Gunnar Jónsson: Í viðjum
16.10.2021 –24.10.2021
12:00–18:00 @ Gallerí Úthverfa
Það eru 5 mínútur í. Alltaf aðeins 5 mínútur í. Allsnægtir í viðjum hringrásar, ofgnótt alls í 5 mínútna fjarlægð. Rétt ókomin, alveg að koma. Alltaf aðeins 5 mínútur í.
Í ofgnóttinni fjarlægist ég. Í stað þess að verða skilvirk handbeini framkvæmda sem móttekur og afhendir jafnóðum, leggst ég undir strauminn. Beljandi straum hugmynda, ofgnótt allsnægta alls sem er og hugsast getur svo úr verður hálfgerð apatía. Doði. Ekki sinnulaus, þvert á móti. Fullur af meðvitund og ásetningi, en dofinn. Eins og í bíó.
Kapphlaup nútímans teiknast upp í tákn óendanleikans og neglist niður með hverju spori og mælist í tíma og rúmi.
(IS)
Gunnar Jónsson (f. 1988) er fæddur í Reykjavík en ólst upp á Ísafirði og býr þar og starfar í dag. Gunnar lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og hefur sýnt talsvert á Íslandi og erlendis síðan hann útskrifaðist. Gunnar er í stjórn sýningarsalarins Úthverfu.