Hönnunarverðlaun Íslands 2023

Hönnunarverðlaun Íslands 2023
Dvergsreitur tilnefndur sem staður ársins
Gróska – 9. nóvember 2023

Dvergsreitur eftir arkitektastofurnar KRADS og TRÍPÓLÍ, ásamt Landmótun er tilnefnt sem staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.

Rökstuðningur dómnefndar:
Dvergsreitur er blönduð byggð í hjarta Hafnarfjarðar sem nýverið var lokið við byggingu á. Reiturinn er höfundum sínum, verkkaupa og sveitarfélaginu, til mikils sóma og þar er þétting byggðar vel heppnuð. Í verkefninu er fallega unnið með umfang og form nærliggjandi húsa og haganlega sköpuð rými eru á milli bygginganna, þrátt fyrir mikinn þéttleika. Efnisval er nútímalegt, en vísar í nærliggjandi hús og minnkar sýnilega stærðarskölun með markvissri notkun breytileika í efnisvali. Þegar betur er að gáð er leikur að formum húsanna og jafnvel árekstur, sem gefur þeim kæruleysislegt, ef ekki hreinlega gamansamt yfirbragð.

Áður stóðu verksmiðjuhús Dvergsins á reitnum. Lögð var áhersla á að nýbyggingar á lóðinni væru hannaðar með þeim hætti að þær féllu sem best að fíngerðara útliti nærliggjandi byggðar. Markmið hönnunarinnar var að skapa eins konar þorpsanda, ramma fyrir hlýlegt mannlíf, sem bæði íbúar sem hafa eigið viðverusvæði í skjólgóðum húsagarði fjær götunum og gestir sem sækja verslun og þjónustu á jarðhæðunum, geta notið.

Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2023 fer fram í Grósku þann 9. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!

Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2023.

Lesa meira hér

RELATED LOCAL SERVICES