Sveitarfélagið Garður býður upp á eitt fjölbreyttasta fuglalíf landsins

– byggðasafn og einn skemmtilegasti golfvöllur landsins

Þann 15. júní 2008 fagnaði Sveitarfélagið Garður 100 ára afmæli en bærinn samanstendur af bæjarkjarna og dreifðari byggð þar sem fólk er jafnvel með hesta í bakgarðinum svo samfélagið er afar sérstakt og á sér fáar hliðstæður hérlendis. Upp úr síðustu aldarmótum var Garður stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum sem ekki síst byggðist á góðu útræði.

Verið er að byggja upp ferðaþjónustu í sveitarfélaginu hægt og bítandi og m.a. hefur sjónum verið beint að mjög fjölbreyttu fuglalífi sem er í Garðinum, m.a. miklu kríu- og æðarvarpi og stefnt er að því að svæðið verði paradís fyrir fuglaáhugamenn, m.a. með því að byggja upp aðstöðu fyrir fuglaskoðunarmenn í samstarfi við Ferðamálaráð. Þeir sem ekki þekkja fuglana geta kynnt sér þá á veglegum skiltum sem sett hafa verið upp við bílastæði gamla vitans.

_S1O1096Einnig er sjónum í vaxandi mæli beint að náttúrunni í sjónum á þessu svæði, enda er svæðið mjög vinsælt af köfurum og eins hafa vinsældir sjóstangaveiði á þessu svæði mjög farið vaxandi, enda aflinn oft mjög fjölbreyttur og margar fisktegundir sem jafnvel eru ekki mjög algengar hér við land og frekar á djúpslóð, eins og t.d. makríll. Garðssjór er vinsæll til hvalaskoðunar og landselir sitja tíðum uppi á Skagaflös eða Lambarifi og útselir sjást stundum, oftast á sundi. Höfrungategundin hnýðingur er algengastur þarna og er oft mikið fjör í dýrunum. Einnig sjást hrefnur reglulega og hnúfubakar eru alltíðir yfir sumartímann,

sérstaklega í júlímánuði. Garðskagi er einstök náttúruperla þar sem hægt er að njóta útsýnis, sækja sér orku frá ólgandi brimi eða gæða sér á rjúkandi kaffi og meðlæti. Á svæðinu er góð aðstaða fyrir tjaldbúa, tjaldvagna og húsbíla og snyrting, rennandi vatn og rafmagn er til staðar. Við Garðskaga má horfa á sólsetrið við Snæfellsjökul og sjá sólina gylla allan Snæfellsnesfjallgarðinn, Akrafjallið,

Esjuna og Reykjanesfjallgarðinn en sólseturshátíð sem haldin er í júnímánuði byggir mjög á því. Gamli vitinn á Garðskaga var reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki eða varða frá árinu 1847 og síðar með ljóskeri frá 1884. Gamli vitinn var notaður sem fuglaathugunarstöð á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands 1962-1978. Fjölmargir leggja leið sína að Garðskaga til þess að njóta útsýnisins sem oft er stórfenglegt og hefur gamli vitinn veitt innblástur og verið í aðalhlutverki í listsköpun, t.d. í myndlist og ljósmyndun.

Nýi vitinn var byggður 1944 og er hann eitt af helstu kennimerkjum Garðs í dag. Vitinn stendur á Garðskagatúni og er hann opinn almenningi. Útsýni frá svölum vitans er stórfenglegt og sést þaðan vítt og breitt til allra átta en vitavarðahúsið og vitarnir tveir spila einnig stórt hlutverk í dagskrá Sólseturshátíðarinnar sem haldin er í júnímánuði ár hvert.

Göngustígar og golfvöllur

Ásmundur Friðriksson sveitarstjóri í Garði segir að unnið sé að gerð göngustíga meðfram sjónum og hugmyndin er að hann muni í nánustu framtíð tengjast byggðinni í nágrannasveitarfélaginu Reykjanesbæ. ,,Einn vinsælasti, erfiðasti og skemmtilegasti golfvöllur landsins er hér, Leiruvöllur. Þetta er 18 holu völlur við sjávarsíðuna þar sem þarf að slá yfir sjó á þriðju holu vallarins, en það hefur reynst mörgum erfitt.

Við erum í góðu samstarfi við nágrannasveitarfélögin í ferðaþjónustu en fyrir skömmu var opnuð Markaðsstofa Suðurnesja sem er til húsa í Reykjanesbæ en öll sveitarfélögin á Suðurnesjum standa að. Tilgangur hennar er að innleiða faglegt og samræmt markaðsstarf meðal ferðaþjónustuaðila á Suðurnesjum, byggja upp öflugan gagnabanka um hvaðeina er lýtur að þjónustu við ferðamenn og markaðssetja Suðurnes og Reykjanesið fyrir ferðamönnum.

Markaðsstofan mun einnig hafa með höndum samskipti við opinbera aðila eins og Ferðamálastofu um markaðssetningu svæðisins erlendis og innanlands. Við vonum að starfsemi Markaðsstofunnar verði vakin betri athygli á því hversu skemmtilegur kostur Reykjanesið er fyrir ferðamenn en ég tel tvímælalaust að kostir Reykjanesins sé eitt besta varðveitta leyndarmálið í ferðaþjónustunni á Íslandi í dag.

Reykjanesið hefur verið vanmetið og kannski höfum við Suðurnesjamenn ekki áttað okkur nægilega vel á því hvað náttúran í kringum okkur er mikil perla. Í 20 mínútna akstri um Suðurnesin er hægt að bjóða ferðamönnum að sjá allt það besta í náttúruskoðun í dag, m.a. ótrúlega falleg brennisteinsfjöll og hér eru söfn eins og Byggðasafnið í Garði,

Saltfisksetrið í Grindavík og Botndýrarannsóknarstöðin í Sandgerði þar sem flokkuð eru botndýr af Íslandsmiðum. Botndýrarannsóknarstöðin í Sandgerði er í sama húsi og Fræðasetrið. Þar er unnin rannsóknarvinna sem er einstök í heiminum. Rannsóknarskip fara um Íslandsmið undir stjórn vísindamanna og taka sýni fyrir Rannsóknarstöðina á botndýrum, sem er grunnflokkuð.Vísindamenn koma víða að úr heiminum til að fá að vinna með sýnin í Rannsóknarstöðinni í Sandgerði og nú þegar hafa fundist nýjar tegundir fyrir heiminn. Í Fræðasetrinu í Sandgerði er að finna safn sýna frá Rannsóknarstöðinni,” segir Ásmundur Friðriksson sveitarstjóri.

_S1O1069

Byggðasafn Garðskaga

Byggðasafnið er staðsett við Garðskagavita. Á tíu ára afmæli safnsins 2005 var tekið í notkun nýtt 700 fermetra safnahús með kaffiteríu á efri hæð. Margt merkilegra muna úr byggðasögu Garðsins er á safninu. Má þar nefna yfir 100 ára trérennibekk, heimasmíðað ferðaorgel sem jafnframt er yfir 100 ára, sexæring með Engeyjarlagi sem byggður var árið 1887 og marga aðra merkilega muni.

Það sem gerir safnið á Garðskaga einstakt er vélasafn Guðna Ingimundarsonar. Yfir 60 vélar af ýmsum gerðum eru þar sem nær allar eru gangfærar. Sú elsta er Sandia glóðarhausvél frá árinu 1920. Safnið hefur til sýnis ýmsa muni sem tengdust búskaparháttum til sjós og lands, elstu munirnir eru orðnir yfir eitt hundrað ára gamlir. Stór hluti af safninu eru sjóminjar, það er ýmsir hlutir sem notaðir voru við fiskveiðar og til verkunnar á fiski í landi. Á safninu er áttæringur með Sunnlensku lagi smíðaður árið 1913,

hefðbundinn trillubátur frá árinu 1932 með upphaflegu vélinni, níu metra langur bátur með Engeyjarlagi smíðaður árið 1887, þá eru fjórir aðrir bátar á safninu. Ásmundur Friðriksson sveitarstjóri segir að á efri hæð safnsins sé veitingasalur sem tekur 50 manns í sæti, þar er mjög gott útsýni yfir Faxaflóann, Snæfellsjökul, fjallahringinn umhverfis flóann og sólarlagið sem er einstakt á Garðskaga.

_S1O1183

Flösin

Veitinga- og kaffihúsið Flösin er til húsa í Byggðasafninu á Garðskaga. Í húsinu er aðstaða fyrir ýmsar uppákomur og listsýningar og hafa fjölmargir listamenn og handverksfólk sýnt verk sín á safninu. Þá er veitingasalurinn kjörinn fyrir veislur og fundahöld. Sett hefur verið upp mynd með örnefnum á svölum hússins en þar er hægt að horfa á fallegt sólarlagið gylla sjóndeildarhringinn.

Öflugur sjónauki er á svölunum þar sem skoða má sjófugla að veiðum og sjá hvalina stökkva. Útskálaprestssetrið er eitt elsta prestssetur landsins. Húsið var byggt árið 1889, virðulegt og glæsilegt, en hefur á síðari árum og áratugum legið undir skemmdum. Hér er um að ræða eitt mesta höfuðból af prestssetrum þessa lands og hornsteinn í sögu Suðurnesja.

Í skráðum heimildum er Útskála fyrst getið um 1200, í skrá Páls biskups Jónssonar um kirkjur á Íslandi. Prestskyld kirkja var þá á Útskálum og bendir staðsetning prestssetursins til að á þessum tíma hafi ysti hluti nessins verið þéttbýlasti hluti þess. Útskálasókn náði þá yfir mun stærra svæði en síðar varð og átti fólk sem bjó á vestanverðum Reykjanesskaga kirkjusókn að Útskálum allt til ársins 1370, en þá var kirkja reist á Hvalsnesi.

Útskálar í Garði voru frá fornu fari eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra – Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Í fornum heimildum kemur m.a. fram að árinu 1703 lágu níu hjáleigur til Útskála auk þriggja sem voru í eyði. Það er því firnamargt að sjá fyrir ferðamenn í sveitarfélaginu Garði sem og í nágrannasveitarfélögunum allan ársins.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0