Tínum kúmen!

Á morgun þriðjudag verður boðið upp á kennslu í kúmentínslu út í Viðey og eru allir velkomnir! Það var enginn annar en „faðir Reykjavíkur“ hann Skúli Magnússon sem fór austur í Fljótshlíðina og sótti sér kúmen til ræktunar í Viðey. Ennþá sprettur það á eyjunni og öllum er frjálst að sigla út í eyju og tína sér þessa góðu jurt í poka. Undanfarin ár hefur mikill fjöldi fólks lagt leið sína út í Viðey í ágúst og sótt sér kúmen fyrir veturinn.

Viðeyjarkúmenið er þekkt fyrir einstök gæði, það er fíngerðara en annað kúmen, bragðmeira og sætara. Einstaklega gott í baksturinn svo ekki sé minnst á kaffið! Kúmenið býr yfir lækningamætti en í Viðey vaxa fjölmargar lækningajurtir, eins og vallhumall og mjaðjurt, og margar fleiri jurtir sem gott er að brugga í seyði eða einfaldlega búa til gott jurtaseyði. Það er því tilvalið að nýta ferðina og tína sér öflugar jurtir fyrir komandi vetur.
.
Engin formleg leiðsögn er um Viðey þetta kvöld en aðstoð veitt og aðferðin sýnd þeim sem ekki hafa áður tínt kúmen. Við mælum með því að fólk komi með taupoka og jafnvel skæri eða hníf.
Tengiliðir: Ágústa Rós Árnadóttir viðburðastjóri (4116356/820-1977) og Guðmundur Davíð Hermannson verkefnastjóri Viðeyjar (693-1440).

Auka¬ferðir eru á þriðjudags¬kvöldum til Viðeyjar frá Skarfabakka  kl. 18:15 og 19:15.
Veitingastaðurinn í Viðeyjarstofu verður opinn þetta kvöld og er upplagt að njóta kvöldverðar í eyjunni áður en hafist er handa við tínsluna.

Siglt verður heim kl. 21:00. Gjald í ferjuna fram og til baka er kr. 1100,- fyrir fullorðna og kr. 550,- fyrir börn 7–15 ára í fylgd fullorðinna. Frítt fyrir 6 ára og yngri. Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og í Viðeyjarstofu. Handhafar Gestakortsins sigla frítt.
Sjá nánar á www.videy.com  en þar er að finna góðar uppskriftir af gamaldagskúmenbrauði, kúmen pönnukökum og byggsalati með kúmeni.

Guðrún Helga Stefánsdóttir
Verkefnastjóri markaðs- og kynningarmála
S: 411-6343 / 899-6077
[email protected]

Sýningarstaðir Borgarsögusafns eru:
Árbæjarsafn, Landnámssýningin Aðalstræti,
Ljósmyndasafn Reykjavíkur Grófarhúsi,
Sjóminjasafnið í Reykjavík Grandagarði auk Viðeyjar.