Gunnar Guðmundsson G. Hofi

Gunnar Fæddur 30. maí 1898 Dáinn 23. október 1987 Nú er Munda amma mín dáin. Söknuður okkar sem elskuðum hana er mikill. Gunnar afi dó fyrir réttum fjórum árum og í þessari grein langar mig til að rekja ævi þeirra og heiðra þannig minningu kærleiksríkra hjóna sem gáfu mörgum svo mikið.

Afi fæddist að Skarði í Lundareykjadal skömmu fyrir aldamótin. Faðir hans var Guðmundur Einarsson refaskytta sem hafði verið vinnumaður að Skarði. Móðirin var Katrín Gunnarsdóttir, vinnukona á sama bæ. Frá Guðmundi er kominn mikill ættbogi sem ekki verður rakinn hér en hann átti fjögur börn með langömmu minni og 17 með seinni konu sinni. Katrín yfirgaf hann þegar hún gekk með afa og tvíburasystur hans, Herdísi. Lífið var erfitt á þeim tímum og vinnukonan mátti aðeins hafa eitt barn með sér í vistinni. Herdís varð eftir en hinum var komið fyrir á öðrum bæjum. Afi var aðeins mánaðargamall þegar hann var fluttur til vandalausra og fyrstu sjö æviárin var hann sendur af einum bæ á annan. Þá tók Steinunn móðursystir hans hann að sér og hjá henni og manni hennar bjó hann fram á unglingsár, fyrst á Akranesi en síðan í Njarðvíkum. Frá fyrstu tíð vann afi hörðum höndum fyrir brauðinu og naut lítillar hlýju fyrr en hann kynntist ömmu. Föður sínum kynntist hann ekki náið þó hann væri síðar vinnumaður hjá honum um hríð.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina kom Spánska veikin til Íslands. Veturinn 1918 var harður, Katla gaus og lífsbaráttan var erfið. Afi tók pláguna en stóð hana vel af sér og fór sama ár vestur í Önundarfjörð að vinna hjá Jóni Guðmundssyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal. Þá var dóttir hans, heimasætan Guðmunda Jóna, á þrettánda árinu. „Já, ástin hún kemur snemma,“ sagði amma með bros á vör þegar hún rifjaði upp þessi ár.

Amma fæddist 19. október árið 1905. Móðir hennar var Marsibil Guðbjörg Kristjánsdóttir. Amma talaði oft um hversu ástríkt og gott heimili hennar var og afi átti alla hennar samúð þegar æskuár þeirra bárust í tal. Þau trúlofuðust vorið 1919, giftust 23. nóvember 1921 og létu skíra fyrsta barnið um leið, Jón, sem fæddist í ágúst sama ár. Amma var þá aðeins 16 ára en henni þótti það ekki umtalsvert, þegar hún var spurð að því síðar. „Þetta gekk svona hægt og seint,“ sagði hún um tilhugalífið og hló við. Rómantíkin hefur blómstrað, um það bera bónorðsvísur afa til hennar fagurt vitni. Þær voru hálfri öld síðar sungnar inn á plötu af Gylfa Ægissyni sem var í miklu uppáhaldi hjá ömmu. Afi orti margar vísur um ævina og þær hafa verið gefnar út í litlu kveri, sem og endurminningar hans.

Búskap hófu afi og amma á Hofi í Dýrafirði í apríl árið 1923. Búskapurinn var fátæklegur fyrstu árin og afi tók alla íhlaupavinnu sem hann gat inni á Þingeyri. Amma var oft ein á Hofi á meðan og sá um búið og börnin, sem urðu níu en eitt lést í bernsku. Börnin eru þessi: Jón bóndi á Þverá, f. 1921, d. 1991, Guðmunda Steinunn húsmóðir, f. 1923, Gunnar Ríkharður bifvélavirki, f. 1924, Guðmundur, f. 1926, d. 1927, Aðalsteinn vélsmiður, f. 1928, Björgvin Hofs bifvélavirki, f. 1931, Marsibil Guðrún Anna starfsstúlka, f. 1933, Katrín húsmóðir og m.m. f. 1941 og Kristján vélsmiður, f. 1943. Barnarbörnin eru 32 talsins (eitt látið), barnabarnabörnin 46 og í fjórðu kynslóð eru fædd sjö börn.

Hann var mikill þúsundþjalasmiður, hann afi, og var frumkvöðull í landbúnaði á mörgum sviðum. Hann lærði á dráttarvél syðra árið 1930 og sléttaði túnin í Dýrafirði næstu tólf árin. Kaupið var ekki hátt, ein króna á tímann, en það var unnið sextán tíma á dag. „Og þannig gátum við bjargað okkur ofurlítið betur,“ eins og hann orðaði það einu sinni.

Haustið 1958 fluttu hjónin til Þingeyrar og höfðu með sér nokkrar skjátur og púddurnar fengu afdrep í hænsnakofa fyrir ofan húsið. Afi vann sem vélamaður í frystihúsinu næstu áratugina, en lét af því starfi 1970, þá 72 ára, og fór á grásleppu. Amma var með fyrsta vorið en afi var fimmtán vor á grásleppu og segir það sitt um vinnusemi þessarar kynslóðar.

Eftir er þó að geta þess sem þau afi og amma eru kunnust fyrri og það er listin sem þau lögðu rækt við á efri árum. Árið 1967 fór amma að fást við gerð mynda úr skeljum, steinum og muldu grjóti sem hún límdi á pappadiska, glerflöskur, hörpudiska og þó aðallega á niðursagaðar krossviðarplötur. Ári seinna lét afi gamlan draum rætast og fór að mála með olíulitum á striga, þá sjötugur að aldri. Mest málaði hann landslagsmyndir eftir ljósmyndum og fyrir kom að fólk kom með myndir af heimaslóðunum og bað um málverk. Oft leynist í myndunum hans huldufólk við nánari athugun, andlit í kletti eða álfur bak við stein. Alls urðu myndirnar á fjórða hundraðið. Flestar voru þær seldar á vægu verði og hæpið að alltaf hafi hann haft fyrir efniskostnaði. Þau héldu sýningar nokkrum sinnum, bæði vestra og í Reykjavík.

Oft fórum við barnabörnin í fjöruferðir og söfnuðum fallegum skeljum og steinum fyrir ömmu. Grjótið var flokkað eftir litum og stundum fengum við að mola það niður í þar til gerðu mortéli. Amma átti líka á litlum glösum keyptan skrautsand í öllum regnbogans litum, auk alls kyns sérkennilegra kuðunga og skelja sem henni bárust víða að. Við krakkarnir fylgdumst andaktug með þegar listaverkin urðu til í litla kjallaranum og biðum oft í þeirri von að mega kannski „skelja“ svolítið líka.

Ekki var minna gaman að koma á efri hæðina og þar vorum við systkinin nær daglegir gestir í æsku. Þar sá ekki í vegg fyrir alls kyns myndverkum, bæði á krossvið og striga. Amma hélt öllu til haga sem henni þótti fallegt. Þarna voru líka innrammaðar og skreyttar myndir úr tímaritum, ámálaðir hörpudiskar og flöskur og myndir á rekavið eftir Mundu móðursystur. Allar hillur voru fullar af kuðungum, skeljum og fjölskyldumyndum frá því mamma var lítil og í neðstu hillunni var dýragarður fyrir smáfólkið. Alltaf var eitthvað nýtt að skoða og ætíð boðið upp á kaffimjólk og lummur. Reyndar launuðum við ekki alltaf fyrir okkur sem skyldi því áður en við fórum heim stálumst við stundum til að klifra í risavöxnum trjánum í garðinum og ræna nokkrum lófum af rifsberjum. Amma og afi bjuggu í sannkölluðu ævintýralandi, eða það fannst okkur krökkunum að minnasta kosti.

Nú eru þau bæði horfin og ævintýralandið líka. Amma saknaði afa sárt þau fjögur ár sem hún lifði hann og nú eru þau vonandi eitt á ný. Minningin um ástrík hjón lifir áfram og hana eigum við í hjartanu þó allt annað bregðist.

Vilborg Davíðsdóttir

Sjá fleiri greinar um myndlistamenn sjá hér

400 Dýrafjörður


1898 - 1987


CATEGORIES
iframe code

NEARBY SERVICES

 • Best of Iceland

  Best of Iceland
 • Related Articles

   Kjarvalsstaðir – 0° 0° Núlleyja

   Kjarvalsstaðir – 0° 0° Núlleyja

   Kjarvalsstaðir Hekla Dögg Jónsdóttir - 0° 0° Núlleyja 18.11.2023 - 29.02.2024 Núlleyja er ímyndaður staður á miðju ha...

   100% Ull

   100% Ull

   19/09/20 - 31/01/21 Um sýninguna Ull er klassískur, náttúrulegur efniviður með óendanlega mögu...

   Karl Kvaran 1924 – 1989

   Karl Kvaran 1924 – 1989

   Karl Kvaran 1924 - 1989 Karl Kvaran er i hópi okkar bestu abstraktmálara, á þvi leikur naumast neinn vafi. Hann er 54...

   Hafnarborg – Listamanns- og sýningarstjóraspjall

   Hafnarborg – Listamanns- og sýningarstjóraspjall

   Hafnarborg Landslag fyrir útvalda – listamanns- og sýningarstjóraspjall Sunnudaginn 1. október kl. 14 Sunnudaginn 1. ...