Laugardaginn 27. janúar kl. 15:00 opna tvær sýningar í Listval Gallery að Hverfisgötu 4. Feluleikur með verkum eftir Thomas Pausz og Sykurskírn með verkum eftir Ragnhildi Weisshappel.
THOMAS PAUSZ
FELULEIKUR
Feluleikur er vistfræðileg dæmisaga þar sem mörgum frásögnum vindur fram. Við rekumst á brot úr dagbók áhugadýralífsljósmyndara sem er villtur í Vatnsmýrinni, fugla sem gera sér hreiður í manngerðum byggingum, og aðdáanda Davids Attenborough. Thomas Pausz notar ljósmyndir, samklipp og hluti til að sýna erfiðið, löngunina og mistökin sem fylgja því að taka myndir af náttúrulífi: hann hefst handa við að gera sig ósýnilegan í náttúrunni og bregður sér í felubúning, bíður eftir varkárum fuglum, brasar við myndavélina en á það til að tapa fókusnum. Myndasafnið vísar í minningar eða drauma um annað landslag.
Vistfræðilegt samhengi verkanna á sýningunni er hvarf tegunda og villtrar nátturu, tilfinning nútímamannsins um sólastalgíu: Sú löngun og þrá að upplifa aftur óspillta og hreina náttúrusmíð sem við þekktum einu sinni. Við myndum mikilvæg tengsl við landslag og dýralíf í gegnum list og myndir – sérstaklega ljósmyndir. Thomas kannar sögu ljósmyndunar sem miðils. Í upphafi þurftu myndavélarnar langan lýsingartíma. Fyrstu ljósmyndir af „villtum“ dýrum voru þess vegna sviðsettar með uppstoppuðum skepnum. Með aukinni þróun á ljósmyndatækninni fóru ljósmyndarar að nota „ljósmyndafeldi“, lítil tjöld í felulitum þar sem þeir gátu leynst og náð myndum af viðfanginu. Sviðsmynd sýningarinnar er innblásin af þessum búnaði og verkar sem nokkurskonar milliliður á hinu mannlega og ó-mannlega. Þrátt fyrir að líffræðilegur fjölbreytileiki sé nú á miklu undanhaldi er framleiðsla á stórbrotnu dýralífsefni í háskerpu í mikilli framþróun.
„Ný dýrategund umkringir nú manninn – tegund dýra sem eru að hverfa, sem eru skilgreindar út frá hverfulleikanum. Með ljósmyndatækni eru dýr nútímans orðin að minningu um sama nútíma.“ (Akira Mizuta Lippit, Electric Animal)
Við erum vampírur sem sækjumst eftir myndum af hinu óspillta. Á sama tíma hönnum við sjálfstýrðar myndavélar á borð við fjarstýrðar myndagildrur til að ná stórfenglegum myndum af náttúrulífinu. Með þessum gildrum hverfur hið mannlega úr ljósmynduninni. Við hönnum okkar eigið hvarf og látum það i hendur hinna stafrænna tækja að standa augliti til auglitis við náttúruna. Með þessu móti er hætta á að fegurð upplifunarinnar glatist.
Verk Thomasar Pausz ljá tækjum og fagurfræði áhugadýralífsljósmyndunar nýtt samhengi og skapa tilbúið landslag og persónulega frásögn.
THOMAS PAUSZ
Thomas Pausz er listamaður og hönnuður, fæddur í París en býr og starfar í Reykjavík. Hann er með MA-gráðu frá Konunglega listaskólanum í Bretlandi og BA í heimspeki frá X-háskólanum í París. Verk hans eru unnin þvert á miðla. Þau hverfast um skálduð vistkerfi, efnislegar tilraunir og hugmyndir um annars konar tengsl við hið ómannlega umhverfi. 2023-2024 var Thomas útnefndur listamaður Stanley Picker galleríssins í London. Thomas Pausz hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis má þar nefna Haunted Ecologies í Stanley Picker Gallery í London, Interspecies Futures í Book Arts-miðstöðinni í New York, Í síkvikri mótun: Vitund og náttúra í Norræna húsinu í Reykjavík, Villiblómið í Hafnarborg í Hafnarfirði, The Swamp Pavilion á Feneyjatvíæringnum, Species without Spaces í Atelier Luma & hönnunartvíæringnum í Istanbúl, Food: Bigger than the Plate í Viktoríu & Albertssafninu í London og Out of the Sea í Passerelle-nútímalistamiðstöðinni í Brest, Frakklandi.
RAGNHILDUR WEISSHAPPEL
SYKURSKÍRN
Á sýningunni Sykurskírn með verkum eftir Ragnhildi Weisshappel gefur að líta verk unnin úr sykurmolum sem hún litar með ákveðinni dýfingartækni. Hvít-hreinsaðir sykurmolar sem eru allir svipaðir að lögun og stærð er dýft varlega í blöndu af málningu og vatni. Sykurmolarnir drekka í sig blönduna og innan nokkurra sekúndna festist litur í sykurkornunum. Markmiðið er að molarnir séu hálf-málaðir og listamaðurinn með stjórn á ferlinu. Hver moli hagar sér þó á sinn hátt og hver og einn fær einstakt litbrigði. Sykurmolunum er svo raðað saman hlið við hlið. Úr verður samsett heild af mörgum einstökum molum.
Verkin á sýningunni snerta á hugmyndum um skammtafræði. Í heimi skammtafræðinnar geta efniseindir og ljóseindir verið í mismunandi ástandi og jafnvel mörgum á sama tíma. Ljóseindir, rafeindir, róteindir og nifteindir geta sem dæmi hagað sér sem bylgjur, eins og hljóð, og sem eindir, eins og korn. Þessi undraverða hegðun gerir það að verkum að ekki er unnt að mæla ástand skammtakerfis, eins og ástand eða staðsetningu, heldur einungis líkurnar á ástandi og staðsetningu þess, sem á endanum ákvarðast af handahófi. Ólíkt klassískri eðlisfræði, þar sem hlutir hafa mælanlega og fasta eiginleika, þá byggir skammtafræðin í eðli sínu á líkindum.
Eitt verka á sýningunni er 119 x 119 cm og inniheldur 6400 litaða sykurmola. Mögulegar uppraðanir 6400 mola er tala sem byrjar á 1 og á eftir fylgja 21.592 núll. Hvað gerist ef þú snýrð molunum? Möguleikarnir margfaldast og verða stjarnfræðilegir. Bættu við litum, og möguleikarnir, og þar af leiðandi möguleikarnir á mögulegum listaverkum, verða nánast óendanlegir. Það er eðlilegt að maður missi máttinn við tilhugsunina um slíkar stærðir. Þetta er alltof óreiðukennt. Það hlýtur að vera ein leið betri en önnur.
Starf Ragnhildar, og annarra listamanna, snýst um að taka ákvarðanir. Hún þarf að finna bestu mögulegu möguleikana til að finna sinn sannleika gagnvart sinni listsköpun. Hversu erfitt er það þegar mögulegir valkostir eru óendanlega margir? Eru sumir möguleikar betri en aðrir? Svarið er já. Sumir möguleikar eru betri og áhugaverðari en aðrir í list. Ef það væri ekki svo, væru öll málverk í heiminum ómáluð. Rétt eins og öll tónlist væri þögul, bækurnar óskrifaðar og kvikmyndir myrkar. Ef ekki væri fyrir betri valkosti væri alheimurinn sjálfur tómarúm, og ekki til.
Ragnhildur dvelur jafnan í möguleikunum og veltir fyrir sér ólíkum leiðum. Það er mikil gæfa og forréttindi að hafa tök á því og okkur ber að virða það og varðveita. Án fjölbreytilegra sjónarmiða og ímyndunarafls væri lífið tilgangslaust, jafnvel hættulegt. Í sykurmolaverkunum verður til list í skýi allra mögulegra möguleika. Ragnhildi tekst að virkja ímyndunarafl okkar til að sjá ótæmandi möguleikana og upplifa frelsið í þeim. Með slíkri gagnvirkni mun listin ef til vill kristallast.
RAGNHILDUR WEISSHAPPEL
Ragnhildur Weisshappel nam myndlist á Íslandi og í Frakklandi og lauk MFA frá Listaháskóla Íslands vorið 2022. Hún hefur tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Ragnhildur vinnur í ýmsa miðla og notar þá sem tæki til að þýða úr einu í annað. Ragnhildur býr og starfar í Svarfaðardal.