Karl Jóhann Jónsson – Mín eigin samsýning

Mín eigin samsýning, málverkasýning Karls Jóhanns Jónssonar opnar í Gallerí Fold laugardaginn 26. október kl 14.

Titillinn „Mín eigin samsýning” vísar til fjölbreytileika verkanna á sýningunni og þeirra ólíku myndefna sem Karl Jóhann fæst við. Má þar nefna portrettmyndir, landslagsmyndir og uppstillingar. Að sögn Karls eiga myndefnin það sameiginlegt að vera sprottin út frá persónulegri nostalgíu og þeirri myndlistarstefnu sem hann hefur sterkastar taugar til, raunsæisstefnunnar eða realismans.

Yfirskrift sýningarinnar vísar til þessarar nostalgíu Karl Jóhanns gagnvart þeim viðfangsefnum sem hann velur sér og eru samtíningur af ýmsum toga. Viðfangsefnin vekja að hans sögn ljúfsára kennd sem hann sækist eftir, eins og til dæmis slitnir gúmmískór, heiðarleg pulsa í brauði, krúttlegt þrastarhreiður eða nýþveginn þvottur úti á snúru; einhvers konar fortíðarþrá í einföldum hversdagsleikanum.

Þótt myndefnið sýnist hefðbundið segir Karl Jóhann það vera hans eigið pönkaða mótsvar við þeim viðhorfum sem hann kynntist í myndlistarnáminu, þar sem kennarar hömpuðu litum, línum og formum abstraktsins en litu rómantík portrettsins hornauga.

„Í einhverri borgaralegri óhlýðni og undir áhrifum nýja málverksins, þegar fígúran hélt aftur innreið sína inn í myndflötinn, hef ég sveiflast í öndverða átt og meginviðfangsefni mitt hefur verið portrettið og uppstillingin. Þar hef ég gefið mér leyfi til að finna mína eigin nálgun á það sem þegar er búið að mála milljón sinnum.”

Karl Jóhann Jónsson (f. 1968) útskrifaðist úr málaradeild MHÍ 1993 og lauk prófi í listkennslu í LHÍ 2006. Hann hefur meðfram myndlistinni starfað við myndmenntakennslu í Hörðuvallaskóla í Kópavogi og á námskeiðum í Myndlistarskólanum í Reykjavík.

Karl Jóhann á að baki fjölda einka- og samsýninga. Ennfremur hefur hann tvívegis tekið þátt í dönsku portrettkeppninni Portræt Nu, sem haldin er á vegum Carlsbergs safnsins í Friðriksborgarhöll og verk hans verið valin til sýningar þar. Meðfram myndlistinni hefur hann samið og myndskreytt bækur fyrir börn ásamt því að myndskreyta bækur eftir aðra höfunda. Hann hlaut myndskreytiverðlaun sem kennd voru við Dimmalimm árið 2010 fyrir bók sína Sófus og svínið.

Sýningin opnar
laugardaginn 26. október kl. 14 og stendur til 16. nóvember 2024.

Verið velkomin
Opið er í Gallerí Fold á Rauðarárstíg
mán-fös 12 – 18 og laugardaga 12 – 16.

RELATED LOCAL SERVICES

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0