Frá haga til maga

Fjóshornið, Egilsstöðum
Á einum fegursta og  gróðursælasta hluta landsins stendur reisulegt býli sem hefur verið í eigu sömu ættarinnar  samfleytt í 119 ár. Egilsstaðir á Völlum.  Þekkt fyrir fyrirtaks framleiðslu úr einu myndarlegasta kúabúi landsins, ákváðu eigendurnir þau Vigdís Sveinbjörnsdótir og Gunnar Jónsson að færa út kvíarnar og opna veitingastaðinn og verslunina Fjóshornið svo sem flestir fengju notið afrakstursins.
Landinn veit að mjólkurvörur af ýmsu tagi hafa verið hluti af daglegri neyslu íslendinga frá fornu fari og geta séríslensk afbrigði af skyri og ostum oft glatt bragðlauka þeirra sem áhugasamastir eru. Vinnsluaðferðir, þó líkar séu, hafa nefninlega sín sérkenni og hver framleiðandi setur sinn brag á útkomuna.  Mikill metnaður er greinilega lagður í framleiðsluvörur Egilsstaðabúsins/Fjóshornsins enda eru vinsældir þeirra engu líkar.

Gaman er að geta þess að Vigdís lærði skyrgerð af tengdamóður sinni en  sótti síðar námskeið í ostagerð á Hvanneyri. Vigdís framleiðir nokkrar jógúrttegundir og svokallað Egilsstaðaskyr  sem selt er bæði hreint og með bláberjum sem tínd eru á Egilsstaðajörðinni. Osturinn Egilsstaðafeti er mörgum kunnur enda sérstaklega vinsæll.  Allar mjólkurvörur eru unnar  í lítilli vinnsluaðatöðu inn af veitingastaðnum Fjóshorninu.
DSC01489Verslun og veitingar
Veitingastaðurinn sem er staðsettur í nýbyggðu húsi skammt frá nýja fjósinu á Egilsstöðum státar af dýrindis matseðli.  Þar er meðal annars hægt er að fá kaffi og með því um helgar á milli kl. 14.00 – 17.00. Virka daga er opið frá 11.30 – 18.00 en þá er líka hægt að fá hádegisverð . Boðið er upp á fyrsta flokks nautavöðva, gúllassúpu og hamborgara  og svo heimabakað bakkelsi og skyrtertur með kaffisopanum.
Í Fjóshorninu er einnig hægt að kaupa vörur sem byggjast á framleiðslu Egilsstaðabúsins, nautakjöt, ferskostinn Egilsstaðafeta, jógúrt og gamaldags skyr úr mjólk Egilsstaðakúnna. Fjóshornið er opið frá júníbyrjun til ágústloka en hægt er að panta fyrir hópa utan þess tíma.
Mikill áhugi er á vandaðri íslenskri framleiðslu og þess má geta að nokkrir veitingastaðir nota afurðir frá Fjóshorninu í sinni matargerð.

Framúrskarandi vörur og  augljóst er að metnaður býr að baki öllu sem viðkemur bæði rekstri og framleiðslu. Vel þess virði að fylgjast með í framtíðinni enda Fjóshornið greinilega ekki þekkt fyrir minna en að bera fram það allra besta!

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0