Fjölskylduleiðsögn á Kjarvalsstöðum

Átthagamálverkið

Sunnudaginn 23. júní kl. 14.00 verður fjölskylduleiðsögn um sýninguna Átthagamálverkið á Kjarvalsstöðum.

Ariana Katrín Katrínardóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar tekur vel á móti fjölskyldum og ferðast með þeim hringinn í kringum landið í gegnum sögu sem spannar rúma öld. Við stöldrum við og lítum firði, dali, þorp og bæi með augum fólks sem þekkir þar betur til en nokkur annar. Þetta eru átthagamálverk sem máluð eru af ást og hlýju, uppfull af tilfinningu fyrir staðháttum og minningum fyrri tíma. Svo vill til að á þessu ferðalagi erum við óvenju heppin með veður!

Í verkunum er varðveitt saga ólíkra einstaklinga, en á sýningunni eru verk eftir eitt hundrað manns hvaðanæva af landinu. Um leið segja þau sögu einsleits samfélags sem deilir áþekkum örlögum á tímum samfélagsbreytinga. Á tuttugustu öld fluttist fólk af bæjum í þéttbýli – og frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Þessir búferlaflutningar eru samofnir breytingum á sviði menntunar og menningar, verslunar og þjónustu, atvinnu- og efnahagsþróunar sem og félagslegra tengsla. Átthagamálverkin standa eftir eins og tilraun til þess að hægja á þessari framrás, stöðva tímann, fanga eitthvað áður en það verður um seinan.

Á sýningunni eru verk eftir eitt hundrað listamenn, lærða og leika.

Sýningin Átthagamálverkið verður opnuð í Listasafn Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum laugardaginn 22. júní kl. 15.00 og stendur til 6. október 2024.

Nánari upplýsingar veitir Nathalía Druzin Halldórsdóttir kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur.
Netfang: nathalia.druzin.[email protected] / sími: 8201201.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0