Hádegistónleikar – Andri Björn Róbertsson
Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 12
Þriðjudaginn 6. febrúar kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en þá verður Andri Björn Róbertsson, bassabarítón, gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá munu þau flytja aríur eftir tónskáldin Mozart, Rossini og Händel.
Andri Björn Róbertsson, bassabarítón, stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík, Royal Academy of Music, National Opera Studio í London og Óperustúdío Óperunnar í Zürich. Hann hefur sungið við óperuhús víðs vegar um Evrópu, svo sem við Óperuna í Zürich, Konunglega óperuhúsið í Covent Garden, Hollensku þjóðaróperuna, Óperuna í Lyon, Ríkisóperuna í Hamborg, Ensku þjóðaróperuna, Íslensku óperuna, Glyndebourne og Opera North, auk þess að hafa komið fram á hátíðum á borð við Festival d’Aix en Provence í Frakklandi og Llangollen International Music Eisteddfod í Wales. Meðal óperuhlutverka Andra má nefna Fígaró í Brúðkaupi Fígarós, Leporello í Don Giovanni, Basilio í Rakaranum frá Sevilla, Angelotti í Toscu og Sprecher í Töfraflautunni. Á næsta ári mun Andri svo syngja í Jónsmessunæturdraumi eftir Britten og Töfraflautunni eftir Mozart hjá Opera North.
Andri hefur komið fram á ljóðatónleikum á Oxford Lieder Festival, Wigmore Hall, Óperunni í Lille, Cadogan Hall, á Sönghátíð í Hafnarborg, í Hörpu og Salnum í Kópavogi. Andri hefur einnig getið sér gott orð sem óratoríusöngvari og hefur meðal annars sungið í passíum og kantötum Bachs, Messíasi og Saul eftir Handel, Sálumessu Mozarts og Sköpuninni eftir Haydn. Árið 2021 gaf hann út, ásamt Ástríði Öldu Sigurðardóttur, píanóleikara, plötuna Thorsteinson & Schumann undir merkjum Fuga Libera með sönglögum eftir Árna Thorsteinson og Robert Schumann. Þá hlaut platan fádæma viðtökur gagnrýnenda um alla Evrópu. Meðal verðlauna og viðurkenninga Andra má nefna fyrstu verðlaun í Mozart-söngkeppninni í London og HSBC-verðlaun Festival d’Aix en Provence, auk þess sem hann hefur í tvígang verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Andri kennir söng við Háskólann í Newcastle, Northumbria-háskóla og Háskólann í Durham.
Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.
Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.