Ragnar Kjartansson Móðir og barn, gin og tónik

Við bjóðum ykkur velkomin á opnun sýningar Ragnars Kjartanssonar, Móðir og barn, gin og tónik, fimmtudaginn 22. febrúar næstkomandi kl. 17, í i8 gallerí. Á sýningunni eru ný málverk eftir Ragnar og er þetta fimmta sýning hans í galleríinu.

Í verkunum tekst Ragnar á við málverkið, hið hefðbundnasta form formanna. Hann graðkar í sig stemmningum úr vinnustofunni og heimilinu og færir þær með olíu á striga. Einhvers konar kyrrð ríkir í mannlausum verkunum en óreiðan ber vitni um sýsl og basl á undan og eftir.

Á Feneyjatvíæringnum 2009 breytti Ragnar íslenska skálanum í klisjukennda vinnustofu málara og málaði daglega vin sinn, myndlistarmanninn Pál Hauk Björnsson, á meðan þeir reyktu og drukku bjór í sex mánuði. Hér að neðan má lesa texta Páls Hauks Míta/hugarburður/lygasaga um verkin á sýningunni Móðir og barn, gin og tónik.

 

Míta/hugarburður/lygasaga
Ég sá alltaf fyrir mér að einn daginn mundi ég bara vakna og komast að hvað í andskotanum gærdagurinn snérist um, segir Nikki, persóna Lauru Dern í bíómyndinni Inland Empire áður en hún krípur og kastar upp blóði á steypta gangstéttina, eins og rauðum punkt við enda óreiðukenndrar málsgreinar einnar ákveðinnar vestrænnar tilveru.[1] Mér hefur alltaf þótt þetta bíóatriði, ef maður ýmyndar sér það spilað óendanlega oft í röð, vera eins og verk eftir Ragnar, og nú þegar ég stend fyrir framan nýju málverkin verður mér hugsað til þess. Ekki vegna þeirrar ofur-einlægu/íronísku tilveru sem atriðið á svo sannarlega sameiginlegt með fyrri verkum Ragnars, heldur vegna fjarveru þessarar (hálf)aumkunarsömu tilveru sem gjarnan knýr verk hans.Á litríkum flötum málverkanna hefur tilveran vikið fyrir verunni. Kannski er það út af heiminum, hugsa ég. Myndirnar eru ekki tómar, á þeim er ofgnótt hluta, en það er fjarveran sem fyrst grípur mann. Fjarvera manneskjunnar, tilverunnar, þess sem gubbar blóði, uppsker viðbjóð móður sinnar 1000 sinnum eða syrgir að eilífu. í staðinn höfum við, að því virðist, nærumhverfi listamannsins, kunnuglega hluti og tól, ýmiskonar hljóðfæri, sviðsmyndir og annað sem með réttu mætti kalla props. Hluti sem telja má afsprengi þeirrar fagurfræðilegu mítu/hugarburðar/lygasögu sem listamaður(inn) er. Verkfæri og umhverfi listarinnar smættuð niður í fagurlega útfærð, merkingarlaus yfirborð listaverksins. Manni langar að setjast niður og dvelja akkúrat þar, í tóminu og kyrrðinni, að njóta merkingarleysisins, en efinn sem hið ýtrekaða flökt á milli íroníu og einlægni sem mítan/hugarburðurinn/lygasagan heldur að manni flækir málin.Ógn merkingarleysisins (sé maður á annað borð hræddur við það) er mögulega sprottin úr þversögninni sem felst í því að veran, eða þetta náttúrulega sem listin veigrar sér gjarnan við að tilheyra, endar. Eðlilega og óhjákvæmilega. Á meðan tilveran, listin, býður upp á fagurfræðilega endaleysu, skýjum ofar náttúrulegum dauðdaga. Hilmir Snær deyr ekki einu sinni hann deyr endalaust (svona metaforískt). Immanuel Kant, þýskur 18. aldar heimspekingur sem svífur en yfir vötnum, gerði einmitt þann greinarmun á náttúru og listum. Hann taldi að náttúruleg fyrirbæri hefðu markmið, væru ákveðinni markhyggju háð sem fæli í sér endanleika þeirra, á meðan list og fagurfræði væru eins konar lokaútkomur einhvers án þess þó að enda (e. finality without end).[2] Listin, tilheyrir hugverunni, hrærist í óáhugasamri (íronískt nokk) nautn tilverunnar. Tilveru sem Ragnar endurspeglar oftar en ekki í verkum sínum. Tilveru sem hann staðsetur þó eitthvern vegin með áhrifaríkum hætti á milli þessara tveggja andstæðu póla sem Kant reynir að afmarka, oft með þeim afleiðingum að hugmyndafræðileg viðfangsefnin spretta fram úr okkur, verða að ókleifum endaleysum sem bergmála í sakbitnu taugakerfinu (svona til dæmis) og við skynjum okkur ekki lengur sem túlkendur á yfirborði hlutanna heldur sem framlengingar af þessu sama yfirborði. Bara geometrísk og granfræðileg aukaatriði á yfirborði hlutveru sem fer sínu fram hvað sem okkur fynnst um það. Tilvistarlega það er að segja.

Mýta/hugarburður/lygasaga og listamaður. Hlutir sem í sjálfum sér hafa óljósa merkingu eru skýrar táknmyndir þess hugmyndafræðilega hugarburðar sem ferill eða saga listamannsins er. Franski hugsuðurinn Roland Barthes gerði grein fyrir mýtunni (goðsögunni, hugarburðinum, lygasögunni) í samtímanum á þann hátt að um væri að ræða merkingarfræðileg kerfi táknmynda sem hefðu glatað orsakasamhengi sínu. Þ.e.a.s. sambandið á milli merkingar og táknmyndar, það sem ákvarðar af hverju eitthvað merkir eitthvað, væri orðið okkur hulið, væri orðið goðsögulegt og fastmótað í menningarsamhenginu. Eins og frelsi, eða hamingja. Þannig látum við hlutveruna fjalla um tilveruna og fellum hana inn í endalausan endanleika fagurfræði Kants.

Mítan, hugarburðurinn, lygasagan sem er Ragnar knýr þessi málverk inn á ruglingslegri slóðir en yfirborð þeirra gefur til kynna og tilraunir mínar til að hrista í sundur merkingu og táknmynd reynast mér ofviða. Mér verður hugað til þess þegar móðir Ragnars kvíslaði eitthvern tímann að mér, þegar rétttrúnaðurinn var að heltaka mig að það væri óþarfi að skemma góða sögu með sannleikanum. List Ragnars er knúin tilveru (sem er aftur knúin sinni eigin mítu um manneskjur og tilgang og þar endalaust fram eftir götunum).

Það er í ljósi þessarar mítu/hugarburðar/lygasögu sem haganlega malerískt yfirborð verkanna opnast og lokast á víxl, stundum sem hótun um botnlausa endaleysu sektarkenndarinnar og stundum sem kyrrlát merkingarleysa uppstyllingarinnar. Yfirborð málverksins glansar, eins og pollur á sólríkum degi, þannig að ekki sést til botns og á krossgötum þess að hrökkva eða stökkva sveiflumst við á milli mítu/hugarburðar/lygasögu um angist og íroníu og byrtingarmyndar hlutveru á hæglátri ferð í átt að náttúrulegum endalokum.

Að horfa á málverk er að horfa á heiminn, óhjákvæmilega, og ég velti fyrir mér hvort það sé á þeim forsendum sem manneskjan hafi endanlega vikið fyrir mítunni/hugarburðinum/ lygasögunni. Hvort raunveruleg merkingarleysan sé fólgin í tilveru sem stendur frammi fyrir því að [þegar] allur tilgangurinn virðist handahófskenndur og gagnslaus[,] ákveður maðurinn, meðvitaður um að geta ekki verið neitt, að verða ekkert.[3]

[1] Inland Empire, David Lynch, 2006.
[2] Immanuel Kant, Critique of Judgment, 1790.
[3] Simone de Beauvoir, Ethics of Ambiguity, 1947.

RELATED LOCAL SERVICES