Veislur og vandræði

– Hádegistónleikar
Lilja Guðmundsdóttir og leynigestur

lilja2 icelandic timesÞriðjudaginn 3. maí kl. 12 mun sópransöngkonan Lilja Guðmundsdóttir koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara. Óperetturnar sem fluttar verða fjalla allar um veislur og vandræði en það er einmitt yfirskrift tónleikanna að þessu sinni. Einnig ætlar leynigestur að koma fram og syngja dúett með Lilju.

Lilja Guðmundsdóttir ólst upp á Kópaskeri og stundaði söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, við Söngskóla Sigurðar Demetz og í Konservatorium Wien í Vínarborg. Hennar helstu kennarar voru Sigríður Aðalsteinsdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Uta Schwabe. Meðal hlutverka hennar í skólanum í Vínarborg voru Fiordiligi í Cosi fan tutte, Lauretta í Gianni Schicchi, Corinna í Il Viaggio a Reims og Anne Trulove í The Rake’s Progress. Önnur hlutverk í Vínarborg eru Suor Osmina og Una Novizia í uppsetningu Theater an der Wien 2012 á Suor Angelica og Næturdrottningin í uppfærslu Oh!pera á Töfraflautunni sumarið 2014. Hér heima hefur Lilja sungið hlutverk Donnu Elviru úr Don Giovanni með Sinfoníuhljómsveit unga fólksins, Frasquitu í Carmen hjá Íslensku óperunni og 2. Niece í Peter Grimes á Listahátíð vorið 2015.
inni1 icelandic timesLilja1 icelandic times

 

Lilja hlaut styrki vorið 2009 og 2010 frá píanistanum Dalton Baldwin til að sækja námskeið í Frakklandi, fyrst í L’Académie Internationale d’Eté de Nice og seinna í Académie musicale de Villecroze. Vorið 2010 hlaut hún styrk úr Minningarsjóði Sigurðar Demetz og 2012 hlaut hún styrk úr Styrktarsjóði Önnu K. Nordal og hélt af því tilefni tónleika í Salnum í Kópavogi með Jónasi Ingimundarsyni.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.

Nánari upplýsingar veita:Áslaug Íris Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar, s.585-5790
Antonía Hevesi, s. 864-2151,