Myrkvi gefur út plötuna Early Warning

Myrkvi og Yngvi Holm gefa út plötuna Early Warning. Hún var upphaflega hugsuð fyrir Vio, hljómsveit þar sem þeir gerðu áður garðinn frægan, og byggir á útsetningum með fyrrum meðlimum sveitarinnar: Kára Guðmundssyni og Pál Cecil Sævarssyni. Seinna var Vio nafnið lagt til hliðar og ákveðið að halda áfram undir formerkjum Myrkva.

Platan er ákveðið uppgjör við fortíðina og markar þáttaskil í tónlistarferlum kumpánanna. Týndu árin, almennt óráð og alhugur eru þeim hugleikin en hljóðheimur uppvaxtaráranna, sitt hvorum megin við aldamótin, lifnaði við gerð plötunnar. Nafn hennar, Early Warning eða Snemmbúin viðvörun, vísar í það sem kraumar undir yfirborðinu og gæti sprungið út með látum. Plötuumslögin eru málverk eftir Freydísi Halldórsdóttur.

Breiðskífan var tekin upp í stúdíói þeirra í Mosfellsdal, þar sem þeir hafa eytt drjúgum tíma síðastliðinn áratug. Tónlistin er gítardrifin, líkt og allt annað frá þeim drengjum, en hljóðheimurinn er orðinn heilsteyptari og þróaðri. Hún var fullunnin á löngum tíma er þeirra vandaðasta verk til þessa. Indístrákar sem eru vaxnir úr grasi en eru á vissan hátt ennþá sömu álfarnir.

Lög plötunnar voru samin á hinum gríðarlega krefjandi tímabili í líftíma hvers bands, þegar sæluvíman frá upphaflega árangrinum er horfin og menn þurfa að stíga aftur niður á jörðina. Meðal umfjöllunarefni plötunnar eru óvissa um framtíðina, sú vitfirring að elta jafn óáreiðanlegan draum, og yfirvofandi sundrun hins upphaflega bands. Einnig má finna lög um vináttu, gleðskap og að gleyma sér í góðum stundum, ásamt ádeilu um lífskapphlaupið og glansmynd fólks, og að sjálfsögðu íslenskt þunglyndi og ást.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0