Jóhannes Sveinsson Kjarval

Jóhannes Sveinsson Kjarval

Jóhannes Sveinsson Kjarval, oftast ritað Jóhannes S. Kjarval, (15. október, 1885 – 13. apríl 1972) er einn frægasti listmálari Íslands.

Í landslagsmyndum sínum birti Kjarval íslenska náttúru á gjörólíkan hátt en áður hafði tíðkast og kenndi landsmönnum að horfa á landið nýjum augum og meta fegurðina sem býr í hrauninu og mosanum við fætur okkar. Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur veitt síðari kynslóðum listamanna ómældan innblástur.
Kjarval fæddist að Efri-Ey í Meðallandi. Foreldrar hans voru Sveinn Ingimundarson og kona hans Karitas Þorsteinsdóttir Sverrissen. Kjarval dvaldist fyrstu fjögur árin hjá foreldrum sínum, en ólst eftir það upp hjá hálfbróður móður sinnar á Borgarfirði eystra. Hann hét Jóhannes Jónsson og var bóndi i Geitavík en kona hans var Guðbjörg Gissurardóttir. Kjarval stundaði sjómennsku á yngri árum. Fyrstu myndlistarsýningu sína hélt hann í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík (Gúttó) árið 1908. Hafði hann þá engrar tilsagnar notið. Þann 26. september sama ár birtist einnig fyrsta greinin um Kjarval í Austra, en hana skrifaði Guðbrandur Magnússon. [1] Guðbrandur beitti sér síðan fyrir því að ungmennafélögin héldu myndlistahappadrætti til að safna í ferðasjóð fyrir Kjarval. Söfnuðust þá 800 krónur, og Hannes Hafstein ráðherra bætti síðar við 1000 krónum úr ríkissjóði. Þessir peningar urðu til þess að Kjarval gat farið utan til náms árið 1909. Hann var í fyrstu vetrarlangt í Lundúnum, bjó hjá lögregluþjóni að 40 Liverpool Street Kings Cross og stundaði þar söfn og málaði.

Kjarval fór til Kaupmannahafnar árið 1913. Hann lauk prófi frá Konunglega listaháskólanum þar í borg árið 1917. Síðar dvaldist hann í Rómaborg og víðar á Ítalíu til ársins 1920 og í París dvaldist hann árið 1928. Frá árinu 1922 starfaði svo Kjarval sem listmálari í Reykjavik.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0