Ísland kann að vera þekkt fyrir fisk og lambakjöt en fólk sem borðar ekki kjöt getur glaðst yfir því að vaxandi fjöldi veitingastaða býður upp á gómsæta vegan- og grænmetisrétti af öllu tagi. Í reynd hefur aldrei verið auðveldara fyrir vegan fólk og grænmetisætur að finna góða veitingastaði í Reykjavík. Mörg kaffi- og veitingahús hafa á boðstólum vegan- og grænmetisrétti og flestir staðir koma til móts við gesti jafnvel ef slíkir réttir eru ekki á matseðlinum.
Fólk getur valið um fjölmarga vegan staði sem nota ferskt, íslenskt hráefni og uppfylla kröfur fólks um sérstakt mataræði. T.d. geta þeir sem eru að leita eftir einhverju frumlegu og ekki bara öðrum grænmetisborgara, heimsótt AALTO Bistro og gætt sér á frábærum graskersborgara. Kryddlegin Hjörtu og Kaffi Garðurinn bjóða upp á sumar af ljúffengustu súpum landsins, og Nepalese Kitchen er með á boðstólum vel kryddaða vegan rétti. Vertu viss um að eiga pláss fyrir eftirrétt á Eldur og Ís þar sem boðið er upp á gómsætar vegan crepes eða á Hafís sem býður upp á fyrsta flokks vegan ís. Þetta er frábær tími til að vera vegan í Reykjavík!
AALTO Bistro
AALTO Bistro er glæsilegur veitingastaður þekktur fyrir nýnorræna matargerðarlist. Nafntogaði kokkurinn Sveinn Kjartansson útbýr frumlega rétti með ferskum, íslenskum hráefnum og veitir veitingastaðnum forystu, en hann er staðsettur í Norræna húsinu. Sveinn kappkostar að bjóða upp á matseðil við allra hæfi og uppfyllir kröfur gesta með sérstakt mataræði.
Í boði er fjölbreyttur matseðill með kjötlausum réttum og vegan réttum, þ.m.t. graskersborgari borinn fram á heimagerðu hrökkbrauði með bakaðri kartöflu, kasjúhnetupestó, stökku grænkáli og fersku salati. Meðal grænmetisrétta er brokkólíbaka borin fram með valhnetum, geitaosti og fersku salati; gráðostabaka með trönuberjum, graskersfræjum og fersku salati; og kúrbíts-kryddjurta fritatta
með snöggsteiktu grænmeti, fíkjuchutney og súpusnaps.
Heimsæktu þessa fallegu byggingu, sem hönnuð var af Finn Alvar Aalto, og prófaðu það besta í matargerðarlist þjóðarinnar.
www.aalto.is
Eldur og Ís
Svo kann að virðast sem gómsætar crepes henti illa vegan fólki en svo er ekki hjá Eldur og Ís. Þessi frábæra ísbúð er með crepe bar þar sem boðið er upp á allskyns góðgæti, og eru kröfur um sérstakt mataræði uppfylltar. Gestir geta valið um allt frá ferskum ávöxtum eins og banönum og berjum til súkkulaðisósu og annarra sætinda. Boðið er upp á glúten- og laktósfría vegan crepe sem sannarlega gleður bragðlaukana. Vegan crepes eru gerðar úr bókhveiti og hrísgrjónum og meðal þess sem velja má ofan á þær er vegan súkkulaði og ávextir.
Á boðstólum er ís úr vél og ítalskur ís með sígildum bragðtegundum eins og vanillu, súkkulaði og jarðarberjum en einnig má velja kaffi, pistasíur og fjölmargt annað. Þetta fjölskyldufyrirtæki er orðinn fastur punktur í bæjarlífinu og frábær staðsetning, vinalegt starfsfólk og gott orðspor hafa gert staðinn að uppáhaldi meðal bæjarbúa og ferðafólks. Inni í ísbúðinni eru sófar og hægindastólar þannig að þægilegt er að slappa af og njóta þess að fá sér crepe, ís, heitt súkkulaði eða kaffi.
Skólavörðustígur 2, 101 Reykjavík
https://www.facebook.com/eldurogis
571 2480
Kryddlegin Hjörtu
Veitingastaðurinn Kryddlegin Hjörtu býður upp á ferska rétti úr íslensku hráefni í hjarta miðbæjarins. Eigendurnir völdu nafnið vegna þess að þeir lögðu hjarta sitt og sál í að útbúa máltíðir með bestu hráefnum sem landið hefur upp á að bjóða. Þessi þægilegi veitingastaður býður upp á holla og ljúffenga rétti af ýmsu tagi og helga eigendurnir sig því að nota ferskt úrvals hráefni frá bændum. Staðurinn leggur metnað sinn í að bjóða upp á fyrsta flokks súpu- og salatbar þar sem m.a. má finna salsa-, villisveppa- og gulrótasúpu.
Meðal vegan- og grænmetisrétta á matseðlinum eru grænmetislasagna borið fram með brauði og húmmus; hnetusteik með vegan villisveppasósu, kúskús og rauðrófu eða eplasalati; og grænmetisfajitas. Kokkurinn mætir kröfum um sérstakt mataræði og getur skipt út kjöti eða osti í réttum þegar óskað er eftir því. Komdu við á huggulega veitingastaðnum Kryddlegin Hjörtu og njóttu afbragðs máltíðar úr fersku íslensku hráefni.
Hverfisgata 33, 101 Reykjavík
588 8818
https://www.kryddleginhjortu.is/english
Nepalese Kitchen
Þægilegi veitingastaðurinn Nepalese Kitchen við Laugaveg er algjör gimsteinn í veitingahúsaflóru Reykjavíkur. Þegar gengið er inn á staðinn mætir manni ilmur af dýrindis framandi kryddum ásamt vinalegum móttökum eiganda staðarins, Deepak Panday. Deepak, sem er fæddur í Nepal og hefur búið á Íslandi í um 10 ár, elskar að framreiða mat fyrir bæði ferðafólk og íbúa bæjarins.
Réttirnir, sem útbúnir eru af Deepak og eiginkonu hans, eru fullkomlega kryddaðir og allar kröfur um sérstakt mataræði eru uppfylltar, þ.m.t. fyrir vegan fólk og grænmetisætur. Allir réttir eru búnir til frá grunni fyrir hvern gest veitingahússins og komið er til móts við óskir um að sleppa ákveðnum hráefnum. Matseðillinn er fjölbreyttur og það er erfitt að velja einungis einn rétt! Í boði eru vegan- og grænmetisréttir með bæði léttum og ríkulegum sósum. Meðal rétta á matseðlinum eru kjúklingabaunir eldaðar með kryddjurtum og fersku kóríander; spínat og kartöflur eldað í kryddjurtum með ljúffengri masala sósu; kasjúhnetur eldaðar með rauðum pipar, lauk, tómötum, engifer, hvítlauk og sérstökum kryddjurtum; og sígildur nepalskur grænmetisréttur með kartöflum, bambussprotum og kúabaunum. Um er að ræða frábært úrval af gómsætum réttum!
Laugavegur 60A, 101 Reykjavík
517 7795
www.nepalesekitchen.is
Hafís
Ís nýtur ótrúlegra vinsælda hjá Íslendingum og lætur fólk eftir sér að kaupa ís allan ársins hring, jafnvel í verstu veðrum. Í Hafnarfirði er að finna frábæra ísbúð sem vert er að heimsækja. Ísbúðin mætir kröfum þeirra sem neyta ekki mjólkurafurða með góðu úrvali af vegan ís og ítölskum ís. Hafís býður upp á a.m.k. þrjár vegan bragðtegundir á hverjum tíma og í boði er allskyns góðgæti ofan á ís í brauðformi eða boxi. Allur ís og meðlæti er gert úr fyrsta flokks hráefni og ekki eru notuð nein litar- eða gerviefni.
Eigandi Hafís ferðaðist til Ítalíu áður en hann opnaði búðina til að kynna sér framleiðsluaðferðir og hráefni sem notuð eru í ítalskan ís og hefðbundinn ís. Hver bragðtegund er útbúin með vandlegum hætti. Ein af vinsælustu vegan bragðtegundunum er Tyrkisk Peber, sem margir Íslendingar elska og ferðafólk er forvitið um. Ísbúðin hefur hlotið frábæra dóma fyrir vegan ísinn sinn, sem er ekta ís og ekki sorbet. Allur ís sem Hafís selur er glútenlaus og hentar því fólki með glútenóþol.
Bæjarhraun 2, Hafnarfjörður
437 0000
www.hafis.is
Kaffi Garðurinn
Kaffi Garðurinn er lítið kaffihús staðsett á Klapparstíg í hjarta borgarinnar. Gestir staðarins geta valið úr fjölbreyttu úrvali gómsætra vegan- og grænmetisrétta. Þetta notalega kaffihús hefur verið í uppáhaldi meðal bæjarbúa og ferðafólks í meira en áratug. Íslensk hráefni eru notuð eins og kostur er og ljúffengir réttirnir eru ferskir og frumlegir. Andrúmsloftið er þægilegt og rólegt og allt starfsfólkið leggur stund á hugleiðslu með hinum virta kennara Sri Chinmoy. Þau leggja áherslu á að skapa róandi umhverfi fyrir viðskiptavini sem er innblásið af hugmyndafræði Sri Chinmoy um þjónustu.
Matseðill kaffihússins breytist reglulega en þar má finna rétti á borð við grænmetis- og chilisúpu, súpu með rauðum linsubaunum, súrsæta Texas súpu, gríska spínatsúpu, mexíkóska súpu og tyrkneska baunasúpu. Allar súpurnar eru vegan og án glútens og eru smekkfullar af ferskum og bragðgóðum hráefnum. Meðal annarra rétta má nefna snöggsteikt blómkál með indversku kryddi, spínat lasagna, jarðhnetukássu, grænmetiskarrí og möndluhleif. En vertu viss um að eiga pláss fyrir eftirrétt þar sem að boðið er upp á úrval af vegan kökum og hrákökum ásamt öðru góðgæti.
Klapparstígur 37, 101 Reykjavík
561 2345
www.kaffigardurinn.is