Árnastofnun – Frá handritum til gervigreindar

Sigurðar Nordals fyrirlestur
Hvað þýðir þjóðtungan? Frá handritum til gervigreindar
14. september kl. 17:00

Sigurðar Nordals fyrirlestur er haldinn 14. september ár hvert. Fyrirlesari að þessu sinni er Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði og deildarforseti Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands, og nefnist fyrirlesturinn: Hvað þýðir þjóðtungan? Frá handritum til gervigreindar.

Samhengið í íslenskri menningu og tungu byggir á bókmenntum okkar en ekki síður á þýðingum sem ævinlega hafa fært bókmenntunum, og raunar fjölda annarra sviða menningarinnar, allt það sem nýtt er og framandi frá öðrum löndum. Í fyrirlestrinum verður litið yfir hvernig þýðingar hafa viðhaldið þjóðtungunni frá alda öðli til okkar tíma gervigreindar og vélvæðingar tungumálsins. Litið verður til hugmynda Sigurðar Nordals um samhengið í íslenskum bókmenntum og þær skoðaðar í spegli þýðinga og þróunar bókmennta á Íslandi og í Evrópu. Í framhaldinu verður reynt að rýna í samtímann og hugsanleg áhrif gervigreindar á þjóðtunguna, íslenskar bókmenntir og þýðingar.

Gauti Kristmannsson lauk BA-prófi í ensku við Háskóla Íslands, meistaraprófi í skoskum bókmenntum frá Edinborgarháskóla og doktorsprófi í þýðingafræði með áherslu á ensku, þýsku og menningarfélagsfræði frá Johannes Gutenberg-háskólanum í Mainz/Germersheim. Doktorsritgerð hans fjallaði um hvernig þýðingar voru að mörgu leyti grundvöllur að því sem kallað hefur verið þjóðarbókmenntir, en sú hugmynd er ríflega tveggja alda gömul. Endurskoðuð útgáfa ritgerðarinnar kom út í tveimur bindum árið 2005 og auk fjölda greina um þýðingar og þýðingafræði hefur hann einnig sinnt bókmenntarýni á Rás 1 á RÚV og árið 2012 kom út úrval þeirra pistla í bókinni Viðbrögð úr Víðsjá. Gauti er prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

Fyrirlesturinn verður tekinn upp og gerður aðgengilegur á vef stofnunarinnar.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0