Bæjaryfirvöld í Garðabæ telja sig nú vera komin með endanlega lausn á nýjum miðbæ og hafa sett nýtt deiliskipulag í kynningu. Tillagan, sem hefur verið lengi í þróun, er unnin í samstarfi við fasteigna- og þróunarfélagið Klasa hf. og gerir meðal annars ráð fyrir iðandi mannlífi, fjölnota torgi, fallegum útsýnisíbúðum og fjölbreyttum verslunum. „Með tilkomu hins nýja miðbæjar eykst þjónusta við íbúa Garðabæjar. Það koma fleiri verslanir og bílastæði á svæðið, við fáum torg sem gefur okkur möguleika á því að vera með ýmsar sameiginlegar uppákomur. Miðbærinn fær einnig á sig menningarlegt yfirbragð með Hönnunarsafni Íslands sem fer í sérhús upp á 2500 fm. Í heildina mun þetta efla bæjarbraginn,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Undir þetta tekur verkefna- og þróunarstjóri Klasa hf., Halldór Eyjólfsson, en fyrirtækið hefur undanfarin ár unnið að tillögum um uppbyggingu á miðbænum í nánu samstarfi við bæjaryfirvöld. „Garðabær er það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem er í hvað mestum vexti. Þar eru góðir landkostir og ónýtt byggingarland sem hvortveggja styðja mikilvægi þess að byggja þar upp sterkan miðbæ,“ segir Halldór.

Samstarf Garðabæjar og þróunarfélagsins Klasa

Það var árið 2002 sem umræður um nýjan miðbæ hófust í Garðabæ og síðan þá hefur mikil þróunarvinna farið fram. Blásið var til hugmyndasamkeppni og eins var kallað eftir hugmyndum frá þróunaraðilum. Út frá því ákváðu bæjaryfirvöld árið 2004 að ganga til samstarfs við Klasa um uppbyggingu á miðbænum. „Á íbúaþingi sem haldið var árið 2002 komu fram mjög sterkar óskir frá íbúum í þá átt að bæta þjónustu í miðbænum og eins var kvartað yfir því að miðbærinn væri einfaldlega ekki nógu fallegur,“ segir Gunnar. Þrátt fyrir að þróunarferlið hafi tekið langan tíma segir hann að minni hafi tíminn varla mátt vera þar sem verkefnið sé afar stórt og
verði að vinnast í sátt við marga. Vel sé vandað til verka og mikill metnaður lagður í verkefnið. „Það krefst tíma að hlusta á íbúa og hagsmunaaðilia og taka tillit til ábendinga þeirra auk þess sem við viljum einnig hafa sátt innan pólitíska geirans og þar höfum við lagt okkur fram um að hlusta á sjónarmið minnihlutans. Hugmyndirnar hafa því tekið miklum breytingum á þessum tíma, þróast og batnað.“

Skjólsælt torg og sérverslanir

Fram til þessa hefur miðbær Garðabæjar verið við Garðatorg og þar mun einnig hjarta hins nýja miðbæjar slá. „Kostir þessa svæðis eru engan vegin fullnýttir í dag. Þrátt fyrir að þarna sé ýmis opinber þjónusta, verslanir og göngugata þá finnur maður ekki fyrir sérlega sterkum bæjarbrag,“ segir Halldór en ein megin nálgun þeirra á verkefninu er einmitt að mynda slíkan bæjarbrag. Tillögur Klasa gera í stuttu máli ráð fyrir blandaðri byggð í nýjum miðbæ á Garðatorgi. Þar mun öflug grunnþjónusta, blómleg verslun og fjölbreytt framboð íbúða skapa sterkan bæjarbrag og auka lífsgæði allra Garðbæinga. Tillögurnar taka mið af því sem fyrir er á svæðinu en hluti núverandi bygginga hverfa. Þannig mun t.d. húsnæðið sem nú hýsir Hagkaup verða rifið sem og bensínstöðin en hvorutveggja fær nýjan stað í útjarði miðbæjarins við Sveinatungu. Þessar breytingar gefa svæðinu betri heildarsvip og meiri sveigjanleika til heilstæðrar uppbyggingar. Skjólsælt fjölnota torg mun setja mikinn svip á miðbæinn en í kringum það verður byggð bogadreginn verslunarkjarni sem verður um 5.000 fm. Verslunarrýmin verða í eigu Klasa sem mun leigja þau út til valinna rekstraraðila. Norðan megin við torgið er gert ráð fyrir kaffi- og veitingahúsum ásamt sérvöruverslunum með matvöru en sunnan torgsins verður heilsurækt og ýmsar sérverslanir með fatnað og gjafavöru. „Ég er mjög sáttur við það að Klasi skuli eiga og reka verslunarrýmið því þeir eru ekki bara sérfræðingar í arkitektúr og byggingum heldur líka í rekstri og eru því færastir í því að setja saman réttar verslanir og tryggja þannig bæði fjölbreytileika og gæði, þannig að miðbærinn gangi upp rekstarlega séð,“ segir Gunnar.

Blönduð byggð – aukin lífsgæði

Gunnar segist ekki síður ánægður með það að fólki gefist líka kostur á því að búa í miðbænum því tillögur Klasa gera ráð fyrir 140-150 íbúðum til viðbótar þeim sem fyrir eru á svæðinu. Íbúðirnar verða á þremur stöðum; í tveimur fjölbýlishúsum við Kirkjulund, í fjölbýlishúsi við Hrísmóa og eins verða íbúðir á tveimur til fjórum hæðum fyrir ofan verslunarrýmin við torgið. Að sögn Halldórs verða íbúðirnar ekki eins kassalaga og Íslendingar hafa hingað til átt að venjast, ekki síst í byggingunni við Hrísmóa, sem óneitanlega ber ákveðinn Gaudisvip með sér. „Við erum ekki í nokkrum vafa um að það verði mikill áhugi á þessum íbúðum því hér eru menn í göngufæri við alla grunnþjónustu á borð við skóla, íþróttasvæði og verslun. Miðbær Garðabæjar stendur líka nokkuð hátt svo það verður afar fallegt útsýni úr flestum þessara íbúða,“ segir Halldór. Hann segir að vel verði hugað að samspili rekstraraðila og íbúa og hagsmuna beggja gætt. Þannig sjái hann t.d. ekki fyrir sér bar með næturopnun á svæðinu. „Það er stór hópur fólks sem vill hafa líf í kringum sig og búa í nálægð við það en vill að sjálfsögðu geta sofið á nóttunni. Þarna fær fólk það besta úr báðu, sem sagt blandaða byggð með miðbæjarstemmningu en líka frið.“

Aðgengileg tillaga

Markmiðið með deiliskipulagstillögunni, sem unnin er af THG arkitektum og er nú í kynningu, er að skapa góða umgjörð um hjarta bæjarins. Tillagan einkennist af þeim fjölbreytileika sem miðbær þarf á að halda til þess að verða eftirsóttur vettvangur mannamóta og menningarlífs og það telja þeir Gunnar og Halldór að hafi tekist. Áhugasamir geta kynnt sér tillöguna betur á heimasíðu Garðabæjar www.gardabaer. is og Klasa www.klasihf.is, en frestur til að skila inn athugasemdum er til 7. nóvember. Tillagan hefur þá sérstöðu að forhönnun er komin langt á veg sem hjálpar íbúum enn frekar að mynda sér skoðun á hinum nýja miðbæ. Þá verður tillagan einnig kynnt á almennum fundi í Flataskóla laugardaginn 13. október kl. 11. Og ef að áætlanir ganga eftir mun hinn nýi miðbær verða tilbúinn um jólaleytið 2009. 

Tillögur Klasa í stuttu máli: Nýr miðbær í Garðabæ

Lifandi miðbær – sterkur bæjarbragur

Gert er ráð fyrir fallegu torgi í miðjum bænum þar sem hægt verður að halda ýmsa viðburði eins og t.d. tónleika og markaði. Þar er einnig gert ráð fyrir veitingasölu og leikaðstöðu fyrir börn. Gott aðgengi verður að miðbænum og alls er gert ráð ráð fyrir um 730 bílastæðum ásvæðinu, m.a. í bílakjallara undir torginu. Áhersla er lögð á gönguleiðir og góð tengsl við helstu útivistarsvæði bæjarins en auk þess er hægt að sækja flesta þjónustu á borð við skóla, leikskóla, kirkju og stórmarkað fótgangandi úr hverfinu. Hönnunarsafn Íslands mun rísa við torgið og gefa miðbænum menningarlegan blæ. Það verður allt að 2500 fm að stærð og er hugmyndasamkeppni að fara í gang á vegum Arkitektarfélags Íslands varðandi hönnun þess.

Blómleg verslun og þjónusta

Miðbærinn verður hjarta bæjarins þar sem mannlíf vex og dafnar. Nýtt verslunarhúsnæði verður um 5.000 fm og þar verða fjölbreyttar sérverslanir með gjafavöru og fatnað, kaffihús og veitingastaðir. Einnig er gert ráð fyrir líkamsræktarstöð á svæðinu.

Fjölbreytt framboð íbúða

Byggðar verða 140-150 íbúðir á svæðinu. Þær verða mismunandi að stærð og gerð og henta því þörfum flestra sem áhuga hafa á að búa í lifandi miðbæ. Íbúðirnar eru margar hverjar með afar góðu útsýni til sjávar, svölum og sumar jafnvel með þakgörðum. Íbúðabyggðin mun glæða miðbæinn skemmtilegu mannlífi.