Suðurstrandarvegur verður hrein og klár bylting fyrir Grindavík

– Ferðaþjónustan í stöðugum vexti

Grindavík hefur verið í stöðugum vexti undanfarið með um 20% íbúafjölgun síðastliðin tíu ár, samhliða þessu hefur ferðaþjónusta aukist með tilkomu nýrra fyrirtækja á borð við Fjórhjólaferðir, Eldfjallaferðir, Artic Horses, Hjólreiðaferðir Önnu og Sólveigar, Grindavíkurferðir og fleira. Þorsteinn Gunnarsson, upplýsinga- og þróunarfulltrúi Grindavíkurbæjar segist vera þeirrar skoðunar að endurbyggður og malbikaður Suðurstrandarvegur verði hrein og klár bylting fyrir Grindavík hvað varðar atvinnulíf, mannlíf og einnig ferðaþjónustu.
  Suðurstrandarvegurinn liggur á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur og er tæplega sextíu kílómetra langur. Gamli vegurinn þótti afar seinfarinn, jafnvel við kjörskilyrði, en hann var mjór og hæðóttur malarvegur sem lokaðist oft að vetri til. Þorsteinn segist ekki efast um að umferðin verði mikil á nýja veginum. „Með lagningu slitlags á fyrsta áfanga Suðurstrandarvegar, frá Grindavík að Ísólfsskála, jókst umferð strax til mikilla muna og á eftir að margfaldast þegar vegurinn verður klár, sem verður vonandi í haust,“ segir Þorsteinn.
 
Eldvorp-Grindavik (3)Þorsteinn telur að nýji vegurinn verði ferðaþjónustu í Grindavík umtalsvert til bóta „Það leynast náttúruperlur víða á svæðinu og betri samgöngur munu opna ýmsa nýja möguleika í ferðaþjónustu. Ferðamenn kjósa frekar að fara beint frá Keflavíkurvelli til Grindavíkur og svo meðfram ströndinni með því að fara Suðurstrandarveginn. Þetta er falleg akstursleið og söguleg verðmæti allt í kring,“ segir Þorsteinn.
 
Þorsteinn segir að horft hafi verið til þessarar væntu aukningar í straumi ferðamanna þegar ráðist var í framkvæmd á nýju tjaldsvæði í Grindavík fyrir skemmstu. „Gamla tjaldsvæðið okkar var ansi lítið og þrengdi enn frekar að því þegar nýtt fjölnota íþróttahús var tekið í gagnið í haust. Því var ákveðið að stíga stórt skref og byggja nýtt tjaldsvæði,“ segir Þorsteinn. Nýja tjaldsvæðið er um 13.500 fermetrar og eru þar stæði fyrir 42 húsbíla, fellihýsi og tjaldvagna og yfir 30 tjöld. Tjaldsvæðið var opnað rétt fyrir bæjarhátíðina Sjóarann síkáta sem fór fram fyrir skömmu og segir Þorsteinn það hafa mælst ákaflega vel fyrir. „Aðstaða er öll til fyrirmyndar og þeir sem til þekkja segja þetta glæsilegasta tjaldsvæði landsins,“ segir Þorsteinn.
 
DSC_2468zzSaltfiskurinn dregur að
  Engin staður á landinu fær meiri flaum ferðamanna en Grindavík, en Bláa lónið er í lögsögu Grindavíkur. Þorsteinn segir að Saltfisksetur Íslands sem opnað var 2002 hafi verið helsta aðdráttarafl Grindavíkur undanfarin ár. „Mikill metnaður var lagður í byggingu Saltfisksetursins sem er stórglæsilegt. Grindvíkingar hafa löngum verið drjúgir við saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á salfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessum útgerðarbæ. Sýningin í Saltfisksetri Íslands er því afar forvitnileg fyrir íslenska og erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna,“ segir Þorsteinn. „Hér er af mörgu að taka en persónulega finnst mér Eldvörpin afar heillandi staður en þetta er gígaröð norðvestur af Grindavík. Eldey er hér skammt utan með stærstu súlubyggð heims, höfnin í Grindavík er skemmtileg og dregur að sér ferðamenn, fjallið Þorbjörn er skemmtilegt til útivisar, Gunnuhver er rétt austan við Reykjanesvita en hverinn er á einu af mörgum jarðhitasvæðum á Reykjanesi, ýmsar gönguleiðir eru á svæðinu, Brimketill er skemmtileg grjótarmyndum í sjávarborðinu og þá bendi ég sérstaklega á Selatanga sem er forn verstöð en þarna sjást rústir verbúða og fiskbyrgja. Síðast var róið þaðan 1884. Krísuvíkurberg er stórbrotinn útsýnisstaður, svo eitthvað sé nefnt. Sem golfari mæli ég svo eindregið með golfvellinum okkar sem er virkilega góður og hér er einnig góð sundlaug með rennibraut og leiksvæði fyrir krakkana,“ segir Þorsteinn.

Austurengjahver-2008-21 (12)Jarðfræðileg sérstaða
Ný  fyrirtæki hafa verið að spretta upp í ferðaþjónustugeiranum í Grindavík á borð við ferðaþjónustufyrirtækið Eldfjallaferðir, en Eldfjallaferðir skipuleggja ferðir með leiðsögn um Reykjanesskagann þar sem kynnt er jarðfræði, jarðsaga, menning og minjar. Þar er af nógu að taka enda er býr Reykjanesið yfir þeirri sérstöðu að úthafshryggurinn rís út í sjó í Eldey og gengur síðan áfram eftir Reykjanesskaganum, með eldstöðvum, gígum, sprungum, hraunum og hellum, en á Reykjanesskaganum má finna yfir 100 eldstöðvar og 200 hella.        

 Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Horses hefur boðið upp á útreiðatúra á íslenska hestinum um Reykjanesskagann. Þar er farið um sögulegar slóðir til að mynda meðfram ströndinni þar sem skipsflök, fjölskrúðugt fuglalíf og saga er nánst við hvert fótmál. Einnig er boðið upp á ferðir til Krýsuvíkur og fleiri staða.
 „Afþreyingarmöguleikar eru því miklir og þessi fyrirtæki verið að byggja sig upp undanfarin ár og náð góðri fótfestu,“ segir Þorsteinn.

_S1O1096Samheldið samfélag
Það virðist vera nóg að gera á Grindavík því fyrir skemmstu var haldin bæjarhátíðin Sjóarinn síkáti sem Þorsteinn segir að hafi tekist virkilega vel og um fimmtán þúsund manns komið í bæinn í blíðviðri þá helgina. „ Svo setja Íþróttirnir alltaf mikinn svip á bæinn og á dögunum var sett aðsóknarmet á Grindavíkurvelli þegar Keflavík kom í heimsókn í úrvalsdeild karla. Þá komu 1500 manns á völlinn eða um helmingur bæjarbúa. Leikurinn var einnig styrktarhátíð fyrir ungan Grindvíking, Frank Bergmann Brynjarsson, sem hefur glímt við illvígan sjúkdóm. Aðsóknin og hversu vel tókst til sýnir hversu bæjarbúar standa þétt saman þegar reynir á,“ segir Þorsteinn.

 Í vor var haldin menningarvikan Menning er mannsins gaman í fyrsta sinn og segir Þorsteinn hana hafa tekist frábærlega. Þá standa Grindavíkurbær og Saltfisksetrið fyrir viðburða- og menningardagskrá allt árið. Um verslunarmannahelgina verður svo gönguhátíð í landi Grindavíkur, en þá verður boðið upp á fjórar þriggja til sex tíma göngur með leiðsögn frá föstudegi til mánudags ásamt viðburðum í Saltfisksetrinu Fyrst og fremst útgerðarbær Þorsteinn segir að Grindavík hafi sloppið nokkuð vel við áföll fram að þessu og nefnir því til stuðnings að samkvæmt síðustu tölum eru um þrjú prósent Grindvíkinga á atvinnuleysisskrá.
 
Fors’u Dagskr‡Grindavík er fyrst og fremst útgerðarbær.

Hér eru gríðarlega öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem eru hornsteinninn í okkar samfélagi og talið að um helmingur bæjarbúa hafi lifibrauð af sjávarútvegi á einn eða annan hátt og því mikilvægt að standa vörð um þessa undirstöðuatvinnugrein okkar,“ segir Þorsteinn. Nokkur fyrirtæki hafa svo sprottið upp úr þessum sjávarútvegs jarðvegi undanfarin misseri og má þar nefna Einhamar og Íslandsbleikju sem er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum. Þá flutti Glerborg til Grindavíkur í vor og hefur bætt við sig mannskap í vinnu og svo eru sprotafyrirtæki eins og líkkistuframleiðsla og þörungaþurrkun komin af stað.

Margt spennandi framundan
Þorsteinn segir Grindvíkinga vera bjartsýna á framtíðina og láti engan bilbug á sér finna. „Þetta er gæðasamfélag þar sem ýmislegt spennandi er framundan. Hér er verið að byggja nýja grunnskóla og þá tekur menntaskóli væntanlega til starfa hér haustið 2010 ásamt Fisktækniskóla. Grindavík er fjölskyldubær þar sem fjölskyldugildin eru í hávegum höfð. Hér eru nú þegar ókeypis æfingagjöld fyrir grunnskólabörn og í haust verður tónlistarskólinn gjaldfrjáls,“ segir Þorsteinn.