Gallerí Fold – Dansað undir jökli

Jóhanna V. Þórhallsdóttir – Dansað undir jökli
9. september – 23. september 2023

Gallerí Fold kynnir einkasýningu myndlistar- og söngkonunnar Jóhönnu V. Þórhallsdóttur „Dansað undir jökli“.

Snæfellsjökull er merkilegt fjall. Sögusvið ævintýra og hjátrúar. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu fyrstir á fjallið fyrir 230 árum, þótti það fífldirfska. Allir sem gengu á jökulinn yrðu blindir eða galnir eða hvort tveggja. Meira að segja hafa geimverur lent við jökulinn.

Á góðviðrisdögum sést jökullinn vel frá Reykjavík og minnir á dularfulla eldkeilu við sjóndeildarhringinn. Þarna eru inngöngudyr að iðrum jarðar eins og Jules Verne hélt fram. 

Jóhanna V. Þórhallsdóttir dvaldi í sumar við rætur jökulsins og lét hann stjórna litavali á léreft. Hann ýmist brosti eða yggldi sig. Sýndi sig eða faldi. Hann stjórnaði náttúrunni í kringum sig eins og yfirvegaður hljómsveitarstjóri.

Jóhanna eltist við dynti jökulsins og eigin tilfinnningar. Voru gamlar munnmælasögur sannar? Verður maður blindur eða galinn í nánu sambýli við hann? Jökullinn er síbreytilegur þar sem hann dansar við skýin og gælir við gróðurinn. Stundum breytist myndin í ljóð. 

Sigurður Breiðfjörð rímnaskáld bjó um tíma að Grímsstöðum í Breiðuvík og hafði jökulinn fyrir augunum alla daga. Hann taldi að skáldskapurinn ætti upptök sín í jöklinum eða Hnitbjörgum. 

Sér að ber við svölu ský
silfurhvítan hökul;
fjallið kalla firar því
flestir Snæfellsjökul.

Breiðfjörð dansaði við jökulinn. Jökullinn dansaði við Jóhönnu og alla aðra sem heillast af töfrum hans.
(Ó.G.) 

Jóhanna V. Þórhallsdóttir er fædd í merki hrútsins árið 1957. Lærði söng og tónlist hjá Englendingum, Ítölum og hér heima. Söng víða bæði klassíska og samtímatónlist með Sinfóníunni og fleirum, jazz með landsliði íslenskra jazzista, latínómúsik með eigin hljómsveit. Stjórnaði fjölmennum kórum um árabil. Eftir hana liggja nokkrar hljómplötur.

Á seinni árum hefur hún einbeitt sér að málverkinu. Fór til Þýsklands til náms hjá Markúsi Lupertz o.fl. Vann til verðlauna fyrir myndir sínar á sýningu í Austurríki 2022. Hefur myndskreytt nokkrar bækur.

Jóhanna hefur haldið einkasýningar og sýnt í samfloti með öðrum.
„Dansað undir jökli“ er fyrsta einkasýning Jóhönnu í Gallerí Fold.

Sýningin opnar 9. september og stendur til 23. september.

Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg mán-fös 10 – 18 og laugardaga 10 – 16.

Rauðarárstíg 12-14 105 Reykjavík

+354 55 10400

[email protected]

myndlist.is/


9. september - 23. september 2023


CATEGORIES


NEARBY SERVICES

 • Best of Iceland

  Best of Iceland
 • Related Articles

   HönnunarMars – sýningar í Hafnarborg

   HönnunarMars – sýningar í Hafnarborg

   Miðvikudaginn 27. mars kl. 20 verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Hafnarborg í tilefni HönnunarMars. Það eru sýningarnar...

   Þjóðminjasafn Íslands – Keldur

   Þjóðminjasafn Íslands – Keldur

   Keldur á Rangárvöllum eru einstakur sögustaður og einn af merkustu minjastöðum á Íslands og má ætla að þar hafi orðið by...

   Spessi 1990-2020

   Spessi 1990-2020

   Spessi 1990-2020 27.3.2021-29.8.2021 Samtímaljósmyndarinn Spessi - Sigurþór Hallbjörnsson - hefur skapað sér einstak...
   Hugarflug vinnustofa

   Hugarflug – Brainstorm – Vinnustofa

   Hugarflug – Brainstorm – Vinnustofa

   Áhrif spurninga á hugarflug Í grein Hal Gregersen Better Brainstorming sem er að finna í nýjasta tölublaði Harvard Busi...