Elínborg Jóhannesdóttir Ostermann

 

Laugardaginn 22. apríl opnar Elínborg Jóhannesdóttir Ostermann sýninguna Draumalandið í Gallerí Fold við Rauðarárstíg.

Elínborg er fædd í Reykjavík árið 1954 og ólst þar upp. Hún lauk doktorsgráðu í lífefnafræðum við háskólann í Vínarborg 1984 og hefur búið þar alla tíð síðan og starfað við rannsóknir á krabbameinslyfjum.

Fyrstu skref Elínborgar á listabrautinni voru í barnadeild myndlistarskólans í Reykjavík undir handleiðslu Benedikts Gunnarssonar listmálara, sem vakti áhugi hennar á myndlist fram á daginn í dag.

List Elínborgar einkennist af tilraunagleði og forvitni, að kanna nýjar slóðir bæði hvað tækni og viðfangsefni varðar. Vatnslitir hafa verið í uppáhaldi frá byrjun en þó sérstaklega með íslenskt landslag sem viðfangsefni. Seinna tók við teikning, fígúratíf og abstrakt málun. Hún sýnir nú kröftug expressjónísk málverk unnin bæði í akrýl og með blandaðri tækni. Flest eru þau innblásin af heimalandinu, máluð undir hughrifum Elínborgar eftir ferðalögin “heim”, gönguferðir hennar um hálendi íslands og þær óþrjótandi náttúruperlur sem draumalandið Ísland hefur – ennþá – upp á að bjóða.

Frelsið að mála eftir sjónminni.

“Þegar ég byrja að byggja upp abstrakt verk koma oft óvænt myndbrot inn, sem tengjast náttúruupplifun. Iðandi á, rólegur lækjarbakki, jöklasýn, ólgusjór, tún og girðingar, sólarlag og uppáhalds sjónarhorn úr gönguferðum. Tvær myndir á þessari sýningu tengjast þannig uppáhalds sjónarhornum mínum á göngu um Laugarveginn, hið ótrúlega útsýni sem opnast manni þegar gengið er frá Hrafntinnuskeri í átt að Álftavatni og sjónarhorn fyrir ofan Bása, þar sem sést yfir á Mýrdalsjökul. Hér er ekki leitast eftir nákvæmri eftirmynd af ákveðnum stöðum, heldur málað eftir eftirminningunni á abstrakt máta. Náttúra Íslands hefur sterk og varanleg áhrif.”

Elínborg sótti nám við Kunstfabrik Wien 2018 – 2022 með áherslu á fígúrtífa og abstrakt málun. Í gegnum árin hefur hún auk þess sótt námskeið hjá þekktum listamönnum m.a. Joseph Zbukvic, Chien Chung Wei, Bernhard Vogel, Matthias Kroth og fleirum.

Elínborg hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum í Austurríki og haldið einkasýningar á Íslandi og í Vínarborg. Hún er meðlimur í Nordiska Akvarellsällskabet.

Sýningin stendur til 6. maí.

Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg mán-fös 10 – 18 og laugardaga 10 – 16.

RELATED LOCAL SERVICES