• Íslenska

Þjóðbúningurinn í öndvegi á þjóðhátíðardaginn

Íslenski þjóðbúningurinn verður að venju í öndvegi á 17. júní en fólk sem mætir í honum á hátíðarathöfnina á Austurvelli  kl. 11.15 verður boðið til sætis en þarf að skrá sig áður hjá Heimilisiðnaðarfélaginu á netfanginu [email protected] í síðasta lagi á morgun 15. júní.
Félagið býður upp á aðstoð við að klæðast þjóðbúningum fyrir athöfnina, svo sem festa húfur og hnýta peysufataslifsi í Iðnó kl. 10-11. Þaðan verður svo gengið að hátíðarhöldunum á Austurvelli. Skráningar hjá Heimilisiðnaðarfélaginu hafa gengið vel og má búast við stórum hópi í íslenska þjóðbúningum á þjóðhátíðardaginn.
Félagið stendur jafnframt fyrir þjóðbúningatískusýningu í Iðnó á 17. júní kl. 13.

Dagskrá:
•    Kl. 10-11  Safnast saman í Iðnó. Boðið upp á aðstoð við að klæðast þjóðbúningnum, til að mynda að festa húfur og hnýta peysufataslifsi.
•    Kl. 11 Gengið að hátíðarathöfn á Austurvelli þar sem þeim sem klæðast þjóðbúningi er boðið til sætis.
•    Kl. 13 Þjóðbúningatískusýning í Iðnó.
Morgundagskrá á Austurvelli kl. 10-12
Dagskráin hefst kl. 10 með samhljómi kirkjuklukkna í Reykjavík og síðan hefst hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni þar sem Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup predikar og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir og Sr. Sveinn Valgeirsson þjóna fyrir altari. Dómkórinn syngur undir stjórn Kára Þormars en einsöngvari er Heiðdís Hanna Sigurðardóttir.
Hátíðarathöfn á vegum Alþingis og Forsætisráðuneytisins hefst á Austurvelli kl. 11.15 en henni verður sjónvarpað og útvarpað á RÚV. Forseti Íslands, hr.Guðni Th. Jóhannesson, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar og forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson flytur hátíðarræðu. Fjallkonan flytur ávarp en ávallt hvílir leynd yfir því hver hún er þar til á hátíðarathöfninni. Mótettukór Hallgrímskirkju og Graduale Futuri, eldri barnkór Langholtskirkju syngja og lúðrasveit Reykjavíkur leikur.Að lokinni athöfn fer skrúðganga frá Austurvelli í kirkjugarðinn við Suðurgötu þar sem forseti borgarstjórnar, Líf Magneudóttir, leggur blómsveig frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur. Lúðrasveit Reykjavíkur leikur við athöfnina.

Frekari upplýsingar veitir Berghildur Erla Bernharðsdóttir kynningar- og markaðsstjóri Höfuðborgarstofu, símar: 411 6005 / 694 5149 / [email protected]