Síldarvinnslan – hugsjón sem rættist

Á síðari hluta 19. aldar hófu Norðmenn umfangsmiklar síldveiðar á Austfjörðum og heimamenn kynntust „silfri hafsins“ fyrir alvöru. Það fylgdi mikil spenna síldveiðunum og söltuð síld var seld úr landi háu verði. Um líkt leyti og síldveiðar hófust á Austfjörðum í stórum stíl var almennt byrjað að vinna saltfisk á fjörðunum sem síðan var einkum seldur á mörkuðum í löndum í sunnanverðri  Evrópu. Síldveiðarnar og saltfiskverkunin gjörbreyttu viðhorfi Austfirðinga til sjávarútvegs og sífellt fleiri sannfærðust um að unnt væri að líta á sjávarútveg sem sjálfstæða atvinnugrein.
sildarvinnsaln icelandic times Aukin áhersla á sjávarútveg breytti austfirsku samfélagi og þéttbýlismyndun hófst; við firðina tóku að vaxa upp fiskiþorp sem kúrðu á milli hárra fjalla. Fólkið í þorpunum byggði afkomu sína á veiðum og vinnslu og gjarnan var lítilsháttar búskapur stundaður til hliðar. Saga þorpanna einkennist í talsverðum mæli af sveiflum – stundum hefur fiskast vel og stundum ekki, verð á sjávarafurðum hefur verið breytilegt og þróun veiða og vinnslu hefur haft áhrif á samfélögin. Mestu sveiflurnar hafa verið tengdar síldinni: Þegar hún hefur veiðst við Austfirði hafa ríkt uppgangstímar en svo hefur hún horfið af miðunum nánast fyrirvaralaust. „Síldin kemur og síldin fer „ er orðatiltæki á fjörðunum.

Neskaupstaður verður öflugur sjávarútvegsstaður
Við Norðfjörð tók að myndast þorp undir lok 19. aldar. Þaðan var hagstætt að gera út til fiskjar, bátum fjölgaði og mikinn mannafla þurfti til að verka aflann sem barst að landi. Árið 1929 voru íbúarnir orðnir um 1100 talsins og þá fékk þorpið kaupstaðarréttindi og þar með varð það sjálfstætt lögsagnarumdæmi sem fékk nafnið Neskaupstaður. Segja má að Neskaupstaður hafi verið öflugasti sjávarútvegsstaðurinn á Austfjörðum frá þessum tíma og hafa sveiflur í greininni svo sannarlega sett sitt mark á sögu hans.
Árið 1952 hófst nýtt síldveiðitímabil á Austfjörðum og fóru síldveiðarnar stigvaxandi næstu árin þannig að brátt var farið að tala um síldarævintýri. Í Neskaupstað var farið að salta síld í upphafi þessa tímabils en til þess að bærinn gæti talist alvöru síldarbær varð þar að rísa verksmiðja til framleiðslu á lýsi og mjöli úr síld. Árið 1957 var ákveðið að stofna hlutafélag um byggingu slíkrar verksmiðju og fékk það nafnið Síldarvinnslan. Eigendur Síldarvinnslunnar voru nokkrir en stærsta hlutinn, 60%, átti Samvinnufélag útgerðarmanna en það var félagsskapur smærri útvegsmanna í bænum. Hugsjón þeirra var sú að Síldarvinnslan myndi vaxa og dafna og verða leiðandi fyrirtæki á sviði sjávarútvegs á landinu.
Mjöl- og lýsisverksmiðja Síldarvinnslunnar reis og tók til starfa sumarið 1958. Það sumar tók hún á móti 4000 tonnum af síld til vinnslu en næstu árin jókst síldaraflinn gríðarlega og árið 1966 bárust rúmlega 107.000 tonn til verksmiðjunnar. Það var starfsemi þessarar verksmiðju sem lagði grunninn að því öfluga fyrirtæki sem Síldarvinnslan varð.

Starfsemin eflist
Eigendur Síldarvinnslunnar létu sér ekki nægja að reka einungis mjöl- og lýsisverksmiðju. Árið 1965 var hafin útgerð tveggja síldarbáta á vegum fyrirtækisins og tveimur árum síðar voru bátarnir orðnir fjórir. Sama ár hóf Síldarvinnslan söltun síldar og eins festi fyrirtækið kaup á hraðfrystihúsi sem Samvinnufélag útgerðarmanna hafði átt. Starfsemin varð sífellt fjölbreyttari en hún byggði engu að síður að miklu leyti á síldveiðum og vinnslu síldar. En að því kom að síldin hvarf eins og hún hafði áður gert og þá þurfti að laga fyrirtækið að nýjum aðstæðum. Aukin áhersla var lögð á botnfiskveiðar og eins fóru veiðar á loðnu að skipta miklu máli. Fyrirtækið hóf skuttogaraútgerð og útgerð stórra loðnuskipa en síldarbátarnir voru seldir. Sífellt meiri botnfiskafli barst að landi sem ýmist var flakaður og frystur eða saltaður og mjöl- og lýsisverksmiðjan tók að vinna loðnu í stað síldar.

Áfallið mikla
Hinn 20. desember árið 1974 varð Neskaupstaður og Síldarvinnslan fyrir miklu áfalli. Tvö snjóflóð féllu þennan dag og eyðilögðu mjöl- og lýsisverksmiðjuna og stórskemmdu frystihúsið ásamt fleiri mannvirkjum. Alls fórust tólf manns í þessum hamförum , þar af sjö starfsmenn Síldarvinnslunnar.
Uppbygging hófst í reynd strax að viðamiklum björgunaraðgerðum loknum. Í fyrstu var allur bolfiskur sem barst að landi saltaður og starfsemi niðurlagningarverksmiðju hófst fljótlega. Frystihúsið var lagfært og ný mjöl- og lýsisverksmiðja var reist við nýja höfn fyrir botni Norðfjarðar. Í febrúarmánuði 1976 tók nýja mjöl- og lýsisverksmiðjan til starfa og þá má segja að uppbyggingarstarfinu eftir snjóflóðin hafi verið lokið.

Leiðandi fyrirtæki á sviði uppsjávarveiða og vinnslu
Um þessar mundir er Síldarvinnslan eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi og leiðandi á sviði veiða og vinnslu á uppsjávarfiskum. Fyirtækið rekur fullkomið fiskiðjuver í Neskaupstað og mjöl- og lýsisverksmiðjur á þremur stöðum, í Neskaupstað, Helguvík og á Seyðisfirði. Þá gerir fyrirtækið út fimm skip; þrjú uppsjávarveiðiskip, einn frystitogara og einn ísfisktogara. Eins á það hlutdeild í öðrum félögum sem gera út fiskiskip og framleiða úr fiskafurðum.
Saga Neskaupstaðar og Síldarvinnslunnar er samofin heild og það er býsna fróðlegt fyrir fólk að kynna sér hana. Þegar sagan er skoðuð sést hvernig litla sjávarþorpið sem tók að myndast undir lok 19. aldar hefur þróast og breyst í myndarlegan sjávarútvegsbæ sem einkennist af tæknivæddum fiskveiðum og fiskvinnslu. Frá stofnun má segja að Síldarvinnslan hafi verið afar áhrifarík hvaða þessa þróun varðar og því er hægt með fullum rökum að halda því fram að hugsjónin á bak við stofnun félagsins hafi ræst fullkomlega.
Fyrir gesti sem heimsækja Neskaupstað er margt að sjá sem tengist hinni sögulegu þróun byggðarlagsins og fyrir þá er ómetanlegt að heimsækja Safnahúsið þar sem þeir geta meðal annars skoðað athyglisvert sjávarútvegssafn.

Texti:; Smári Gestsson