Hádegistónleikar í Hafnarborg

Hafnarborg – Hádegistónleikar
Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú)
5. desember kl. 12:00

Þriðjudaginn 5. desember kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á síðustu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en þá verður sópransöngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá munu þær flytja aríur og söngljóð eftir tónskáldin Puccini, Verdi og Aljabjev. Yfirskrift tónleikanna að þessu sinni er „Skvísur og söngfugl“.

Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópran, hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar sem meðlimur í Spilverki þjóðanna. Diddú nam söng í Reykjavík og síðar við Guildhall School of Music and Drama í London. Þá stundaði hún einnig framhaldsnám í söng á Ítalíu en á námsferli sínum vann hún til fjölda viðurkenninga og verðlauna. Diddú hefur sungið stór hlutverk í uppfærslum hjá Íslensku óperunni. Þar má nefna Carmina Burana, Brúðkaup Fígarós, Rigoletto, Töfraflautuna, Lucia di Lammermoor, La Traviata, Ástardrykkinn og Leðurblökuna. Hún tók einnig þátt í Niflungahringnum og Ævintýrum Hoffmanns, sem voru samstarfsverkefni Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins. Árið 1992 söng hún svo í Rigoletto við óperuna í Gautaborg. Síðast söng Diddú hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2011 sem söngkona ársins fyrir túlkun sína á hlutverkinu.

Diddú hefur leikið og sungið í ýmsum sjónvarpsleikritum, svo sem Brekkukotsannál og Silfurtunglinu, auk kvikmyndanna Karlakórsins Heklu og Bíódaga. Hún hefur jafnframt sungið inn á fjölda hljómdiska og margoft komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið með kórum bæði kirkjuleg og veraldleg verk, auk þess sem hún hefur unnið með Stórsveit Reykjavíkur og hinum rómaða rússneska Terem-kvartett. Með eftirminnilegustu viðburðum á ferli Diddúar voru tónleikar í Laugardalshöll með José Carreras árið 2001 og árið 2005 hlotnaðist henni svo sá heiður að stíga á stokk með Placido Domingo á tónleikum hans í Egilshöll. Diddú hefur sungið víðs vegar um Evrópu, á Norðurlöndunum, í Bandaríkjunum, Japan, Kína og Rússlandi. Árið 1995 var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og Ljónaorðu finnska ríkisins árið 1997. Þá hlaut hún heiðursverðlaun Samtóns og Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2020.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.

RELATED LOCAL SERVICES