DILL er með matreiðsluþátt í bígerð

Yfirkokkurinn Ragnar horfir til baka og ræðir áhrif fyrstu Michelin-stjörnunnar

Dill á Hverfisgötu 12 er með nýjan matreiðsluþátt í bígerð sem mun fara í framleiðslu í haust.   Í þættinum mun yfirmatreiðslumaður Dill, Ragnar Eiríksson, þræða hringinn í kringum landið, hitta fólk, elda mat úr besta fáanlega hráefni á Íslandi og slá upp veislum.  Þátturinn hefur ekki hlotið nafn og er hann sömuleiðis mannlífsþáttur þar sem íslensk náttúra, stemning og góð tónlist fær að njóta sín með matargerðinni.  Sjónvarpsstöðvar hafa lýst yfir áhuga á að sýna þáttin og verður það kynnt nánar síðar.  Þáttunum verður stýrt af ljósmyndaranum Lilju Jónsdóttur sem hefur skapað sér nafn sem helsti sviðsmyndaljósmyndari landsins.

Eins og mörgum er kunnugt um þá tók Ragnar á móti Michelin-stjörnu fyrir hönd veitingastaðarins 22. febrúar síðastliðinn og segir Ragnar að áhrifin hafa verið mikil í kjölfarið. 

„Það var vissulega skrýtið að fá símtal frá yfirmanni Michelin í Evrópu og heyra að maður þurfi að koma sér til Stokkhólms innan þriggja daga.  Það má segja að það hafi farið af stað mjög hröð atburðarrás sem varla er hægt að segja að hafi mikið hægst á síðan. Það hefur verið meira og minna fullbókað á Dill síðan að það fluttist úr Norræna húsinu og að Hverfisgötu 12 en það má segja að aðsókninn hafi margfaldast við þessa athygli. Það komast ekki fleiri að á Dill en 35 til 40 manns á kvöldi og það er bara opið 4 daga í viku svo það er fljótt að fyllast hjá okkur og geta biðlistar fyrir eftirsóknarverð kvöld náð vel á annað hundrað vongóðra gesta.“ segir Ragnar.   

Þess má geta að til viðbótar við DILL er rekstur Hverfisgötu 12 Pizza, Mikkeler & friends og Sæmundar í Sparifötunum á KEX Hostel undir sama hatti. 

Aðspurður um  hvort Dill hafi gert einhverjar breytingar á rekstrinum eftir stjörnuna segir hann: „Við höfum ekki að breytt neinu, heldur haldið okkar striki. Margir furða sig á því af hverju við séum ekki löngu búin að stækka við okkur eða flytja í stærra húsnæði, það er alls ekki í myndinni, Dill á einfaldlega heima í þessari gömlu hlöðu sem Hálfdán Pedersen hefur gert svo listilega upp.“ 

„Síðastliðið hálft ár höfum við líka fengið mikla athygli erlendra fjölmiðla og hefur bróðurparturinn af mínum tíma farið í alls kyns blaða og sjónvarpsviðtöl, gestakokka heimsóknir og Pop-up á íslandi og erlendis til að vekja athygli á Íslandi og Dill enda þyrstir fólk í að kynnast þessum litla stað betur. Sem betur fer er starfsfólkið okkar á Dill einfaldlega það duglegasta og hæfasta á landinu sem gerir þetta prímadonnu flakk á mér mögulegt.“ segir Ragnar brosandi.   

„Í framtíðinni vonast ég nú til að sjá fleiri Michelin stjörnur á Íslandi enda margir veitingastaðir þess verðugir í ört stækkandi veitingahúsaflóru landsins.“ segir Ragnar að lokum þegar hann er spurður út framtíðina og veitingahúsin hér á landi sem fjölga ört.

Myndirnar eru teknar af Lilju Jónsdóttur í Traustholtshólma þar sem DILL var með pop up kvöldverð í júní.