Föstudaginn 28. mars kl. 12:30 – Petra Lilja
Sunnudaginn 30. mars kl. 15 – Brynhildur Pálsdóttir og Róshildur Jónsdóttir
Í tilefni af HönnunarMars verður boðið upp á samtöl við hönnuði í tengslum við sýninguna Shop Show í Hafnarborg. Shop Show er sýning á norrænni samtímahönnun þar sem sjónum er beint að sambandi framleiðslu og neyslu með áherslu á rekjanleika og siðferðisspurningar er varða umhverfi og náttúru, en sýningin er hluti af HönnunarMars 2014.
Föstudaginn 28. mars kl. 12:30 tekur sænski vöruhönnuðurinn og sýningarstjórinn Petra Lilja þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um ShopShow. Sýningin, sem ferðast nú um Norðurlöndin, var fyrst sett upp í Form Design Center í Malmö og sá Petra Lilja um sýningarhönnun og tók þátt í uppsetningu og vali á þátttakendum. Petra Lilja tekur einnig þátt í Shop Show með eigin hönnun, stólnum Medusa chair, þar sem hún nýtir gamlar handverksaðferðir á óhefðbundinn hátt til að umbreyta hráefninu sem hún vinnur með á umhverfisvænan máta.
Sunnudaginn 30. mars kl. 15 verður boðið upp á samtal við hönnuðina Brynhildi Pálsdóttur, einn af eigendum og hönnuðum Víkur Prjónsdóttur, og Róshildi Jónsdóttur, sem starfar undir nafninu Hugdetta ásamt Snæbirni Stefánssyni vöruhönnuði. Brynhildur segir frá starfsemi Víkur Prjónsdóttur sem sérhæfir sig í að hanna nýtískulegar ullarvörur sem framleiddar eru hérlendis úr íslenskri ull. Róshildur Jónsdóttir er einkum þekkt fyrir hönnun og vöruþróun á leikföngunum Skepnusköpun úr fiskibeinum, sem urðu til út frá rannsókn hennar á nýtingu íslenskra dýraafurða fyrr á öldum. Róshildur og Vík Prjónsdóttir eru á meðal þátttakenda í Shop Show, en á sýningunni eru hönnunarvörur eftir framúrskarandi hönnuði sem setja nú mark sitt á norræna samtímahönnun.
Viðburðirnir eru hluti af dagskrá HönnunarMars 2014.
Nánari upplýsingar:
Hildisif Hermannsdóttir, Hafnarborg, s. 585-5790
Brynhildur Pálsdóttir, s. 849-9764
Róshildur Jónsdóttir, s. 694-7020