Sagan sem göturnar segja Skýr mynd af daglegu lífi, þjóð- og atvinnuháttum um 1910 sem gerði Reykjavík að þeirri borg sem hún er í dag Reykvíkingar – fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg er stórvirki sem rithöfundurinn Þorsteinn Jónsson er að vinna þessi misserin. Nú þegar hafa tvö fyrstu bindin komið út og von er á tveimur í viðbót nú á haustmánuðum – en alls áætlar Þorsteinn að bindin verði tíu. Það má segja að ritaröðin sé héraðssaga, en þó unnin eftir nýstárlegri að ferð. Þorsteinn nam þjóðhátta- og safnafræði og hefur gefið út yfir hundrað bækur, ættfræðirit og héraðsbækur. Hann er því á heimavelli þegar kemur að þvi að skrá héraðssögu Reykjavíkur. Til grundvallar bókunum er manntal Reykjavíkur árið 1910. Í lok 19. aldar var Reykjavík lítið sjávarþorp, en breyttist á þessum tíma úr bæ i borg. „Með tilkomu þilskipaútgerðar hóf fólk að flytjast til bæjarins í lok aldarinnar vegna þess að hún krafðist mikils vinnuafls,“ segir Þorsteinn. „Fólksfjölgunin var mjög ör, sérstaklega eftir aldamótin 1900 en þá hófst mikið blómaskeið í sögu Reykjavíkur, þar sem fjöldi húsa tvöfaldaðist á aðeins tíu árum og einnig íbúafjöldinn. Byggingameistarar voru fjölmargir upp úr aldamótunum og þeir byggðu á örfáum árum heilu göturnar. Dæmi um það er Sveinn í Völundi sem byggði Miðstræti fyrir hina efnameiri á tveimur til þremur árum. Einnig byggðist Grettisgatan og fleiri götur upp á sama tíma. Þessum tíma má kannski líkja við Reykjavík 100 árum síðar. Þetta var bóla og byggingameistararnir byggðu í rauninni miklu fleiri hús en þeir gátu selt, þannig að upp úr 1910 verður verðfall á húsnæði. En flest þau timburhús sem við eigum í Reykjavík í dag byggðust á þessu tíu ára tímabili. Það má, hins vegar, segja að tímabili timburhúsanna hafi lokið með brunanum á Hótel Reykjavík árið 1915, en þá brunnu 20 stórhýsi í miðbænum og eftir það má segja að steinsteypan sé orðin aðalbyggingarefnið hér. Eftir húsbrúnann var bannað að byggja samliggjandi timburhús og steinsteypan verður aðalbyggingarefnið.“
Hágæða ljósmyndir Þorsteinn segist með verkinu vera að reyna að tína saman sögu þessara timburhúsa og timburhúsamenningar, segja sögu fólksins sem byggði þessi hús og byggði bæinn. Í þeim 1186 íbúðarhúsum sem þá voru í Reykjavík bjuggu voru um 2400 heimili. „Það er dálítið merkilegt að sjá það í gegnum þessa vinnu að það hafa varðveist ljósmyndir af nær öllum sem áttu heima í Reykjavík árið 1910. Á þeim tíma voru þó nokkuð margar ljósmyndastofur reknar í Reykjavík og það var eins og tískufyrirbrigði að allir kappkostuðu að láta ljósmynda sig. Myndirnar eiga það allar yfirleitt sameiginlegt að vera í miklum gæðum enda voru þá myndirnar teknar á glerplötur sem voru með mjög þykkri, ljósnæmri silfurhúð þannig að myndirnar eru mjög fínkorna og skarpar. En fljótlega eftir þetta tímabil, hnignar allri þessari myndatöku, þannig að mannamyndir seinni tíma eru alls ekki í sömu gæðum og voru teknar fyrir og eftir aldamótin 1900. Þorsteinn segist hafa áætlað að alls yrðu tíu til tólf bindi í ritaröðinni. „Ég fer í visitasíuferð um Reykjavík eftir manntalinu 1910 og tek fyrir götur bæjarins eftir stafrófsröð og reyni að gera grein fyrir öllum sem áttu þá heimili í Reykjavík. Fyrir jólin í fyrra komu út 1. og 2. bindi verksins. Fyrstu tvö bindin ná frá Aðalstræti og í Bráðræðisholt. Núna eru að koma út næstu tvö bindin, þriðja bindið nær frá Brekkustíg til Frakkastígs og fjórða bindið frá Framnesvegi til Grettisgötu.“
Þrjátíu ár á leiðinni Það er nú ekki áhlaupaverk að skrá þessa miklu sögu og segja má að aðdragandinn að henni sé býsna langur. „Ég setti upphaflega upp handrit að svona ritverki um Reykjavík 1901 fyrir þrjátíu árum. Þegar ég hafði verið að skoða það efni dálítið sá ég þessa þróun og breytingar á fyrsta áratug aldarinnar, þannig að ég uppfærði handritið frá 1901 til 1910 en þar með jók það verulega á vöxtinn. Það eru hins vegar tvö ár síðan ég hóf eiginlegan undirbúning að útgáfu verksins. Það má segja að þetta sé ævistarfið mitt í hnotskurn, því þó svo ég hafi unnið að ýmsum öðrum útgáfuverkum, hef ég verið að safna til þessa verks beint og óbeint í áratugi. Einnig hef ég unnið að ýmsum ritverkum sem á einn eða annan hátt tengist efninu. Ég hef gefið út ýmis héraðsrit, svokölluð ábúendatöl, í gegnum tíðina, til dæmis um ábúendur í Breiðafjarðareyjum, tveggja binda verk sem heitir Eylenda. Ljósmyndaáhugi hefur lengi fylgt mér og byrjaði ég að skrá gamlar ljósmyndir héðan úr Reykjavík árið 1977, en sú vinna varð síðan grunnurinn að Ljósmyndasafninu, sem í dag er Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Mér fannst dálítið spennandi að taka Reykjavík þessum tökum en gerði mér grein fyrir að þetta væri ekkert áhlaupaverk, sérstaklega myndaöflunin. Það var fyrst fyrir tveimur árum að mér fannst ég búinn að safna nógu miklu myndefni til að geta komið á þrykk einhverju áhugaverðu um þessa sögu.“
Saga ráðherra og vatnsbera „Beinagrindin í verkinu má segja að sé ættfræðilegs eðlis, það er að segja, um fólkið. Það er fyrsti grunnurinn og við það verk hef ég notið góðrar aðstoðar Eggerts Thorbergs Kjartanssonar, sem er afar vandaður fræðimaður. Til að setja kjöt á beinin, þá hef ég farið í gegnum mikið safn æviminninga, bæði útgefinna og í handriti, sem og minningagreina í blöðum og tímaritum, til að fjalla um fólkið sem bjó í Reykjavík 1910, til þess að geta sagt sögu þess. Áhugavert er að segja sögu alþýðufólks í Reykjavík á þessum tíma, því einhverra hluta vegna hefur henni ekki verið haldið til haga, en í ritverkinu er reynt að segja sögu allra, jafnt vatnsberans sem ráðherrans. Og það hefur veitt mér mikla ánægju að geta náð í efni um fólk sem ekki átti neina afkomendur, þannig að úr verður nokkuð heildstæð saga. Það hefur skipt miklu máli í þessu ferli að ég hef getað leitað til afkomenda þeirra sem fjallað er um í ritverkinu um aðstoð við myndaöflun. Það hefur verið afar ánægjulegt að vinna með því fólki þar sem allir hafa kappkostað að heiðra minningu síns fólks með því að tína til myndefni og fróðleik um það. Öðru vísi verður svona verk ekki unnið. Það luma margir á gömlum myndum frá Reykjavík, jafnvel filmum og glerplötum og er slíkt mikill hvalreki fyrir verkið. Síðan hef ég keypt nokkur glerplötusöfn frá ljósmyndurum og einnig frá einstaklingum sem áttu glerplötuvélar á sínum tíma. Þessar myndir hef ég látið skanna inn í tölvutækt form fyrir útgáfuverkefnið – en frumglerplöturnar hafa síðan gengið til Þjóðminjasafns Íslands, sem sýnt hefur verkinu mikinn áhuga og veitt mér verulegan stuðning í myndaöflun.“
Kryddað með sögum af þjóðlífi Fjöldi þeirra glerplötusafna sem Þorsteinn hefur keypt eru frá mönnum sem voru ljósmyndarar á þeim tíma sem ritröðin er byggð á. „Flestar myndanna sem við birtum í þessu ritverki hafa ekki sést áður,“ segir Þorsteinn. „Sumir þessara ljósmyndara voru að mynda húsin að eigin frumkvæði en síðan var nokkuð algengt að eigendur húsanna fengju ljósmyndara til að mynda þau þegar þau voru fullbyggð. Þau söfn sem erlendir ferðamenn hafa tekið frá Reykjavík eru líka býsna áhugaverð – en þar sannast að glöggt er gests augað, því þeir eru að taka myndir af allt öðru en ljósmyndarar sem voru starfandi í Reykjavík, því þeir voru nokkuð bundnir við Kvosina. Einnig er mikill fengur í myndasöfnum sem áhugaljósmyndarar hafa tekið, því þeir hafa oft myndað hús, umhverfi, þjóðlíf og fleira sem aðrir hafa ekki myndað.“ Alls hefur Þorsteinn núna látið skanna tugþúsundir ljósmynda af fólkinu í Reykjavík og myndum af húsum, þjóðlífi, atvinnulífi o.fl. inn á tölvutækt form. Þar er ekki aðeins um að ræða húsamyndir og portrettmyndir af fólki, heldur af atvinnulífi og þjóðlífi. „Sagan sem ég er að skrá á ekki að vera þurr upptalning á fólki og húsum, heldur reyni ég að krydda þetta með sögulegu ítarefni, æviágripi fólksins, ítarefni sem tengist þjóðlífi og atvinnuháttum. Oftast tengist það horfnum atvinnuháttum og ég reyni að setja mikið inn af efni sem segir frá daglegu lífi fólks og hinu mikla brauðstriti þessa tíma. Vatnsveitan kemur ekki fyrr en 1909 þannig að þarna bjó fólk við dálítið forna búskaparhætti. Það þurfti að sækja vatnið í brunna og konurnar urðu að fara upp í þvottalaugar til að þvo allan sinn þvott, svo dæmi sé tekið.“
Örir búsetuflutningar Þegar Þorsteinn er spurður hvers vegna hann hafi lagt göturnar í borginni til grundvallar við ritun sögunnar, segir hann: „Eftir að hafa velt aðferðinni fyrir mér um tima, fannst mér þetta vera einfaldasta framsetningin: að miða verkið frekar við hús og götur, ásamt því að staðsetja það við einn tíma vegna þess að á þessum tíma voru búsetuflutningar gríðarlega örir í Reykjavík. Ef ég hefði farið að setja saman skrá um búferlaflutninga innan Reykjavíkur, hefði það orðið mikil og hrá upptalning. Þess vegna lagði ég meiri áherslu á að finna efni um líf fólksins.
Skipulag borgarinnar – sýn og þróun Það er von mín að þetta ritverk getið orðið heimildagrunnur fyrir fræðimenn að frekari rannsóknum á byggingasögu Reykjavíkur og ýmsum félagsfræðilegum þáttum um íbúa bæjarins. Reykvíkingar áttu ekki byggingarsamþykkt fyrr en árið 1903. Því liggur í hlutarins eðli að það var undir hælinn lagt hvort þau hús sem byggð voru fyrir þann tíma fengju að standa áfram þegar bæjarfélagið fór að leggja beinar og breiðar götur eftir skipulagsteikningum. Þannig hurfu mörg hús og önnur voru flutt um set. Vesturbærinn byggðist svo upp að miklu leyti á ræktuðum túnum, en Austurbærinn á grýttum holtum. Á fyrsta áratug aldarinnar voru flest hús reist árið 1906. Voru helstu húsasmiðirnir Sveinn Jónsson, Einar Pálsson, Guðmundur Jakobsson, Sigvaldi Bjarnason og Magnús Blöndahl, en þeir stóðu síðan að stofnun timburverksmiðjunnar Völundur, sem jók mjög afköst mann til húsbygginga. Timburhúsin urðu vandaðri og menn fóru að setja svalir á timburhúsin og skurðútflúr um glugga o.s.frv. Það er nosturverk þessara húsasmíðameistara sem við dáumst að þegar við förum um gamla bæinn. Aðspurður hvenær hann hyggist ljúka þessu mikla og stórbrotna verki, segir Þorsteinn: „Ég ætla að reyna að ljúka þessu verki á næstu þremur til fjórum árum. Til þess að þau áform gangi eftir er ég nokkuð háður því að fólk sem á í fórum sínum gamlar ljósmyndir, annað hvort af húsum eða fólki í Reykjavík, haldi áfram að útvega mér gamlar ljósmyndir og leggi þannig verkefninu lið. Ég rek myndlistargallerí á Skúlagötu þrjátíu, Reykjavík Art Gallery, og þar er hægt að hafa samband við mig. Bókaforlagið mitt er þar einnig til húsa og þar brjótum við um bækurnar og skönnum myndirnar í þetta verk. Einnig er hægt að hafa samband við mig á netfanginu [email protected]. Fólk kemur með myndir til okkar og við skönnum þær inn á meðan fólk bíður, þannig að við þurfum ekki að vera að fá lánaðar myndir.“