Opnun: Fimmtudaginn 18. janúar, 17:00 – 19:00
Við bjóðum ykkur velkomin á opnun sýningar Andreas Eriksson, Rauntími, í i8 Granda í Marshallhúsinu. Sýningin opnar 18. janúar og stendur til 18. desember 2024. Með því að bæta við einu nýju málverki mánaðarlega mun sýningin þróast yfir árið og undir lokin verða málverkin tólf talsins. Í rýminu við innganginn sýnir Eriksson nýtt upplagsverk, dagatal sem er prentað í 366 eintökum og endurspeglar fjölda daga á þessu ári.
Sýning Eriksson er þriðja heilsárssýningin í i8 Granda og kemur á eftir sýningu B. Ingrid Olson árið 2023 og Alicju Kwade árið 2022. Sýningar i8 Granda standa mun lengur en vaninn er hjá söfnum og galleríum og eru helgaðar hugmyndum um tíma og rúm þar sem hin langi sýningartími leyfir listamönnum að íhuga hvernig tíminn mótar verk þeirra og flæðið hvetur áhorfendur til að endurheimsækja breytilegar innsetningarnar. Þetta er önnur sýning Andreas hjá i8.
Einhver sem fékk bílinn minn lánaðan hlýtur að hafa kveikt á útvarpinu. Það var ekki stillt á sömu stöð og venjulega, þannig fyrir algera tilviljun heyrði ég hugmyndir nóbelsverðlaunahafans Arvid Carlsson um tímann og dauðann. Sem barn hafði hann verið svæfður með eter og upplifði það að vera hársbreidd frá dauðanum. Með sama hætti fann hann, nú sem gamall maður, dauðann nálgast og trúði því að tíminn/lífið myndi líða hægar og hægar allt að dauðastundinni. Á þeirri stundu myndi tíminn/lífið líða svo hægt að upplifunin virtist óendanleg. Ég spurði vin minn, heimspekinginn N-E Sahlin hvað tími væri og hann svaraði: „Það eru þónokkrar spurningar sem eru afar snúnar. Hvað tími sé er ein þeirra. Og svo má nefna upplifun okkar af tímanum en hún er eitthvað allt annað.“
Fyrsta minningin mín passar ágætlega við kenningu Arvid Carlsson. Ég hlýt að hafa verið um það bil níu mánaða og var ófær um að skynja umhverfi mitt, það var á meiri hraða en sjálf mitt eða vera. Skyndilega byrjuðu þessir tveir heimar að renna saman og mér leið eins og ég væri að ferðast í gegnum göng sem hægt og bítandi vísuðu mér í átt að sjálfi mínu eða veru. Þegar heimarnir mættust var eins og ég hefði verið endurfæddur. Ég bókstaflega lenti í dyragættinni heima og starði á skafrenninginn, blindaðist af snjónum og tapaði sjálfum mér aftur en í þetta sinn var það með sjónrænum hætti, „hinum megin“ við línuna.
Fyrir i8 Granda er ég búinn að gera dagatöl (í 366 eintökum) sem innihalda eina mynd fyrir hvern mánuð. Ljósmyndirnar eru teknar á eins stuttum tíma og myndavélin ræður við. Þær eru allar teknar af sama viðfangsefninu – snæviþöktu landslaginu við dyragætt vinnustofu minnar. Þau sem skoða gaumgæfilega geta greint fugl fljúga hjá.
Fyrir aðalrýmið í i8 Granda mun ég mála eitt málverk á mánuði yfir sýningartímann sem spannar eitt ár. Þannig verður sýningin fyrst tilbúin á síðasta sýningardegi og þá getum við haft bæði opnun og lokun.
Andreas Eriksson
Fyrir frekari upplýsingar um Andreas Eriksson, vinsamlegast hafið samband við Dorotheu Olesen: [email protected].
Mynd: Andreas Eriksson. Janúar, 2024. Egg olíu tempera og olía á striga. 163 x 107 x 4.5 cm (í ramma).