Á sýningunni Lífrænar hringrásir kemur saman alþjóðlegt listafólk sem birtir áþreifanlega hrifningu sína á náttúrunni í verkum sem tengja saman listir og vísindi. Hér má sjá verk sem endurspegla djúpstæðan og flókinn skilning á náttúrunni, byggð á rannsóknum og fenginni víðtækri reynslu. Þessi þverfaglegu samvinnuverkefni og leiðangrar ýta undir og styðja við raunverulega breytingu á því hvaða augum við lítum landslagið sem við búum í eða höfum umráð yfir.
Oft á tíðum felst kveikjan að því að þoka vísindum og listum áfram í undrunarblandinni hrifningu fólks á því sem finna má í næsta nágrenni þess. Í síbreytilegu rýminu á milli lista og vísinda finnast einstök tækifæri fyrir óhefðbundna og framsækna hugsun. Slík samvinna hvetur til nýstárlegra og óvæntra tenginga og býður upp á nýja möguleika í samböndum vitrænna vera, móttækilegra lífvera, líflauss náttúruumhverfisins og náttúrufyrirbæra. Listræn túlkun hjálpar okkur að skynja og upplifa umheim nútímans og málefni hans í rauntíma, í gegnum linsu sem nær út yfir hið vitræna og hið staðreynda.
Áherslan á þá alltumlykjandi umhverfiskreppu sem nú blasir við gegnsýrir daglegt líf okkar. Stöðugur flaumur mynda og tölulegra staðreynda varpar löngum skugga yfir daglegar, vistfræðilegar venjur okkar og yfir vinnu þeirra sem vinna kerfisbundið að því að ráða í gagnkvæm tengsl lifandi og dauðra hluta, og sem búa yfir dýpri skilningi á algrími náttúrunnar, hringrásum hennar og sjálfslagfæringarferlum hennar og manngerðum endurbótum.
Lífrænar hringrásir kannar hvernig hugsun okkar hefur færst í átt að gagnvirkni – endurnýjuðu bandalagi við náttúruna. Sýningin veitir rými til að velta fyrir okkur hvert samskipti okkar við umhverfið hafa leitt okkur. Listafólkið sem á verk á sýningunni leitar að nýjum samvinnuleiðum og gagnkvæmni með því að skoða hvar við höfum verið og hvaða leiðir séu færar fram á við.
Sýningarstjórar: Kristín Scheving og Jennifer Helia DeFelice, aðstoðarsýningarstjóri: Freyja Þórsdóttir.
Styrkt af:
Uppbyggingarsjóði Suðurlands, Federal Ministry Republic of Austria, Austurríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, House of Arts – Brno, Hveragarðurinn, Hveragerði, Hveragerðisbær, Ölfus, Brno Faculty of Fine Arts, Central Saint Martins (University of the Arts) UK, Norska Sendiráðið á Íslandi.