Sýningaropnanir í Hafnarborg

Sýningaropnanir í Hafnarborg
Laugardag 27. maí kl. 15

Laugardaginn 27. maí kl. 15 verða opnaðar tvær sýningar í Hafnarborg. Í aðalsal safnsins er það sýningin Landsýn – Í fótspor Johannesar Larsen með ljósmyndum Einars Fals Ingólfssonar og teikningum Johannesar Larsen. Sýningin Dáið er allt án drauma verður opnuð í Sverrissal. Þar eru leiddar saman tvær listakonur, Sara Gunnarsdóttir og Una Lorenzen en þær hafa báðar bakgrunn í hreyfimyndagerð.

Einar Falur Ingólfsson fetaði í fótspor danska myndlistarmannsins Johannesar Larsen í þrjú ár, 2014 – 2016, er hann ferðaðist um Ísland og tók ljósmyndir á þeim stöðum sem Johannes hafði um 90 árum áður dregið upp rúmlega 300 teikningar á sögustöðum Íslendingasagna fyrir útgáfu danska forlagsins Gyldendal á Íslendingasögunum. Meginstef sýningarinnar er tíminn sjálfur, tími landsins og mannanna. Ljósmyndir Einars fjalla fyrst og fremst um samtímann þó að samtímis eigi þær í samtali við tíma Íslendingasagna og tíma Larsens á Íslandi. Ljósmyndaverk Einars geta vissulega staðið stök og sjálfstæð en undirstaða sýningarinnar er þó samtal Einars við teikningar Larsen.
Fimmtudaginn 1. júní kl. 14 verður Einar Falur Ingólfsson með listamannsspjall kl. 20.
Teikningin er útgangspunktur sýningar þeirra Söru Gunnarsdóttur og Unu Lorenzen, Dáið er allt án drauma. Titillinn er fengin að láni frá nóbelskáldinu og vísar í heim ímyndunaraflsins sem listamaðurinn býr yfir og sækir innblástur sinn í. Listakonurnar skapa heima í kringum valin augnablik eða hugmynd og leika sér að abstrakt og stundum súrrealískum umbreytingum eða afmyndunum. Sara færir teikninguna yfir í annan miðil, frá penna á blaði yfir í þræði á textíl. Una vinnur aftur á móti með gagnsæi teikningarinnar í hreyfimyndaseríunni Lygasögur þar sem áhorfendur sjá venjuleg augnablik í lífi fólks leysast upp eða umbreytast í abstrakt eða óhlutbundin myndheim sem er uppfullur af bæði trega og húmor.

Einar Falur Ingólfsson er bókmenntafræðingur að mennt og með MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Einka- og samsýningar með verkum hans hafa verið settar upp í söfnum og sýningarsölum á Íslandi og að víða erlendis, meðal annars í Scandinavia House og Katonah Museum í New York, Johannes Larsen Museet í Danmörku, Ljósmyndasafni Moskvuborgar og Frankfurt Kunstverein. Hann er höfundur nokkurra bóka.
Sara Gunnarsdóttir útskrifaðist frá Cal Arts vorið 2012 með heimildar-stuttmyndinni The Pirate of Love sem var tilnefnd til Student Academy Awards.  Sara starfar sem sjálfstæður animator og leikstjóri. Verkefni hennar hafa verið sýnd á hátíðum á borð við Berlinalen, Sundance, Tribeca Film Festival, Stockfish Film Festival, RIFF, Nordisk Panorama og fleirum.

Una Lorenzen hefur á undanförnum árum unnið að og leikstýrt verðlaunuðum heimildarmyndum, komið að hugmyndaþróun, hönnun og hreyfimyndagerð. Hún notar blandaða tækni við gerð tónlistarmyndbanda og kvikmynda sem hafa ferðast á hátíðir á borð við SXSW, MOMA (NYC), Fantasia (Montreal), Tricky Women (Vín), Nordisk Panorama (Svíþjóð) og online hjá Artforum. Una útskrifaðist úr grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands árið 2004 og lauk mastersgráðu í tilraunakenndri hreyfimyndagerð í California Institude of the Arts (CalArts) árið 2009.

Nánari upplýsingar veitir: Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar, s. 585 5790.