Tvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg

Tvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg
Framköllun – Hekla Dögg Jónsdóttir
Neisti – Hanna Davíðsson

Laugardaginn 17. janúar verða opnaðar tvær afar ólíkar sýningar í Hafnarborg. Í aðalsal Hafnarborgar verður opnuð stór innsetning eftir Heklu Dögg Jónsdóttur (f. 1969) sem ber yfirskriftina Framköllun og felur í sér bæði ferli, gjörning og samstarf við aðra listamenn. Í Sverrissal safnsins er sýningin Neisti með málverkum og teikningum eftir Hönnu Davíðsson (1888 – 1966) sem nánast allt sitt líf lagði stund á myndlist mótuð af aðstæðum kvenna við upphaf 20. aldar.

hekladogg-portretVerk Heklu Daggar Framköllun er sjálfstæður heimur þar sem sköpun, úrvinnsla, miðlun og viðtaka listaverks eiga sér stað í sama rými. Hér er á ferðinni ný innsetning sem er eitt umfangsmesta verk listamannsins hingað til og dregur saman margt af því sem einkennt hefur sköpun hennar. Sýningarsal Hafnarborgar hefur verið umbreytt í kvikmyndasýningasal, upptöku- og vinnslurými þar sem 16mm kvikmynd er unnin, sett saman og sýnd. Svarthvítir eiginleikar filmunnar einkenna rýmið og móta þá sköpun sem á sér stað innan ramma sýningarinnar. Framköllun er allt í senn skúlptúr, gjörningur og þátttökuverk þar sem Hekla Dögg kallar fram það afl sem býr í samstarfi skapandi einstaklinga en hún fær til liðs við sig ýmsa listamenn sem vinna stutt myndskeið. Þeir hafa því áhrif á framvindu listaverksins en sköpun og frásögn verksins verður að miklu leyti til á sýningartímabilinu. Þannig er sýningin breytileg og verkið ekki hið sama við upphaf sýningarinnar og lok.

mynd-hanna_davidssonHekla Dögg Jónsdóttir er á meðal fremstu listamanna samtímans hér á landi. Hún hefur um árabil vakið athygli fyrir verk sem sýnd hafa verið í söfnum og öðrum sýningarstöðum bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Tate Modern safninu í London og Truck samtímalistamiðstöðinni í Calgary í Kanada. Hekla er prófessor í myndlist við Listaháskóla Íslands og hefur auk þess að skapa eigin verk haft áhrif á íslenskan myndlistarheim meðal annars með því að standa að baki Kling og Bang sem hefur verið atkvæðamikið samfélag listamanna um árabil. Sýning Heklu Daggar er unnin í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Í Sverrissal verður opnuð sýning á verkum Hönnu Davíðsson konu sem bjó og starfaði í Hafnarfirði við upphaf 20. aldar þegar íslenskar konur hlut kosningarétt árið 1915. Hanna er á meðal þeirra kvenna sem Hrafnhildur Schram fjallar um í bók sinni Huldukonur í íslenskri myndlist en þar varpar hún ljósi á ævi og störf tíu íslenskra kvenna sem námu myndlist erlendis um aldamótin 1900. Engin þeirra gerði myndlist að ævistarfi og aðeins tvær héldu sýningar á verkum sínum. Hanna var fædd Johanne Finnbogason árið 1888, en breytti nafni sínu í Hanna Davíðsson árið 1912 þegar hún gekk í hjónaband. Þó hún hætti að vera listakonan Johanne Finnbogason og yrði frú Hanna Davíðsson voru pensillinn og blýanturinn förunautar hennar nánast alla ævi. Á sýningunni Neisti eru teikningar og málverk frá ýmsum tímum, litlar myndir sem sýna viðfangsefni úr næsta nágrenni einkum blóm, fólk og umhverfið í Hafnarfirði auk ljósmynda sem varðveittar eru í Byggðasafni Hafnarfjarðar. Ljósmyndirnar hafa fæstar verið sýndar áður og eru af filmum sem fundust undir gólfi Sívertsenhúss í Hafnafirði. Hanna bjó um tíma í Sívertsenhúsi en það er nú hluti af Byggðasafninu.  Á meðal þess sem liggur eftir Hönnu eru skreytingar í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Hér eru á ferðinni sýningar á verkum tveggja kvenna sem líta má á sem fulltrúa ólíkra tíma bæði hvað varðar þá hugmynda- og aðferðafræði sem einkenna vinnu listamannsins og þá stöðu sem konur taka sér í samfélaginu og innan listheimsins.

Dagskrá:
Sunnudag 25. janúar kl. 15 verður boðið uppá leiðsögn um sýninguna Neisti.
Sunnudag 1. febrúar kl. 15 ræðir Hekla Dögg Jónsdóttir við sýningargesti um sýninguna Framköllun.
Föstudag 6. febrúar  – Safnanótt
Sunnudag 8. febrúar kl. 15 verður boðið uppá fjölskylduleiðsögn um sýninguna Framköllun.
Sýningarnar munu standa til 15. febrúar.