Valdatafl Errós í sögulegu samhengi

Stefán Pálsson sagnfræðingur og sérlegur áhugamaður um teiknimyndasögur verður með samtal á sögulegum nótum innblásið af verkum Errós á sýningunni Valdatafl. Þar hefur Erró skrásett helstu róstur í heiminum á síðari hluta 20. aldar sem í sumum tilvikum sér enn ekki fyrir endann á. Stríðsherrar og harðstjórar birtast í verkum listamannsins með skrumskælingu, háði og skopstælingu en hörmungarnar sem þeim fylgja eru aldrei langt undan.

Stefán leiðir gesti í gegnum sýninguna og tengir verkin við sögulega atburði 20. aldar og í samtímanum.

Stefán Pálsson er sagnfræðingur með ansi vítt áhugasvið. Hann hefur skrifað bækur um allt frá fótbolta, bjór, tækni og vísindi, bókstafinn ð og allt þar á milli, hefur samið efni fyrir sjónvarp og útvarp og stýrt ótal spurningakeppnum, auk þess að vera eftirsóttur leiðsögumaður í sögugöngum víðsvegar í borgarlandinu. Stefán er jafnframt varaborgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.

RELATED LOCAL SERVICES