Alphabet
Opnun í dag, fimmtudaginn 17. október kl. 17-19
Verið velkomin á opnun fjórðu einkasýningar Callum Innes í i8 gallerí, í dag, fimmtudaginn 17. október frá klukkan 17 til 19. Sýningin stendur til 30. nóvember.
Lingua franca
- Tungumál sem notað er í samskiptum meðal fólks með ólík móðurmál
- Blendingsmál sem inniheldur eiginleika úr nokkrum mismunandi tungumálum og er notað með fyrrgreindum hætti
- Sérhvert samskiptakerfi sem veitir gagnkvæman skilning
—Collins English Dictionary
Í hartnær fjóra áratugi hefur Callum Innes helgað sig þróun nýs sjónræns tungumáls, eða stafrófs, sem byggir ekki á stöfum eða táknum, heldur litum og formum.
Rætur þessa tungumáls má rekja aftur til myndríkra málverka hans frá níunda áratugnum sem urðu að heildrænu tjáningarformi eftir vinnustofudvöl listamannsins í Amsterdam árið 1987.
Á meðan dvölinni stóð nýtti Callum tímann vel og skoðaði sig um eins og hann hafði tök á. Hann heimsótti gallerí, vinnustofur listamanna og varði fjölmörgum klukkustundum í ígrundun um eigin vinnuaðferðir. Í leit að einlægni og frumleika hélt hann aftur heim til Edinborgar eftir dvölina með fræ að nýrri nálgun — djarfri, hreinskilinni, íburðarlausri — sem nærir ímyndunarafl hans enn þann dag í dag.
Síðan þá hefur Callum málað fjölmörg verk með þessum hætti og myndað úr þeim seríur, hver með sérstæða eiginleika. Þannig er undirstaða listsköpunar hans óhvikul hollusta við skynjaða, eða næstum eðlisvísa abstraktsjón, einlæg litagleði sem og áþreifanleg unun af lipurð og næmni málningar.
Callum Innes er tvímælalaust einn fremsti listmálari samtímans á sviði litanotkunar. Til þess að skapa jafn áhrifamikil verk og raun ber vitni endurnýjar hann stöðugt litapallettu sína og blandar litarefnum til að skapa nýjar litasamsetningar, nýjar upplifanir. Úr þessari skynrænu og leikandi nálgun á listsköpun verða til einstaklega fögur, minnisstæð og hrífandi verk.
Hið sívaxandi stafróf lita og forma listamannsins birtist í þessari sýningu með margslungnum hætti. Titlar verkanna eru dregnir af þeim litum sem raungerast á myndfletinum en við gerð verkanna bætir hann nokkrum lögum af olíumálningu á strigann eða léreftið og afmáir síðan hluta málningalaganna með terpentínu; aðferð sem Callum kallar ‚af-málun‘.
Á einum vegg salarins má sjá dökk en ólík verk sem bera titilinn Exposed Paintings, sótsvört og kóbaltblá, sem vísa til strangflatarabstraktsjóna brautryðjandanna Piet Mondrian, Kazimir Malevich og rússnesku konstrúktívistanna. Á veggnum gegnt þessum mætir ljóst dökku, ljóma af litamettun: blárauð, miðaldargul,skærgul, kadmíum rauð, kadmíum appelsínugul.
Fyrir miðju sýningarrýmisins hangir eitt stórt verk. Untitled Lamp Black / Magenta gnæfir yfir rýmið og veitir sýningunni heildstæðan brag. Þannig skapar það rými milli minni verka sýningarinnar en þó væri rangt að líta á minni verkin sem andstæður. Fyrir Callum er lífið sjaldan svo svart og hvítt; það snýst frekar um blæbrigði og margræðni.
Þetta er ein ástæða þess að hann titli verkin út frá efnislegum eiginleikum þeirra og vísar þannig eingöngu til staðreynda. „Ég vil að verkin tali fyrir sig sjálf,“ útskýrir hann. „Ég vil gefa öllum túlkunum lausan tauminn og ekki gefa neinn upphafspunkt eða sögu í skyn.“
Eitt lykileinkenni málverkanna er lóðrétti ásinn eða skilin sem aðgreina aðra hlið verksins frá hinni. Í seríunni, Untitled, eru skilin staðsett við miðjan myndflötinn og skipta þannig málverkinu í tvo helminga sem eru þó ekki alveg jafnir. Í seríunni Exposed Paintings stefnir ásinn til vinstri og hægri sem veitir myndrænni byggingu verkanna dýpt og íhugulan en þróttmikinn áhrifamátt.
Það segir sig sjálft að Callum hefur þróað með sér einstaka færni og tengingu við olíumálningu, sem hann hefur fullkomnað á ferli sínum, en stjórn hans á efninu nær takmörkum við skilin og með fram jaðri málverksins. Hér tjáir efnið vilja sinn til að ráða förinni. Og það er hér sem listrænt ferli listamannsins birtist áhorfandanum í allri sinni margbrotnu fegurð.
Að mála er gjörð þar sem hugsun færist í athöfn sem hvetur til fjölmargra túlkanna og litbrigði laganna kveikja óhjákvæmilega forvitni um vinnuaðferðir listamannsins. Í hvaða röð var lögunum bætt við og þau máð af? Hvernig skolar Callum þau í burtu? Af hverju þessar litablöndur en ekki aðrar?
Að sjálfsögðu eru þetta gildar spurningar — til þess að fást við verkið verðum við að skilja það á eigin forsendum — en stundum er betra að staldra við og meta málverkin eins og þau koma fyrir sjónir, gleyma hvernig þau urðu til og njóta þeirra einfaldlega sem fullskapaðra hluta, sjálfstæðra og stórbrotinna.
Góðir málarar gera verk sem tala til fólks og ýta undir innlifun. Callum Innes er góður málari, hann endurskapar sig daglega á vinnustofu sinni þar sem hann beislar og beitir orku strokunnar í leit að sameiginlegu tungumáli, í leit að dýrð.
Paul Bonaventura (f. London, 1958) er sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og framleiðandi.
Callum Innes (f. Edinborg, 1962) nam teikningu og málun í Gray’s School of Art í Aberdeen og Edinburg College of Art. Einkasýningar hans í Scottish National Gallery of Modern Art í Edinborg og Institute of Contemporary Arts í London árið 1992 ollu straumhvörfum á ferli hans og síðan þá hefur hann sýnt í fjölda safna og gallería út um allan heim. Callum er víða talinn meðal fremstu listamanna sinnar kynslóðar og var tilnefndur til Turner verðlaunanna árið 1995. Verk hans eru í eigu opinberra safna á borð við Tate í London, Centre Pompidou í París, Kunsthaus Zürich, Solomon R. Guggenheim Museum í New York, Art Gallery of Ontario í Toronto og í National Gallery of Australia í Canberra. Hann býr og starfar bæði í Edinborg og Osló.