Ljóð og söngur

Sex ljóðskáld sem öll hafa hlotið verðlaun fyrir ljóð sín lesa upp ný og eldri ljóð í Hannesarholti laugardaginn 13.apríl kl.14. Anna Björg Hjartardóttir syngur nokkur jazz og blúslög við undirleik Matthíasar Baldurssonar á milli ljóða.

Fram koma:

Draumey Aradóttir er kennari, skáld og rithöfundur, fædd og búsett í Hafnarfirði, en hefur auk þess lagt stund á heimspeki og lífspeki. Tengsl hugar, tilfinninga og sálar eru grunntónn flestra ritsmíða hennar. Hún hefur gefið út sjö bækur, nú síðast ljóðabækurnar Varurð og Einurð. Draumey hefur hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar fyrir ljóð sín, m.a. á ljóðahátíð Ljóðstafs Jóns úr Vör og ljóðasamkeppni Júlíönu – hátíð sögu og bóka, sem hún sigraði 2023.

Garibaldi er skáldanafn Garðars Baldvinssonar, rithöfundar sog ljóðskáld. Hann hefur gefið út níu ljóðabækur ásamt smásögum og fræðaefni og fékk sérstaka viðurkenningu Bókmenntaverðlauna Tómasar Gudmundssonar árið 2000. Garðar hlaut tvenn verðlaun í Ljóðasamkeppni Ljósanótt í Reykjanesbæ árið 2023.  Hann hefur þýtt ljóð í tímarit og bókum, stundaði MA nám ’90-’95 í bókmenntum við University of British Columbia í Vancouver.

Gunnhildur Þórðardóttir er myndlistarmaður, kennari og ljóðskáld, með tvíhliða BA gráðu í myndlist og listasögu 2004 og MA í listsjórnun 2006. Hún er einnig með viðbótardiplóma í listkennslu á grunn – og framhaldsskólastigi. Hún er sjálfstætt starfandi listamaður og hefur gefið út sex ljóðabækur bæði á ensku og íslensku og tekið þátt í fjölda ljóðaupplestra, samsýninga og haldið margar einkasýningar bæði hérlendis og erlendis. Hún hlaut ljóðaverðlaunin Ljósberinn árið 2019.

Guðmundur Magnússon er fæddur 1981 og uppalinn í Garðinum. Hann er menntaður kvikmyndagerðarmaður og hefur unnið að gerð heimildamynda. Guðmundur er bókamaður, sögumaður og áhugamaður um sagnfræði og gefur út tímaritið Skiphóll tvisvar á ári þar sem birtar eru gamlar myndir og viðtöl við eldra fólk á Suðurnesjum. Hann fékk nýræktarstyrk Miðstöð íslenskra bókmennt fyrir ljóðabókina Talandi steina 2022 en Bjartur gaf hana út en hann er einnig einn af frumkvöðlum Bryggjuskálda.

Ragnheiður Lárusdóttir ljóðskáld er íslenskufræðingur, listkennslufræðingur og söngkennari að mennt og kennir við Menntaskóla Kópavogs. Ragnheiður hefur gefið út nokkrar ljóðabækur en fyrsta bók hennar “Eitthvað” hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2020  og var sú bók einnig tilnefnd til Maistjörnunnar. Næst kom Glerflísakriður 2021 og svo Kona/Spendýr árið 2022.

Anna Björg Hjartardóttir, söngkona og ljóðskáld, hefur verið framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis í áratugi hún hefur komið fram sem einsöngvari víða á viðburðum og er í tónlistarnámi. Anna Björg vann til verðlauna í Ljóðasamkeppni á Ljósanótt 2023.
Heldur fyrirlestra, verið með útvarpsþætti um heilsumál  og verið í stjórnum og ábyrgðum ásamt að vera virk í alþjóða friðar- menntunar og menningarsamtökum Soka Gakkai Int.

RELATED LOCAL SERVICES