Orkuveri 4.
Tilkoma Ormatvirkjunar árið 1989 féll afar vel inn í varmaferlið sem fyrir var í Svartsengi, þá sem forhitun á hitaveituvatni, sem nemur aukningu á framleiðslugetu um 30 MW. Það leiddi af sér sparnað á jarðsjó og þar með minnkun á niðurdrætti í jarðhitageyminum.
Orkuver 5
Bygging orkuvers fimm í Svartsengi fór af stað vegna nauðsynlegrar endurnýjunar elsta hluta orkuversins í Svartsengi , (þ.e. Orkuver eitt frá 1977) og stækkunar til framtíðar ásamt því markmiði að nýta jarðhitakerfið á sem hagkvæmastan hátt. Orkuver fimm var tekið í notkun til raforkuframleiðslu í byrjun nóvember 1999 en heitavatnsframleiðsla í orkuverinu hófst í lok febrúar 2000.
Orkuver fimm er virkjun með 30 MW eimsvala hverfli og 75 MW varmaskiptakerfi ásamt gasdælum og gufuþeysum , sér gufuveitu, þéttivatnskerfi, forskilju- og rakaskiljustöð, kæliturn, stjórnherbergi, spennum og rofastöð.
Í orkuveri fimm er notuð um 75 kg/sek af 160 °C gufu við 5,5 bar þrýsting inn á hverfil. Þessi hverfill sem er hannaður með 10 þrepum og með þremur gufuúttökum fyrir varmaskiptakerfi orkuversins.
Sú gufa sem fer um öll þrepin endar í eimsvala en þar nýtist hún við að hita forhitað vatn frá orkuveri fjögur úr um 25°c í um 38°C.
Frá úttaki tvö sem er eftir fimmta þrep fer gufa að eftirhiturum um 117°c heit og hitar vatnið áfram í um 94°c þaðan fer það í afloftara og síðan um lokahitara, sé þess þörf.
Þá er notuð gufa sem er 133°c frá úttaki eitt sem er eftir þriðja þrep hverfils.
Í lokahiturum er vatnið hitað eftir þörfum oftast í 100-105 °c Þaðan fer vatnið frá orkuveri um stofnæð að dælu og blöndunarstöð Fitjum. Raforku framleiðsla 30 MW hverfils orkuveri fimm hefur verið að jafnaði um 255 GW stundir á ári, árin 2000-2006 og er nýting hverfilsamstæðu því um 97%.
Orkuver 6
Orkuver sex er eimsvalavirkjun með nokkuð sérstæðum gufuhverfli. Aflgeta hverfilsins er allt að 30 MW.
Hverfileiningin er ekki grunnaflseining heldur fylgir álag hennar að verulegu leiti hitaveitu- og rafmagnsálagi hverju sinni. Staðsetning stöðvarhúss er norðan núverandi orkuversbygginga í Svartsengi, nánar tiltekið á þeim stað þar sem upphaflega Bláa Lónið var.
Orkuver 6 notar háan þrýsting gufuholanna SVA H 10, 16 og 20, en inntaksþrýstingur 33 MW gufuhverfilsins verður 15 bör.
Gufumagn við inntak er um 80 kíló á sekúndu. Við 5,7 bar þrýsting í hverflinum er rúmlega helming gufunnar hleypt yfir á vél 11 í Orkuveri 5. Restin af gufunni heldur síðan áfram í gegnum hverfilinn niður í 0,07 bara þrýsting (93% vakúm).
Einnig er haft inntak á hverflinum frá gufulögn að Ormat vélum. Það gerir að verkum að hverfillinn getur tekið við hlutverki allt að þriggja Ormat véla ef þær eru í upptekt. Hvert inntak og úttak er með tvo stúta og eru því samtals átta stútar á vélinni, til viðbótar við endaúttakið fyrir eimsvalagufuna.
Hönnuðir vélarinnar hjá Fuji Electric kalla hana kolkrabbann (tako á japönsku) vegna allra gufustútanna.
Ljósmynd: Friðþjófur Helgason